sunnudagur, september 20, 2009

Klám er kynheilsufarsvandamál

Kynfræði eru eflaust nauðsynleg til að kortleggja kynhegðun manna, rétt eins og önnur fræði sem rannsaka mannlegt atferli hvort sem það er hóphegðun eða einstaklingshegðun. Það sem ég botna hinsvegar ekki er kynfræði sem meðferðarúrræði. Mannfræðingar kenna okkur ekki að hegða okkur eins og menn, því ættu kynfræðingar að kenna okkur rétta kynhegðun?* Það sem ég er í rauninni að láta fara í taugarnar á mér er viðtalið við kynfræðinginn í helgarblaði Fréttablaðsins. Þar verður henni tíðrætt um kynheilsu en fer svo í vörn fyrir klám - og ekki í fyrsta skipti. Ég man aldrei eftir viðtali við hana þar sem hún segir styggðaryrði um klám.

Þegar ég las dönsku blöðin hér í eina tíð þá voru þar bréfakassasvör sérfræðinga, þ.e. fólk gat skrifað bréf um allskyns vandamál og sérfræðingar á ýmsum sviðum sátu fyrir svörum. Það var viðbúið, fengi kynfræðingurinn (sexolog) bréf þar sem kona kvartaði yfir kyndeyfð (eða öllu heldur kallinn kvartaði og konan leitaði sér „hjálpar við vandamálinu“) eða jafnvel sagði að eiginmaðurinn væri forfallinn klámfíkill, að svar kynfræðingsins var á eina leið: „Þið ættuð nú bara að horfa á klám saman.“ Þvílíkt skilningsleysi! Allatíð síðan hef ég haft horn í síðu kynfræðinga og sú íslenska er þar ekki undanskilin.**

Í viðtalinu við Fréttablaðið er hún svosem ekkert að mæra klám eða mæla með því. En vill greinilega árétta að hún sé ekki á sama máli og kynjafræðingar (lesist: feministar) um klám og finnst það greinilega alger firra að „margir halda að flestar konur þoli ekki klám.“ Og í umræðunni um netnotkun unglinga imprar hún ekki svo mikið sem á því að klám sé unglingum skaðlegt.

Það getur velverið að þessi tiltekni kynfræðingur mæli ekki með klámi við viðskiptavini sína. Ég held samt að mér sé óhætt að álykta að hún geri það.*** Hún vill ekki að klám sé bendlað við barnaklám. Henni finnst náttúrulega fínt að mæla með klámi - eða horfa sjálf á klám - þar sem BÚIÐ er að nauðga börnum og brjóta þau niður, sjálfsmynd þeirra og þau mörk sem venjulegt fólk hefur á hvað eru eðlileg mörk í kynlífi. Hún vill ekki þurfa að horfa á það gert (í barnaklámi) heldur njóta afrakstursins: konur í klámmyndum eru í 95% tilvika þolendur kynferðisofbeldis í æsku.****

Klámmyndir - þessar þar sem fullorðið fólk "leikur" - þrífast á nauðgunum á börnum.

Hvernig er þá hægt að tala um kynheilsu og klám í sömu andránni?

___
* Þarna passa ég mig auðvitað á að nefna ekki sálfræði, sem bæði rannsakar og veitir meðferð. En dæmi um mannfræði hentar mér betur. Reyndar eru mannfræðirannsóknir á öpum miskunnarlaust misnotaðar með því að yfirfæra þær á mannlega hegðun; rétt eins og vegna þess að við erum skyld simpönsum og górillum sé hægt að álykta um hegðun fólks sem búið hefur í borgum í árþúsundir sé ekkert ólíkt litlum hópum sem búa útí náttúrunni og eiga engin samskipti við aðra hópa dýra nema til að berjast við þá um fæðu.

** Ég skrifaði neðanmálsgrein um kynfræðinga við þessa færslu og um „klám fyrir konur“ sem kynfræðingar halda fram að sé skárra en annað klám hér og um „muninn“ á erótík og klámi hér og um klám og barnaklám hér. Lesendur sem vilja lesa meira um það sem ég hef skrifað um klám, er bent á að neðst við hverja færslu um það efni er merkingin „klám“ og með því að klikka á reitinn koma upp allar færslur mínar gegn klámi.

*** Ég man ekki betur en það hafi komið fram í einhverju viðtali við hana hér á árum áður, en þó getur verið að hún sé hætt því. Hinar dönsku starfssystur hennar — en hún lærði einmitt kynfræðimeðferðina þar — eru sannarlega meðmæltar því. Og útfrá því dreg ég þessa ályktun.

**** Til eru rannsóknir um fólk í kynlífsiðnaðinum (klámi, strippi, vændi) og niðurstöðurnar eru allar þær sömu: að nánast allar konur sem starfa sem vændiskonur, strippa eða sitja fyrir í klámi og leika í klámmyndum eru þolendur kynferðisofbeldis í barnæsku eða á unglingsárum. Ég vísa í rannsókn sem var gerð á fólki í vændi hér og hér. Svo má bæta því við að konur sem frægar eru fyrir að sýna silikonbættan líkama sinn í „ögrandi stellingum,“ svo sem Pamela Anderson hafa sagt frá því að þeim hafi verið nauðgað í æsku (eins og segir frá í bók Þórdísar Elvu Á mannamáli).

Efnisorð: , ,