þriðjudagur, nóvember 03, 2009

Endurtuggið efni

Allt sem ég ætla að segja er sagt annarstaðar. Sumt er ég búin að segja sjálf, oftast samt bara hugsa það. Færi ég útí meiriháttar gúggl-leiðangur kæmist ég líklega að því að ég sé endalaust að Hannesa* en haldi (því fram) að ég semji þetta sjálf.

Ég hefði t.d. getað skrifað um hina dæmalausu mynd og frétt í Fréttablaðinu (en hafði í raun ekki geð í mér til þess) þar sem tveir vitleysingar sem einhverra hluta vegna (heimskingjadýrkunar) eru vinsælir í sjónvarpi á Íslandi.** En Gísli málbein er auðvitað búinn að segja allt sem ég vildi sagt hafa.*** Hefði ég þó skrifað um þetta hefði ég líka talað um hve viðbjóðslegt mér fannst þetta og líklega sagt eitthvað um að morgunmaturinn hefði hreinlega ætlað uppúr mér — en þá er ég auðvitað nýbúin að tala um morgunmat á uppleið. Svo ekki gengur það.

Ýmislegt hugsaði ég líka um lánin sem fégráðugir foreldrar tóku hjá siðblindu bankafólki í sjóðs 9 bankanum sem er núna í eigu einhverra sem engin veit hver er. En mér hefði ekki tekist að skrifa hálfa línu um það án þess að hnýta frösunum „blessað barnalán“ og „syndir feðranna koma niður á börnunum“ einhverstaðar þar við. Og það gerði örugglega hálf þjóðin, sbr. þegar ég notaði „fé án hirðis“ frasann hér í síðustu færslu. Þannig að ég segi bara ekki múkk og hugsa mitt í hljóði.

Og talandi um siðblinda foreldra, þá hafði ég líka ýmis orð yfir eineltisorðræðu Jóns Magnússonar. En það var ég sjálf búin að segja áður en þá um hann þarna Hádegismórann sem þá ranglaði í tilgangsleysi um í Svörtuloftum.

Næst birti ég bara gamlar færslur mínar beint. Endursýndar öll föstudagskvöld.


____
* Hér er auðvitað átt við aðferð Hannesar Hólmsteins sem tók texta Halldórs Laxness og birti sem sinn eigin.
** Ég var einhvernveginn sannfærð um að Jakob Bjarnar hefði skrifað þetta, hann er jú með blæti fyrir öllu sem tengist klámi sbr. síendurteknar smáfréttir og viðtöl við Geira í Goldfinger. Guðmundur Andri Thorsson kallar það „þætti af einkennilegum mönnum.“
*** Í minni sveit voru einmitt líka kýr. Þar voru engar beljur.

Efnisorð: , , , ,