föstudagur, nóvember 13, 2009

Föstudagurinn þrettándi

Í mörg ár var beygur í mér þegar þrettánda dag mánaðarins bar uppá föstudag. Ég fór helst ekki útúr húsi og allsekki undir stýri á bíl. Þó taldi ég mig ekki vera hjátrúarfulla en þegar báðir foreldrar mínir lentu í alvarlegum bílslysum með tveggja ára millibili sem bar uppá föstudaginn þrettánda í báðum tilvikum — þá réði ég ekki alveg við þá tilfinningu að þetta væri ekki einleikið. Nú er langt um liðið og ég hef iðulega ekkert tekið eftir dagsetningunni heldur brunað um borg og bý áhyggjulaus þennan dag, og auðvitað ekkert sérstakt komið fyrir.

En um daginn rakst ég á blaðaúrklippur sem sýna bifreiðar foreldra minna verulega krambúleraðar, önnur dregin af vettvangi hin á slysstað og þær hafa legið efst í blaðabunka á skrifborðinu um nokkra hríð. Ég myndi þó ekkert tengja þennan gamla ótta minn við daginn í dag ef ég hefði ekki lesið blogg sem minnti mig óþyrmilega á þetta allt saman og ekki bættu myndirnar sem ég hef fyrir framan mig úr skák. Og nú er spurningin, á ég að stökkva útí umferðina og láta sem álögunum hafi verið aflétt eða húka heima allan daginn og ljúga því að sjálfri mér að ég sé alltof mikil raunsæismanneskja til að vera hjátrúarfull en hafi bara af tilviljun ekki farið útúr húsi í dag?

Jæja, ef ég fer út þá passa ég mig bara á að vera í hreinum nærfötum.

Efnisorð: