þriðjudagur, október 24, 2006

Til að nauðga og til að glápa á

Mogginn er meistari hinna tvöföldu skilaboða. Forsíða laugardagsblaðsins (21.okt) var gott dæmi. Á forsíðunni var frétt um hin ógeðslegu ummæli Pútíns undir fyrirsögninni „Vafasamur brandari um nauðganir.“ (Hann var semsagt að tala um nauðgarann sem gegnir embætti forseta Ísraels og sagði að hann hefði komið öllum á óvart með að vera karl í krapinu, hann hefði nauðgað tíu konum og að þeir öfundi hann allir.) Fyrirsögnin segir lesendum að svona eigi nú ekki að tala og Mogginn virðist vera hneykslaður.

En við hliðina á mynd af Pútín á forsíðunni er mynd af léttklæddum ungum konum í Bláa lóninu. (Meira síðar um áráttu Moggans fyrir léttklæddum konum.) Þær eru flestar í baðsloppum yfir bikinium en fletta frá sér til að ein þeirra geti tekið mynd, sú er á bikini einu fata. Textinn er makalaus, hér eru hápunktarnir:

Við vitum að vísu ekki hvaða tilefni varð til þess að þessar föngulegu vinkonur ákváðu að stilla sér upp svo að vinkona þeirra gæti tekið mynd af þeim, en hins vegar má öllum vera ljóst að þegar maður á annað borð stillir sér upp fyrir myndatöku þá er aldrei að vita nema að ljósmyndari Morgunblaðisins sé nálægur og nýti tækifærið.
… og í Bláa lóninu í gær hvarflaði ekki að nokkrum manni að kvarta.

Hér skín karlremban í gegn og þá ekki síður viðhorf ljósmyndara og blaðs til kvenna, þær skal nýta þegar færi gefst.

Er ekki svolítið merkilegt að myndskreyta nánast fréttina af Pútín með hálfnöktum konum? Og segja svo að þær geti sjálfum sér kennt?

Efnisorð: ,