laugardagur, september 16, 2006

Dýraníðingar

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag var svo ógeðsleg fyrirsögn að minnstu munaði að ég yrði að fleygja blaðinu ólesnu. Þá er ég að tala um fyrirsögnina sem vísaði í náungann sem seldi dýraníðingum aðgang að hestum í Danmörku. Það var svo margt rangt við þetta að ég veit vart hvar skal byrja.

Í fyrsta lagi þá hefði mátt sleppa því að slá þessu upp á forsíðu með þessari fyrirsögn. Það var erfitt að setja blaðið á morgunverðarborðið. (Og rosalega fannst mér þetta eitthvað DV-legir taktar).

Í öðru lagi skiptir ekki nokkru máli að hestarnir eru íslenskir.

Í þriðja lagi er þetta ekki ‘kynlíf’ heldur ofbeldi gegn dýrum og karlmenn sem slíkt stunda – eða selja aðgang að dýrunum – eru dýraníðingar, sbr. barnaníðingar.

Og svo það sem er auðvitað alvarlegast af öllu: verknaðurinn gagnvart hestunum.

Ég hef svosem áður heyrt um karlmenn sem gera svona hluti við kindur og annan búfénað (og man ekki betur en það hafi verið einhver ógeðs-ítölsk-bíómynd í Sjónvarpinu einhverntíman þar sem karlmenn níddust á múlösnum). Ég, eins og allt venjulegt fólk, skil auðvitað allsekki hvernig hægt er að láta sér detta svona lagað í hug og hvað þá að hafa geð á að framkvæma það. En samt tel ég mig vita nokkurnvegin, svona þegar ég velti því fyrir mér hvað veldur.

Karlmenn telja sig hafa rétt á að fá kynferðislegum löngunum sínum svalað hvar sem er og hvenær sem er af hverri þeirri konu sem á vegi þeirra verður. Flestir komast fljótlega að því, eftir tólf ára aldurinn, að það er ekki svo einfalt og læra að hemja sig og bíða eftir að fá viljugan rekkjunaut. Aðrir – og þeir eru verulega margir – sætta sig aldrei við það og láta fátt stoppa sig í því sem þeir vilja. Smáatriði eins og að kona vilji sofa hjá þeim er ekki fyrirstaða (þeir suða, hóta eða hreinlega nauðga) því hennar vilji skiptir þá engu – heldur hvað þeir vilja. Þetta snýst auðvitað ekki alltaf um kynlíf því þetta er líka spurning um að vilja hafa vald yfir öðrum. Það er mjög auðvelt að hafa vald yfir börnum og valdalausust allra eru dýrin, sem geta ekki einu sinni kjaftað frá. Kannski eru einhverjir karlmenn í raun og veru með kynhvöt sem snýr að dýrum en mig grunar að sumir þeirra níðist á þeim bara til að gera eitthvað ‘öðruvísi’, ‘prófa eitthvað nýtt’, eða til að sýnast sniðugir fyrir vinum sínum. Það, að saklaus skepna verður fyrir þeim er þeim engin fyrirstaða því þeir telja sig hafa rétt á að fá þessa útrás fyrir nýungagirnina eða fyndnina eða hvað það nú er, burtséð frá hvernig dýrinu líður.

Og enda þótt einhver segi kannski að skepnur kippi sér ekkert upp við þetta (ég hef í alvöru lent í þannig samtali), þeirra fengitími eða tilhleypingar eða hvað það kallast, einkennist nú ekki beinlínis af upplýstu samþykki, þá myndum við varla vita ef þær yrðu verulega miður sín, er það? Má ekki láta þær njóta vafans og hlífa þeim við ógeði sem þröngvað er uppá þær af skepnu af annarri dýrategund?

Karlmenn – sumir hverjir – eru svo skyni skroppnir að þeim finnst þeir ekki bera siðferðilega ábyrgð á því sem þeir gera öðrum, hvort sem það er kona, barn eða húsdýr. Ef dýrið sýnir ekki svipbrigði þá hlýtur því að vera sama. Ef kona grætur er það bara útaf því að hún er með móral. Ef barn … æ, ég get ekki hugsað það til enda. En allavega, þessum karlmönnum finnst þeir hafa rétt á þessu.

Og þó karlmenn sem ganga svona langt séu vonandi undantekningar (held samt ekki, allavega benda tölur um konur og börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi ekki til þess) þá er alveg öruggt að karlveldið sem slíkt, elur upp í mönnum þá trú að þeir skipti meira máli en konur og börn, svo ekki sé minnst á dýr. Allt frá Biblíunni, þar sem sagt er að konan sé síðri karlmanninum og að hann drottni yfir dýrunum, yfir í samfélög nútímans sem stjórnað er af körlum, þá eru skilaboðin þau sömu: þinn er mátturinn og dýrðin.

Þessvegna finnst þeim þeir hafa rétt á að gera það sem þeim sýnist.

Efnisorð: ,