fimmtudagur, september 28, 2006

Öll velkomin eða allir velkomnir?

Svo ég haldi aðeins áfram á málfarslínunni þá er er áberandi hvað allur fjöldi fólks verður alltaf að körlum. Séu margar konur og margir karlar saman komin þá er sagt að ALLIR hafi skemmt sér vel. Ekki þau ÖLL, konurnar og karlarnir, heldur ALLIR. Hverjir eru þessir allir? Jú, karlarnir, það eru þeir sem telja.

Og þessi karlkenning er notuð í fleiri tilvikum. Í Mogganum 5. júlí 2006 er fyrirsögnin „Þrír hlutu styrk vegna lokaverkefnis.“ Um er að ræða eina konu og tvo karla, eins og fram kemur bæði í texta og á mynd. Samt eru þau „þrír.“ Ég myndi telja þau sem þrjú.

Merkilegt líka þetta með að orð í orðabókum eru alltaf í karlkyni ef ekki er vitað um kynið, enda þótt kvenkynsorðin séu oftast styttri og taki því minna pláss og hlyti að vera sparnaður í að nota þau sem mest. (Dæmi: Góður – góð, hörkulegur – hörkuleg, bleikálóttur – bleikálótt, gulur – gul.)

En reglan er: Allt hlýtur ávallt að vera kall!

Efnisorð: