laugardagur, nóvember 21, 2009

Almannahagsmunir eða bara (ómerkilegir) hagsmunir kvenna

Stelpu er sagt upp vinnu. Kærastinn hennar ræðst á vinnuveitanda hennar fyrrverandi fyrir þá ósvífni að hafa sagt henni upp. Notar byssu og allt, greinilega brjálaður. Hann er lokaður inni og geymdur í gæsluvarðhaldi enda almannahagsmunir í húfi.

Karlmaður kynnist stelpu á netinu og þegar þau hittist fer hann með hana heim til sín þar sem hann heldur henni í 12 tíma og lemur hana og nauðgar á víxl. Hann er ekki lokaður inni.

Almannahagsmunirnir í fyrra tilvikinu eru* að karlkyns fyrrum vinnuveitendur ákveðinnar stúlkukindar eru í lífshættu ef sá byssuóði gengur laus.

Í seinna tilvikinu fer náttúrulega nauðgarinn aldrei aftur á netið,** kynnist aldrei aftur stelpum og mun þá líklega aldrei aftur nota vald sitt og líkamsburði til að loka neina konu inni eða beita valdi til að nauðga. Engum konum stafar nokkurntímann hætta af honum héreftir.*** Það er jú engin hætta á að hann ráðist á karlkyns vinnuveitendur. Það hlýtur að vera röksemdafærslan sem löggan beitir.

Þegar ég var lítil var mér kennt að englar pössuðu mig meðan ég svæfi. Nú þegar ég fer að sofa á kvöldin finn ég öryggiskenndina hríslast um mig við tilhugsunina um hve löggan passar mig og allar aðrar konur. En löggan er auðvitað ekki til þess að gæta öryggis kvenna, heldur til að vernda karlkyns atvinnurekendur. Sennilega er álíka gáfulegt að treysta löggunni og trúa á engla.
___
* Ég veit auðvitað ekkert nema byssuóði karlmaðurinn hafi haft uppi einhverjar þær hótanir sem benda til að hann eigi ekki að ganga laus. Hefði samt haldið að ef byssan væri tekin af honum og hann settur í nálgunarbann gagnvart manninum sem hann réðst á (nálgunarbann á að virka svo voða vel þegar karlmenn ofsækja fyrrverandi konur sínar)þá mætti sleppa honum út. Ekki að mér finnist hann eitthvað sérstaklega eiga að ganga laus, hann er greinilega klikkaður, en afhverju frekar að loka hann inni en nauðgara?

** Fari svo ólíklega að löggan, saksóknaraembættið og dómskerfið sameinist um að loka nauðgarann inni getur hann skemmt sér við að vafra á netinu á Litla Hrauni og uppfæra stöðu sína á Facebook. Svona eins og siðblinda ógeðið sem nauðgaði kærustunni fyrrverandi og drap svo vinkonu hennar fyrir að vitna gegn sér.

***Nauðgarinn segir auðvitað að þetta hafi alltsaman farið fram með vilja stelpunnar. Skyldi hann trúa því sjálfur eða er þetta bara venjubundið trix nauðgara þegar þeir eru spurðir um atburðarásina? Líklega hafa þeir sagt þetta, bræðurnir sem var verið að sleppa við ákærur eftir að hafa nauðgað konu nú í vor. Þar hafði löggan þó hnikað málinu til ríkissaóknara sem fannst ekki sannanir nægar. Enda vitnisburðir tveggja nauðgara gegn einni konu og eru eingöngu hennar orð gegn þeirra. Sem er auðvitað einskis virði.

Efnisorð: , ,