þriðjudagur, september 15, 2009

Á mannamáli - bók um kynferðisbrotamál

Í dag stökk ég útí uppáhaldsbókabúðina mína og keypti nýútkomna bók eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, Á mannamáli. Bókin fjallar um kynferðisofbeldi: brotin, dómana, aðgerðirnar og umræðuna.

Ég er ekki búin að lesa bókina, þó hraðlæs sé, en fletta gegnum hana og held að þetta sé stórmerkileg bók. Hún er sett upp á svipaðan hátt og Draumaland Andra Snæs Magnasonar (allar heimildir útá spássíu) og á það að auki sameiginlegt með því verki að höfundurinn er ekki sérmenntuð í umfjöllunarefninu, heldur hefur þrælað sér gegnum allar fáanlegar upplýsingar um það og komið því á mannamál.

Bókin ætti að gagnast öllum sem fjalla um kynferðisbrot, hvort sem er í kerfinu, fjölmiðlum eða á litlu afkimabloggi.

Nú þegar hefur bókin komið mér að gagni, því ég fann tölulegar upplýsingar um hve margar kærur eru ekki á rökum reistar; hef bætt þeim upplýsingum við og breytt síðustu bloggfærslu í samræmi við þær.
___
Viðbót: Steinunn Stefánsdóttir fagnar útkomu bókarinnar í leiðara Fréttablaðsins og segir meðal annars: „Þar er ekki bara safnað saman miklum upplýsingum sem snerta kynbundið ofbeldi og raðað saman í mynd heldur eru þessar upplýsingar settar í samhengi, samhengi sem stundum kemur á óvart.“

Efnisorð: ,