fimmtudagur, nóvember 26, 2009

Frelsi og vinátta

Á tímum góðærisins var orðinu 'frelsi' mikið hampað. Það stóð líklega fyrir eitthvað alveg frábært og eftirsóknarvert, a.m.k. kom orðið iðulega fyrir í auglýsingum og sem slagorð stjórnmálaflokka eða þeirra sem hugðu á prófkjör í einhverjum flokknum. Frelsið var einhverskonar yfirlýst stefna frjálshyggjunnar, sem hamraði auðvitað á orðinu, og þýddi þá frelsi til að græða sem mest með sem minnstum tilkostnaði (t.d. í launum til þeirra sem framleiða vöru eða með skattgreiðslum). Í rauninni þýddi frelsi í meðförum frjálshyggjumanna 'að vera laus við' — vera laus við að borga skatta, mannsæmandi laun, leggja til samfélagsins, virða rétt annarra,* bera virðingu fyrir öðru fólki. Og að sjálfsögðu að vera laus við íþyngjandi reglur um viðskipti. Hvað frelsi þýddi fyrir öðru fólki skipti litlu máli, það var allavega ekki sett í samhengi við jafnrétti og bræðralag á tímum óheftu frjálshyggjunnar. Í eyrum okkar hinna hefur orðið frelsi verið svo gjaldfellt að varla er hægt að heyra orðið án þess að fá hroll eða klígju.

Núna er orðið vinátta umþaðbil að hljóta sömu örlög. Símafyrirtæki eru farin að auglýsa með slagorðum vináttu og alltíeinu verða allir að eiga voða marga vini (en ekki endilega góða) en aðallega er verið að gefa til kynna að símafyrirtæki séu þau sem stuðla að vináttu og gott ef eru ekki sérlegir vinir þeirra sem beina til þeirra viðskiptum sínum** Þess er líklega stutt að bíða að fleiri fyrirtæki finni sér ástæðu til að klessa 'vina' orðinu einhverstaðar í auglýsingar sínar.

Mér sýnist að vinsældir vináttu-orðalagsins megi rekja til Facebook*** þar sem virðist helsta keppikefli margra vera að eignast sem flesta vini. Heyrst hefur um fólk sem á þúsundir vina**** en algengt virðist að fólk eigi einhverjar hundruðir. Svo virðist sem það þyki mikil ókurteisi að hafna boði um að gerast vinur einhvers og því nánast skylda að bæta öllum við vinahópinn sem það vilja. Ég velti því samt fyrir mér hvað valdi því að fólk hugsar sig ekki tvisvar um þegar einhver fer fram á vináttu þess en er persóna sem það myndi aldrei vilja umgangast eða bjóða heim til sín.

Nýlega sá ég kunnuglegt nafn á vinalista manns sem ég kannast við, ég elti slóðina og sá að á vinalista mannsins með kunnuglega nafnið (það er kunnuglegt því ég veit að hann beitti konu sína og börn líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi) var sonur hans sem er landsþekktur fyrir að vera nauðgari. Hann átti líka fjölmarga vini, þar á meðal fólk sem ég kannast við og hélt framað þessu að væri með fullum sönsum. Ég sagði kunningjakonu minni frá þessu (hún er ekki á vinalista þessara feðga) og hún varð mjög hvumsa og sagði mér svo að hún væri með einn mann sem 'vin' á Facebook sem hún vissi að hefði nauðgað konu. Sjálf er hún þolandi kynferðisofbeldis en það var ekki fyrr en eftir að hafa hlustað á þusið í mér sem hún áttaði sig á að það var eitthvað verulega bogið við að lýsa yfir vinskap við mann sem hún vissi að væri nauðgari.

Kannski er það bara eitthvað hugsunarleysi sem veldur því að fólk gerist yfirlýstir vinir nauðgara en kannski er líka þessi svokallaða vinátta á Facebook eftirsókn eftir vinsældum sem eiga ekkert skylt við vináttu. Í það minnsta finnst mér orðið vinátta vera gengisfellt allverulega á vettvangi Facebook.*****

Og þarsem símafyrirtækin ætla nú að nota vináttuhugtakið til að selja vöru þá sýnist mér að það að segjast eiga vini sé umþaðbil að verða jafn súrt og að segjast vilja frelsi. Í stað þess að vera eftirsóknarvert að vera frjáls og eiga vini er það bara enn eitt sölutrixið og tengist engu af því sem áður þótti gott við þessi hugtök.

Lýsi því hérmeð yfir að ég á enga vini. Tók ekki undir frelsisbullið og tek ekki þátt í þessu heldur.

___
* T.d. mjög óvinsæll réttur annarra til að vera laus við sígaréttureyk eða fá starf sem er eyrnamerkt karlmönnum.
** Hér tókst mér mjög vandlega að sneiða hjá því að nota orðið 'viðskiptavinur'.
*** Þrátt fyrir einlægan vilja minn til að nota frekar íslensku en erlenda tungu þá á ég bágt með að nota þau íslensku heiti sem ég hef heyrt yfir þetta fyrirbæri, a.m.k. ekki fyrr en fólk hefur komið sér saman um hvaða orð á að nota. Fésbók, flettismetti, snjáldurskinna, smettiskinna og bóksmetti... Látið mig vita þegar þið ákveðið ykkur.
**** Þá er yfirleitt um frægt fólk að ræða sem aðrir vilja vingast við og vilja kannski ekki hafna vináttu ef ske kynni að það hefði neikvæð áhrif á frægðarferilinn.
***** Mér fannst oft segja mest um Moggabloggara að skoða listann af bloggvinum þeirra. Stjórnmálaskoðanir bloggarans sáust oft á vinavalinu. Væru t.d. þekktir rasistar ofarlega á bloggvinalistanum (nú eða kvenhatarar) langaði mig yfirleitt ekkert að lesa bloggið. Að sama skapi myndi ég ekki samþykkja að vera vinur einhvers á Facebook sem þætti sjálfsagt að vera vinur nauðgara. Af vinunum skulið þér þekkja þá.

Efnisorð: , ,