laugardagur, nóvember 07, 2009

Fótboltamenning er karlamenning upp á sitt versta

Femíninistafélag Íslands sendi frá sér ályktun fyrir stundu þar sem yfirhylming Knattspyrnusambands Íslands með strippstaðaför fjármálastjóra KSÍ er fordæmd.* Ég er í meira lagi sallaánægð með ályktunina og birti hana því orðrétt hér og slepp þar með að skrifa langa bloggfærslu** frá eigin brjósti þar sem ég hefði á talsvert minna kurteisan hátt sagt álit mitt á þessu öllu samani.

Hér er ályktunin.

Femínistafélag Íslands fordæmir framferði fjármálastjóra KSÍ og viðbrögð sambandsins í kjölfarið og krefst þess að stjórnin segi af sér og fjármálastjóranum verði vikið úr starfi hið fyrsta.

Fréttir af heimsókn fjármálastjórans á súlustað í Sviss hafa vakið verðskuldaða athygli í samfélaginu á undanförnum dögum, enda fáheyrt að menn sem gegni trúnaðarstörfum fyrir samtök sem kenna sig við forvarnir og heilbrigt líferni verði uppvísir að iðju sem tengist skipulagðri glæpastarfsemi, misnotkun á bágri stöðu kvenna og það með kreditkort vinnuveitandans upp á vasann.

Knattspyrnusamband Íslands er regnhlífarsamband fyrir stærstu íþrótt á Íslandi sem á að vera uppbyggileg og þroskandi fyrir fólk á öllum aldri. Eðlileg og sjálfsögð krafa samfélagsins er að stjórn þess og fólk sem þar gegnir trúnaðarstörfum hagi sér í samræmi við þá ábyrgð sem það ber.

Árið 2006 sendi Íþróttasamband Íslands frá sér yfirlýsingu, þar sem vændi og mansal var fordæmt í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram fór í Þýskalandi. Þar segir m.a. ,,Megininntak íþrótta er mannleg reisn og heilbrigt líferni.” Þarft er að rifja upp í þessu samhengi að KSÍ neitaði að leggja baráttunni gegn vændi og mansali lið á mótinu þrátt fyrir fjölmargar áskoranir, m.a. frá 14 kvennasamtökum og jafnréttisnefnd Reykjavíkur.

Ljóst er að Knattspyrnusamband Íslands hefur brugðist hlutverki sínu stórkostlega. Áhugafólk um knattspyrnu og íþróttir á betra skilið.

___
* Váááá, hvað Femínistafélagið á eftir að fá yfir sig skítkastið frá öllum fótboltaköllum landsins fyrir þetta.
** Ég hef nú ýmislegt að segja um fótbolta yfirleitt, en það gæti orðið að sér færslu þegar fram líða stundir. En ef af yrði myndi ég örugglega minnast á hin víðfrægu karlakvöld KR þar sem tíðkaðist að panta strippara og ekki má gleyma þegar einn þjálfari þess félags var drepinn af mönnum sem hann hafði fengið til að skutla sér frá Vegas að Bóhem. Sá var nú aldeilis mærður fyrir að hafa verið svo góð fyrirmynd drengjanna sem hann þjálfaði, ekkert spurningarmerki var sett við að fjölskyldufaðir í æskulýðsstarfi var að þvælast fullur á þessum stöðum. Karlamenningu fótboltans þykir slíkt bara sjálfsagt.

Viðbót: Tilhugsunin um að fótbolti sé undirliggjandi sjúkdómur skemmtir mér verulega.

Efnisorð: , , ,