fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Starfsánægja og siðfræði

Þeim er vorkunn sem vinna störf sem þeim þykja leiðinleg og óáhugaverð. Margar fá þó sem betur fer vinnu eitthvað það sem þeim þykir skemmtilegt og sumum tekst meira að segja að finna sér starfsvettvang útfrá útgangspunktinum: Hvað finnst mér skemmtilegast og í hverju er ég góð? Og stofna jafnvel eigið fyrirtæki í kringum þetta áhugamál sitt og mæta svo glaðar og kátar til starfa hvern dag.

Þetta er samt ekki alltaf góð hugmynd, þ.e. það að láta áhugamálin ein ráða hvert stefna skuli, a.m.k. ekki hvaða áhugamál sem er. Ef helsta áhugamálið er að stunda ofbeldisfulla tölvuleiki er þá jákvætt að langa til að gerast hermaður, leyniskytta eða handrukkari? Og ætti viðkomandi að láta það eftir sér?

Mörgum karlmönnum finnst það að leika í klámmynd eða stunda vændi hljóti að vera eftirsóknarverðasta starf í heimi, því það sameini kynlíf – sem er helsta áhugamál margra – og launatékka. Þar af leiðir að þeir eru ófærir um að setja sig í spor þeirra sem eru í rauninni í þessum störfum, en auk annars fær það fólk, eða a.m.k. konurnar, mjög litla ánægju útúr kynlífinu, sem þarf að stunda hvort sem löngun er til þess eða ekki og með mótaðila sem hugsanlega er allsekki geðslegur. En þetta sjá ekki þeir sem eru uppfullir af því hvað þá sjálfa langar og halda að sé sniðugt.

Það þarf að kenna siðfræði í grunnskólum og ræða hana í fjölmiðlum – ekki bara þegar illa fer fyrir einhverjum einstaklingum – heldur jafnt og þétt og gera fólki ljóst að hegðun þess skiptir aðra máli. Og að það á að skipta hvern og einn máli hvaða áhrif hún eða hann hefur á umhverfi sitt, hvaða fyrirmynd það er fyrir börn, og hvernig okkur kemur til með að líða þegar við lítum um öxl og íhugum gerðir okkar.

Efnisorð: ,