sunnudagur, nóvember 15, 2009

Hulduherir

Jafn ánægð og ég er með eigið nafnleysi og launsátursástand þá fyllist ég tortryggni þegar talað er um hópa fólks sem aldrei er upplýst nánar um.

Hverjir eru bakvið búð Jóns Geralds Sullenberger? (Mín ágiskun er að þar séu einhverjir sem jafnvel vita ekki alveg hvað sá ágæti maður heitir eða a.m.k. einhverjir sem eru jafn áfram um að klekkja á Jóni Ásgeiri og hann**).

Hvaða fólk var það sem var handvalið inná Þjóðfundinn? Ég sá glitta í Bjarna Ben og Ragnheiði Ríkharðsdóttur, voru fleiri þingmenn þarna auk Guðfríðar Lilju? Var kannski öllum þingmönnum boðið? Það hlýtur bæði að hafa aukið taugatitring en líka dempað frjálsleg skoðanaskipti (hafi þau á annaðborð verið leyfð, mér virðist reyndar að umræðunum hafi verið stýrt svo rosalega að það hafi bara verið talað útfrá fyrirframgefnum stikkorðum**) að hafa svoleiðis lið meðal handvalda pöbulsins. Hvað hefði gerst ef einhver borðnauta Bjarna hefði hreytt í hann vel völdum orðum, hefði borðið fengið plússtig fyrir extra heiðarleika?

Nýjasta nýttið er Þjóðarhagur.is sem er 100 manna hópur fjárfesta sem vill fá að kaupa Baugsbúðirnar, sem kallast víst Hagar. Þessi hópur — undir forystu manns sem virðist ekki vera með glæstan feril í fjármálum — er að hvetja almenning til að ganga til liðs við sig við kaupin, en þó er ekki gefið upp hverjir upphafsmennirnir hundrað eru (ófrumleg tilgáta er að hópurinn samanstandi af sömu mönnum og standa bakvið búðina hans Jóns Geralds eða allavega mönnum með sama markmið). — En nú er semsagt komið svar við því ... ***

Og svo langar mig ennþá að vita hverjir þessir kröfuhafar eru sem eignuðust Glitni/Íslandsbanka um daginn. Svona þar sem ég er viðskiptavinur þar.

____
* Það er engin hætta á að ég versli við Jón Gerald Sullenberger. Ekki vegna þess að ég styðji Jón Ásgeir (og sé þarafleiðandi í Baugsliðinu eða Baugspenni) heldur vegna þess að það eitt veit ég um Jón Gerald að hann sá um snekkjuna Thee Viking fyrir Jón Ásgeir og þarmeðtalið að útvega vændiskonur um borð. Ég versla ekki vísvitandi við melludólga.
** Ég hef lesið nokkur blogg sem hafa gagnrýnt þjóðfundinn útfrá hinu og þessu en Pétur Tyrfingsson neglir algerlega mína skoðun og bætir um betur.
*** Ojjjjjjjj, það er heldur betur komið í ljós hve þetta er geðslegt lið: Brynjar Goldfingerverjandi!

Efnisorð: