miðvikudagur, nóvember 04, 2009

Æ, einsog nauðgarar megi ekki ganga lausir?

Yfirleitt þegar karlmenn eru látnir sæta gæsluvarðhaldi fram að dómsuppkvaðningu er það vegna þess að þeir eru taldir ógnun við almannahagsmuni. Þá er yfirleitt átt við dópsmyglara. Nauðgarar sem nauðga konum eru auðvitað ekki ógnun við þann hluta almennings sem er karlkyns þannig að það er óhætt að láta þá ganga lausa, þeir nauðga hvoreðer bara konum.

Nú ber nýrra við, það er ekki einu sinni vegna þess að það sé þröngt í fangaklefum sem nauðgaranum sem fékk mjög þungan dóm* var sleppt, heldur af mannúðarástæðum. Það brýtur nefnilega á rétti hans hve langur tími hefur liðið frá því að dómur féll í héraðsdómi. Miðað við hvað nauðgunarmál hafa oft tekið geigvænlega langan tíma í réttarkerfinu — þar sem konan sem nauðgað þarf að bíða mánuðum ef ekki árum saman** eftir að geta byrjað að horfa til framtíðar — þá mætti halda að þessir mánuðir sem hafa liðið ættu ekki að skaða hið viðkvæma sálartetur nauðgarans mjög mikið.*** En það er auðvitað forgangsatriði að nauðgurum líði vel. Blessaðir mennirnir.
___
* Þ.e. mjög þungan miðað við að íslenska dómakerfið fullnýtir aldrei refsirammann.
** Þórdís Elva nefnir dæmi um rannsókn nauðgunarmáls sem tók 1050 daga, eða tæp þrjú ár.
** Hann er reyndar í farbanni, eyminginn. En við vitum nú hvað það virkaði vel fyrir Hótel Sögu nauðgarann. (Fyrir þau sem það ekki muna, þá fannst hann í Póllandi tveimur mánuðum eftir að hann átti að byrja að afplána dóminn).

Efnisorð: ,