miðvikudagur, október 07, 2009

Ósjálfráður lestur

Nýlega fór ég í heimsókn á hjúkrunarheimili og tók eftir að við dyrnar var auglýsing um varnir vegna svínaflensunnar. Ég las spjaldið og fór svo inn í herbergið þar sem aðrir gestir voru fyrir. Ég þóttist ekki vilja taka í hendur viðstaddra af ótta við smit og þegar fólk rak upp stór augu spurði ég hvort þau hefðu ekki lesið auglýsinguna frammi. Það hafði engin viðstaddra gert. Mér er það afturámóti ósjálfrátt að lesa texta sem er fyrir framan mig, jafnvel þó ég sjái hann bara útundan mér. Þyki mér hann forvitnilegur virðist ég hafa þörf fyrir að snúa mér að honum og lesa betur. Fari ég í lyftu veit ég strax hvort ég er í Schindlers lyftu (sem vekur alltaf kátínu mína) og hvenær hún var síðast skoðuð.*

Af sömu orsökum er mér ómögulegt að lesa gegnum blöð og tímarit án þess að taka eftir auglýsingum og slúðurfréttum, hversu mjög sem ég vildi losna við að lesa þær. Það þýðir ekkert að segja við mig að ef fréttir af Lindsey Lohan og fólki af hennar sauðahúsi fari í taugarnar á mér skuli ég bara sleppa því að lesa þær. Ef þær eru fyrir framan mig les ég textann, þó ekki nema fyrirsögnina í flestum tilvikum því fljótt fyllist ógeðsmælirinn. Mig langar ekkert til að fylgjast með drykkju, framhjáhöldum og holdafari fræga fólksins, hef engan áhuga á fólkinu sem slíku og óbeit á slúðurpressunni sem fjallar um það eins og sálarlaus dýr.**

Fréttamiðlar á netinu eru enn verri en þessi eini blaðsnepill sem ég les með morgunmatnum, því þar ægir öllu saman og erfitt að vita hvenær óhætt er að lesa lengra án þess að bera varanlegan skaða á siðferðiskenndinni. Lengi vel lét ég mér nægja RÚV vefinn til að fylgjast með fréttum en eftir hrunið fyrir ári dugði það ekki til. Fljótlega fannst mér Eyjan þægileg til að fylgjast með fréttum og umræðum en slúðrið og ruglið sem slæddist með truflaði mig gríðarlega, ekki síst vegna þess að myndum af þessu vesalings fræga fólki*** er þar troðið í andlitið á manni. Þegar fréttir voru færðar neðst á síðuna en allt slúðrið sett þar á undan (í dálknum „fólk“) þá gafst ég upp.


(Af Eyjunni 19. janúar).

Þá fór ég að fylgjast með Fréttagáttinni og ánetjaðist henni. Ekki séns að missa af neinu því allar fréttir eru uppfærðar á fárra mínútna fresti. En böggull fylgir skammrifi og hann ekki góður. Slúðurfréttir eru í bland við aðrar fréttir eins og ekkert sé og alloft eru þaraðauki miklar upphrópanir um mikilvæg tíðindi sem reynast eiga upptök sín í fótbolta eða öðrum íþróttum. Þá er nú betra að hafa myndir til að geta forðast frekari lestur og að íþróttir eigi sérsvæði (eins og í blöðunum) sem hægt er að sniðganga.

Ég veit vel að það er hægt að stilla Fréttagáttina þannig að einungis innlendar fréttir**** sjáist eða þá bara erlendar (í stað allra frétta þarmeð talið slúðurs og íþrótta) en þá er vandinn sá að ég get ekki gert upp við mig hvort ég eigi að einbeita mér meira að innlendu fréttunum eða þeim erlendu. Ég vil ekki vera svo þröngsýn að láta mig engu skipta náttúruhamfarir í útlöndum þó hér á landi sé allt í voða, né vil ég einbeita mér svo að erlendum fréttum að framhjá mér fari hvað gengur á í innanlandspólitík. En þó fréttir um Icesave og stjórnarsamstarf taki á þá er það ekkert á við þá lágkúru sem slúðurfréttir leggjast í þó velta megi fyrir sér hvort sé verra fyrir sálartetrið.

___
* Ég er ekki hrædd í lyftum og slíkar upplýsingar vekja mér hvorki ótta né öryggiskennd, þær eru einfaldlega oftast eina lesefnið á staðnum og því innbyrtar með hraði.
** Ég held reyndar að ef maðurinn (homo sapiens) hefur sál þá hljóti dýr líka að hafa sál, en það er önnur umræða.
*** Craig Ferguson bendir á — á sinn frábæra hátt í uppistandsatriði í þætti sínum — að það sé í lagi að gagnrýna valdhafa en óhamingja fólks sé ekki skemmtiefni enda þótt það sé frægt. (Þátturinn er ekki textaður en skoski hreimurinn hans er hvorteðer óþýðanlegur yfir á íslensku).
**** Þá sjást ekki „fréttir“ frá AMX lengur, en það er nú meiri ömurðin sem þar er skrifuð. DV sést hinsvegar þar, fréttin sem birtist þar í dag um atburðina í Hörðalandinu er svo yfirgengilega ósmekkleg að ég vildi að ég þyrfti aldrei að sjá DV framar. Og já, ég get sjálfri mér um kennt að hafa viljað lesa meira eftir að ég sá fyrirsögnina.

Viðbót: Um það leyti sem bloggfærslan var skrifuð blöskraði fleiri bloggurum þessar ósmekklegu slúðurfréttir og þrýstihópar voru stofnaðir. Arnar Eggert skrifaði líka ágæta grein og sýndi að fjölmiðlafólki er ekki skemmt frekar en okkur hinum.

Efnisorð: ,