mánudagur, október 19, 2009

Elskulegur eiginmaður minn, faðir, afi, tengdafaðir, bróðir, mágur og frændi

Svona byrja dánartilkynningar oft. En hvernig lifði nú þetta dánumenni lífi sínu? Barði hann konuna sína? Nauðgaði dætrum sínum eða barnabörnum? Var spenntastur fyrir dýraklámi? Stundaði vændishús í viðskiptaferðum í útlöndum? Karlmenn sem gera slíkt hljóta líka að deyja eins og aðrir. Og ekki bara það, meðan þeir eru lifandi þá ganga þeir um í samfélaginu og fæst okkar vita hvað þeir hafast að.

Eiginmenn, kærastar, sambýlismenn (fyrrverandi, núverandi eða tilvonandi), synir, dætrasynir og sonarsynir, vinnufélagar, yfirmenn, undirmenn, bræður, hálfbræður, mágar, svilar, frændur, kunningjar, vinir, skólafélagar, kennarar, nemendur, karlmenn sem þú verslar við eða sem þú þarft að tala við starfs þins vegna; allt gætu þetta verið karlar sem líta á konur sem misjafnlega gagnlega hluti, helst nýtanlegar til að fá kynferðislega útrás á hvort sem þeim líkar betur eða verr, útrás fyrir reiði eða mannhatur yfirleitt. Skoðanir kvenna, langanir og tilfinningar skipta þá engu, þær eru fyrst og fremst til að fá útás á: fyrir reiði með því að ógna þeim eða berja þær; kynferðislega hvort sem þeim líkar betur eða verr, hvort sem þær eru ókunnugar eða skyldar eða nákomnar.

Þessir karlmenn stunda (mismikið og misoft) strippstaði, klámsíður á netinu, að kaupa vændi af konum sem eru fátækar, fíklar eða hreinlega neyddar til að selja líkama sinn og þeir ýmist telja sér trú um að svo sé ekki eða er sama eða hreinlega fá kikk út úr því að vita að konan er ekki viljug.

Þessir karlmenn nauðga, ýmist fyrrverandi eða núverandi kærustum, vinkonum sínum, ókunnugum konum eða hverju því kvenkyns sem þeir koma höndum yfir í fjölskyldu sinni (og sumir drengjum og sumir börnum af báðum kynjum). Að ganga úti á götu, skreppa í sund eða setjast til borðs í fjölskylduboði er ávísun á að rekast á einhvern þessara karlmanna. Þeir bera þetta ekki utan á sér.

Eða hvernig á að skýra aukið vændi í Reykjavík? Það er vegna þess að það er nóg af viðskiptavinum.* Þeir biðu í röðum eftir litháensku konunni sem var flutt til landsins. Sjálfsagt einhverjir orðið enn spenntari að vita að hún væri óviljug — einhverjir fóru kannski og leituðu sérstaklega að henni.

Það er ekki rétt sem sagt er í frétt RÚV,** að erlendar vændiskonur valdi „margvíslegum vanda“. Vandinn er að karlmenn eru svo svívirðilegir að vilja hjakkast á þeim.

En æ, nú sagði ég eitthvað ljótt um karlmenn. Voðalega er ég vond.

___
* Sóley Tómasdóttir skrifaði í Fréttablaðið um helgina og sagði m.a. þetta: „Ástæðan fyrr mansali er jú viðskiptavinirnir Ef engir væru kaupendurnir væri mansal ekki þriðja umfangsmesta glæpastarfsemi heims“.
** Silja Bára segir þetta orðalag vera komið frá lögreglunni. Hvenær ætla fjölmiðlar að hætta að birta orðrétt allt það sem þær mannvitsbrekkur láta frá sér?

Efnisorð: , , , ,