laugardagur, október 24, 2009

Meðan íslenskir karlmenn hafa lyst á að kaupa sér kynlífsþjónustu verður vændi og mansal við lýði

Mér finnst ástæða til að safna saman fréttum og góðum greinum sem skrifaðar eru um mansalsmálið en líka um mansal yfirleitt og vændi sem hluta af því. Steinunn Stefánsdóttir skrifar t.d. góðan leiðara í Fréttablaði helgarinnar. Hún segir m.a. þetta:
Það er auðvitað afleitt að starfsemi erlendra glæpahringja skuli vera farin að teygja anga sína hingað til litla Íslands. Því má þó ekki gleyma að mansal þrífst á Íslandi vegna þess að eftirspurnin eftir því er til staðar.

Einhver fyrirtæki eru tilbúin að kaupa ódýrt vinnuafl þrátt fyrir að ljóst sé að pottur sé brotinn varðandi réttindi fólksins. Sömuleiðis hljóta kaupendur kynlífsþjónustu á Íslandi fyrst og fremst að vera Íslendingar. Meðan íslenskir karlmenn hafa lyst á að kaupa sér kynlífsþjónustu verða alltaf einhverjir tilbúnir að hafa tekjur af slíkri starfsemi.

Mansal er þannig ekki bara óþægileg veira ættuð úr fjarlægu landi heldur bein afleiðing af siðferðisbresti í okkar eigin samfélagi.


Í tveggja ára gamalli Mannlífsgrein, sem því miður er ekki merkt höfundi, kennir ýmissa grasa, m.a. er talað við forstjóra Útlendingastofnunar, lögfræðing Alþjóðahús, framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu og talskonu Stígamóta, sem hver um sig kemur með áhugaverða nálgun á mansal. Þar er og fjallað um Palermo-sáttmála Sameinuðu þjóðanna.* Í honum segir:

Fimm atriði skal hafa í huga þegar skilgreining Palermoviðaukans er beitt til þess að bera kennsl á fórnarlömb mansals:

1. Það skiptir ekki máli hvort konan hefur farið yfir landamæri, því mansal getur lika átt sér stað innan landsins.

2. Ekki þarf að vera um skipulagðan glæp að ræða, það getur verið stakt tilvik.

3. Það er málinu óviðkomandi hvort konan var fús til, – þ.e.a.s. hvað konan gerði áður en hún varð fórnarlamb mansals.

4. Stig misnotkunar skiptir ekki máli, hvort um er að ræða blekkingu, hótanir eða þvinganir.

5. Konan er jafn mikið fórnarlamb mansals, þótt hún vilji ekki kæra þá sem standa að baki, né vinna með lögreglu og öðrum yfirvöldum.

Skilgreining Palermó-viðaukans: „Mansal“ merkir að fólk sé fengið, flutt, framselt, hýst eða við því tekið, með valdi eða hótun um valdbeitingu eða með annars konar nauðung, með mannráni, svikum, blekkingu, valdníðslu eða misnotkun á varnarleysi þess, eða ef látið er af hendi eða tekið við fé eða öðrum gæðum til þess að fá fram samþykki við því að einstaklingur öðlist vald yfir öðrum einstaklingi í hagnýtingarskyni. Hagnýting tekur til hagnýtingar á vændi annarra eða annarrar kynferðislegrar hagnýtingar, nauðungarvinnu eða nauðungarþjónustu, þrælahalds eða athæfis sem svipar til þrælahalds, ánauðar eða líffæranáms. Samþykki þess sem er fórnarlamb mansals skiptir engu máli í tilvikum þar sem einhverjum þeim aðferðum sem lýst er hér að ofan hefur verið beitt.“


Mér finnst reyndar ruglingslegt að ekki sé gerður greinarmunur á því þegar fólk er flutt meira og minna nauðugt milli landa og lendir í þrælavinnu (e. human trafficking) og kynlífsþrældómi kvenna (e. sex trafficking) en allt er það kallað mansal. Og það er alveg ljóst að ekkert af þessu gerist nema einhverjir telji sig græða á að selja þetta fólk, kaupa það og nota.

Mannlífsgreinin er vel þess virði að lesa hana alla.
___

*Palermo sáttmálinn er viðauki við sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi. Þessvegna er hann ýmist kallaður Palermo sáttmálinn eða Palermo viðaukinn. Ég sótti þessa skilgreiningu í í BA ritgerð Birnu Maríu Ásgeirsdóttur í mannfræði en hún nefnist Mansal í heimi karllægra yfirráða.

Efnisorð: , , ,