sunnudagur, desember 13, 2009

Skrifa undir að alþingi samþykki ríkisábyrgð vegna Icesave

Loksins kom fram mótvægi við Indefence-áróðurinn. Nú getur fólk gefið álit sitt með eða á móti því að alþingi staðfesti skuldbindingar íslenska ríkisins vegna Icesave. Það má vel vera að við þessi sem viljum bara afgreiða Icesave með því að ganga frá málinu eins og það stendur núna, ekki synja því, séum í miklum minnihluta en hingaðtil hefur bara verið hægt að skrifa á undirskriftarlista gegn ríkisábyrgðinni og fjölmiðlar fylgst stíft með því hve margt fólk hefur verið gegn Icesave.

En á vef Eyjunnar (sem verður reyndar að nálgast gegnum heimabanka hvers og eins) er semsagt lagt upp með þessa spurningu:

Vilt þú að Alþingi samþykki eða synji ríkisábyrgð á Icesave-samkomulaginu við Breta og Hollendinga?

Svarmöguleikar eru:
Alþingi samþykki ríkisábyrgð
Alþingi synji ríkisábyrgð
Tek ekki afstöðu.



Ég er búin að kjósa að ég vilji að alþingi samþykki ríkisábyrgð.* Bæði vegna þeirra raka sem ríkisstjórnin hefur marglagt fram en líka vegna þess að ég held að ég sé að fá magasár vegna kvíða yfir þessu viðurstyggilega þrasi stjórnarandstöðunnar. Ég vil losna við þetta mál fyrir fullt og fast.

__
* Mér er reyndar meinilla við að skrá mig nokkurstaðar í gagnabanka Íslenskrar erfðagreiningar en lét mig hafa það í þetta sinn. Hingað til hef ég neitað þeim um upplýsingar úr læknaskrám um mig, lífsýni úr mér og hvaðeina sem það skítafyrirtæki hefur ásælst. En þessi „þjóðarkosning“ (sem er auðvitað eins og hver önnur skoðanakönnun en hefur ekkert gildi sem kosning) finnst mér góð hugmynd því ég var orðin þreytt á að bara raddir þeirra sem vilja hafna Icesave samningnum heyrist.

Efnisorð: ,