mánudagur, ágúst 21, 2006

Get over it, I'm getting bored

Stundum finnst mér óþægilegt þegar ég les viðtöl við konur sem hafa orðið fyrir hræðilegum hlutum eins og nauðgunum og sifjaspellum og þær segjast vera búnar að jafna sig eða að þær hafi komið sterkari útúr því eða orðið betri manneskjur á einhvern hátt. Ég velti því fyrir mér hvað nauðgurum finnst þegar þeir heyra þetta; finnst þeim þá enn réttlætanlegra að nauðga því það hafi bara góð áhrif þegar upp er staðið? Flestir sem ég heyri tala um svona viðtöl eru samt voða fegnir að heyra að konurnar séu ekki ‘fastar í sjálfsvorkunn’ eða ‘hati karla’. Stundum fylgir í kjölfarið saga af konu sem á að hafa leitað aðstoðar hjá Stígamótum og komið út sem karlahatari sem velti sér endalaust uppúr verri hliðum lífsins og hafi í stuttu máli sagt aldrei litið glaðan dag síðan.

Það sem ég held að fólk meini í raun er þetta: Við þolum ekki að hafa fyrir augunum konu sem ber merki þess að hún hafi verið brotin niður. Við þolum ekki að hún gangi í gegnum skeið þar sem hún horfist í augu við hvað gerðist og hverjum það er að kenna. Við viljum ekki að karlar þurfi að taka ábyrgð á því að þeir eða aðrir karlar nauðga. Við viljum ekki að Stígamót séu að benda konum á að nauðgunin hafi ekki orðið vegna þess að konur séu sífellt að koma sér í þær aðstæður að körlum þyki eftirsóknarvert að nauðga þeim, heldur séu það karlar sem leiti uppi konur til að nauðga eða hagræði hlutum þannig að konur séu einar með þeim svo þeir geti nauðgað þeim. Við viljum ekki þurfa að hugsa út í það að karlar nauðgi, í stuttu máli sagt. (Meira síðar um afhverju karlar þola ekki að konur jafni sig ekki eftir nauðgun eða óttist að lenda í nauðgun.) Okkur hentar hinsvegar ágætlega að halda að til sé einhver einn vondur nauðgari (og auðþekkjanlegur sem slíkur) sem beri ábyrgð á flestum nauðgunum (sjáið bara hvað Steingrímur Njálsson er heppilegur, á meðan er fjölda stúlkubarna nauðgað af feðrum sínum) eða þá að konur séu bara að misskilja aðstæður eða jafnvel hefna sín á annars ágætum drengjum. Stígamót eru óþægilega mikið að benda á hið gagnstæða.

Konur sem bera þess lengi merki að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, jafnvel alla ævi, njóta lítils skilnings. Fólki finnst að á einhverjum tímapunkti verði konan að hafa ‘jafnað sig’, helst sem fyrst. Og auðvitað jafna margar konur sig, að flestu eða öllu leyti. Það getur hinsvegar tekið langan tíma og engin getur sagt til um hve langan. Sumar konur eru þannig gerðar að þær geta hrist af sér allt sem á þeim dynur í lífsins ólgusjó og aldrei virðist neitt bíta á þeim. Aðrar eru þannig að við áfall eins og það að verða fyrir nauðgun er líf þeirra í rúst. Og endurbyggingin getur tekið langan tíma. (Það að konunni er ekki trúað eða jafnvel að umhverfið standi með ofbeldismanninum – eins og stundum gerist í sifjaspellsmálum flýtir ekki fyrir bataferlinu, einnig ef konan kærir en maðurinn hlýtur ekki dóm.)

Kannski má líka segja að þessi viðbrögð annarra séu merki um sjálfhverfni nútímamannsins, það að einhverjum líður illa í minni augsýn er óþægilegt fyrir mig og þá á hún bara að hætta því útaf því að öllu máli skiptir að mér líði vel. Ég heyrði eitt sinn af konu sem var þunglynd. Samstarfskona hennar til margra ára kom að máli við hana og sagði: „Ef þú verður ekki búin að rífa þig ekki uppúr þessu þunglyndi þegar ég kem úr páskafríinu þá verður önnurhvor okkar að hætta, ég get ekki unnið með svona fólki.“ Og sú þunglynda hætti auðvitað, enda ekki á hennar líðan bætandi að vita að hún ylli samstarfsfólki sínu svona miklum andlegum þrengingum. En ég velti samt fyrir mér hvort sú sem sagði þetta við konu sem henni hafði líkað vel við árum saman áður en hún féll í þunglyndi, hefði ekki e.t.v. átt að sýna meira umburðarlyndi. Eða jafnvel – svo ég gerist væmin – náungakærleik? Eða átti hún bara skýlausan rétt á að henni mætti brosmilt andlit þegar hún kæmi til vinnu?

Kannski var það bara í rómantískum sögum sem fólk syrgði maka sinn eða fyrstu ástina það sem eftir var ólifað og fékkst aldrei til að líta við neinum öðrum eftir það. Kannski er heilbrigðara að fara fljótlega að svipast um eftir öðrum og leita hamingjunnar á ný, sannarlega reynir umhverfið, þ.e. vinir og ættingjar, að fá þá syrgjandi til þess. Mér virðist sem að við erum öll ólík og að við eigum misauðvelt með að jafna okkur og halda áfram, hvað sem það er sem varð til þess að tilvera okkar hrundi til grunna. Aðrir mættu svo taka tillit til þess frekar en reyna að þröngva öllum til að ‘hætta þessari sjálfsvorkunn’.

Efnisorð: