fimmtudagur, september 24, 2009

Ekki alltaf til fyrirmyndar

Á laugardaginn var þátturinn Flakk í Ríkisútvarpinu, að þessu sinni tileinkaður fyrirmyndum karla. Til dæmis bar á góma sjónvarpsþætti þar sem karlmenn eru feitlagnir kjánar* og karla sem uppalendur. Talað var við ýmsa karlmenn** og þeir virtust frekar skynsamir í orðavali. Þátturinn var semsagt barasta jákvæður fyrir karlkynið. Sko til.

Ég hlustaði á þáttinn að mestu leyti í bílnum*** en slökkti vegna þess að ég þurfti að yfirgefa bílinn til að fara í bókabúðina. Ég var rétt nýkomin þar inn þegar ég heyrði bílflautu þeytta af miklum móð og leit út. Bíll ók eftir Lækjargötunni og var karlkyns farþegi frammí með endann úti**** og þóttist líklega fyndinn. Ég glotti við tönn og hugsaði um karla sem fyrirmyndir.

__
* Yfirskrift útvarpsþáttarins Flakks var semsé „Uppburðalausir kjánar?“
** Einn viðmælenda Lísu Páls í þættinum var fyrrverandi formaður Félags ábyrgra feðra (sem nú heitir Félag um foreldrajafnrétti) og meira segja hann hljómaði nokkuð skynsamlega, en að öllu jöfnu froðufelli ég þegar ég heyri á þann félagsskap minnst.
*** Restina heyrði ég í upptöku í tölvunni heima.
**** Við Guðrún Þuríður urðum sammála um að það hefði verið ljótari endinn.

Efnisorð: