föstudagur, september 22, 2006

Lymska frjálshyggjumanna

Leiðari Fréttablaðsins 21.september fjallar um vændisfrumvarpið sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hyggst leggja fram. Það er á þá leið að vændi sé leyfilegt að stunda og kaupa en hinsvegar megi ekki auglýsa það. Það verður semsagt álíka eftirlit með auglýsingum um vændi eins og áfengisauglýsingum, sem líka eru bannaðar eins og öllum má vera ljóst sem sjá ‘léttöl’ auglýst hvað eftir annað. Bara eitthvað brenglað fólk sem les áfengi inní svo saklausar auglýsingar. Eins verður með vændisauglýsingar, sem verða vandlega umorðaðar þannig að allir skilja hvað átt sé við. Og standi ekki ‘vændi til sölu’ þá verður ekki hægt að kæra.

En ég ætlaði að tala um leiðara Fréttablaðsins. Þar er talað mjög gegn sænsku leiðinni og leiðaraskrifari þekkir greinilega öll rökin fyrir henni:

„Vændi er í langflestum tilvikum félagslegt vandamál. Samkvæmt tölum frá Stígamótum hafa 65 til 85 prósent kvenna sem stunda vændi orðið fyrir einhvers konar kynferðislegu ofbeldi. Þessar konur eru oft illa settar andlega, líkamlega og félagslega.“

Og:

„Auðvitað felast ákveðin siðferðisleg skilaboð í því að gera kaup á vændi refsiverð. Eftirspurn myndi líklega minnka í kjölfarið.“

Þetta skilur leiðarahöfundur. Það sem honum finnst hinsvegar meira um vert er þó að vændi myndi ekki hverfa með öllu. (Ekki fremur en morð hafa alveg lagst af við að þau eru bönnuð með lögum.) Og hann kemst að þeirri uggvænlegu niðurstöðu að,

„þeir sem myndu áfram nýta sér aðstöðu vændisfólks væru ekki löghlýðnustu borgarar landsins.“

Mér finnst auðvitað líka að löghlýðnir borgarar eigi að fá að kaupa sér vændi í friði. Ægilegt að láta illmennum það eftir, góðu kallarnir þurfa líka sitt!

Og svo klykkir hann út með uppáhaldsklisju allra vændisunnenda:

„Í einhverjum tilfellum fer sala kynlífs fram með fullu samþykki og vilja beggja aðila.“

Mikið sem karlmönnum finnst nauðsynlegt að einblína á þessa einu konu sem þeir heyrðu einhverntíman um og sagðist vera happí í starfi og bara ekki linna látum fyrir greddu. Útaf þeirri goðsögn á að réttlæta hverja ferð þeirra til vændiskvenna, allra þessara sem karlmenn eru þegar búnir að misnota.

Hér sviptir leiðarahöfundurinn af sér grímunni og stígur óhikað fram:

„Ríkisstjórnin, eða 63 alþingismenn, hefur ekkert með það að gera að segja fullorðnu fólki hvernig það eigi að haga sér. Fólki á að vera frjálst að selja ótilneytt líkama sinn til kynlífs á sama hátt og það selur vinnu sína.“

Margir lesenda halda kannski að leiðarahöfundurinn sé umhyggjusamur náungi sem kynnt hefur sér allar staðreyndir og komist að þeirri niðurstöðu að ríkið eigi ekki að skipta sér af kynlífi fólks. En málið er nefnilega að leiðarahöfundurinn er frjálshyggjumaður. Hann er einn þeirra Heimdellinga og SUS-ara (formaður Heimdallar 2000-2002 og stjórnarmaður í SUS 2001-2003) sem hafa haft sig mjög frammi hin síðustu ár og haft afar slæm áhrif í samfélaginu. Frjálshyggjumönnum er nefnilega slétt sama um hve margar konur eru seldar eða hverjum, svo framarlega sem framboðið af þeim annar eftirspurn og verð helst í jafnvægi við úrvalsvísitölu – eða eitthvað álíka. Mannslíf eru þeim einskis virði og verða aldrei. Ríkisvald er eitur í þeirra beinum og þeir vilja vilja leggja það niður, með öllu sem því fylgir (öll stjórnsýsla og já sveitarstjórnir líka) en lögreglan má starfa og þá eingöngu til að vernda eignarréttinn! Það er það eina sem þeir skilja og vilja: peningar.

Ég á örugglega oft eftir að missa mig útí bölbænir í garð frjálshyggjumanna en þessi leiðari, sem minnir helst á úlf í sauðagæru, er ástæða þess að ég óska þeim til helvítis hér og nú.

Efnisorð: , ,