fimmtudagur, desember 03, 2009

Yndislegra að gefa en þiggja ölmusu

Ég horfi sjaldan á sjónvarpsfréttir og Kastljós, læt mér nægja þær fréttir sem ég get lesið af tölvuskjánum. Stundum vísa bloggarar þó á fréttaefni sjónvarpsstöðvanna og í einhverju tilvikum elti ég slóðina og horfi þá fyrst á eitthvað sem e.t.v. er löngu búið að sýna.

Ég elti slíka slóð hjá Jennýju Önnu og sá þá viðtal við borgarfulltrúa sem hún hafði gert að umtalsefni (ath.seinni tíma viðbót hér neðar í færslunni). Og þó ég sé innilega sammála öllu sem Jenný segir um þetta mál* og gæti þessvegna bara límt það hér inn og látið þar við sitja, hef ég ýmislegt um þetta að segja að auki.

Eins og ég hef áður skrifað um, í færslu um styrktarbarnakerfið, þá er ég lítið hrifin af því að skipta fólki í þiggjendur og afar gott/efnað fólk sem hjálpar þiggjendum.** Mér finnst það óheppilegt í alla staði.

Ég hef velt þessu mikið fyrir mér varðandi „amerísku súpueldhúshugmyndafræðina“ og hugðist fá bandarískar kunningjakonur mínar, sem sumar eru í sjálfboðastörfum ýmisskonar*** til að rökræða það við mig en enn hefur ekki orðið af því. Það sem mig langaði semsagt til að ræða við þær er hvort slík hjálparstarfsemi á einstaklingsgrundvelli sé slæm eða góð fyrir samfélagið, sjálfboðaliðann og þiggjandann. Sjálfri finnst mér hið norræna velferðarkerfi vera æskilegra; skattgreiðendur standi undir greiðslum sem koma öllum þeim sem það þurfa til góða og sem eiga þá rétt á aðstoðinni en þurfa ekki sérstaklega að þakka fyrir hana eins og ölmusu.

Hinsvegar, og það grunar mig að væru rök margra sem finnst súpueldhús eða úthlutanir Mæðrastyrksnefndar og Fjölskylduhjálparinnar vera gott fyrirkomulag,**** gerir það sjálfboðaliðanum þá tilfinningu að hann sé að leggja eitthvað að mörkum fyrir samfélagið og það er þá gert með glöðu geði, í stað þess að borga skattana sína nöldrandi (sem sumir gera) og hneykslast á því í hvað þeir fara. Sumir, sem aldrei hafa horfst í augu við fólk í neyð, eiga mjög auðvelt með að telja sér trú um að það sé hrein lygi að fólkið sé svona illa statt, þetta sé allt lið sem bara megi ekki vita af ókeypis máltíð þá skelli það sér í biðröðina.*****

En aðallega held ég að fólki sem finnst „yndislegt“ að fólk þiggi ölmusu sé að horfa á hina göfugu fórn sjálfboðaliðans, en ekki endilega niðurlægingu þiggjandans, því það er auðveldara að samsama sig góða fólkinu heldur en ræflum sem ekkert eiga.

Kannski hljómar þetta eins og ég sé að afsaka orð borgarfulltrúans, skilji hana og geti fyrirgefið henni klaufaskapinn en svo er ekki. Hún er hinsvegar dæmigerður fulltrúi þessa viðhorfs. Við hin viljum frekar borga hærra útsvar, hærri skatta og hærri fjármagnstekjuskatt til þess að fólk þurfi ekki að bíða í biðröð eftir að fá að borða.

Hrós dagsins á ég sjálf fyrir að ná að skrifa um þetta af bærilegri stillingu.
___
* Ég er ekki eins gjörn á að kasta mér á veggi og hún og ekki reyki ég en annars erum við nánast tvíburasálir.
** Ég talaði ekki um ættleiðingar í þeirri færslu en mér finnst þetta líka við um þegar t.d. fræga fólkið er að ættleiða börn.
*** Þær ágætu femínísku kunningjakonur mínar sem starfa sem sjálfboðaliðar eru held ég reyndar ekki í súpueldhúsum eða slíku, nein þeirra, heldur er ein þeirra í slökkviliði bæjarins þar sem hún býr (sem er of lítill til að standa undir launakostnaði fullskipaðs slökkviliðs auk þess sem útsvar íbúa má auðvitað ekki vera of hátt) og önnur fylgir konum sem eru á leið í fóstureyðingu gegnum öskrandi skríl ofsatrúarmanna. Í svipinn man ég ekki hvað hinar gera, enda eru þær lítið að hreykja sér af því.
**** Það er svosem ekki eins og ég vilji að þessum hjálparstofnunum sé lokað. Þegar hið opinbera hefur klikkað (eða kerfið hrunið) er auðvitað illskárra að til sé vettvangur þar sem einstaklingar leggja sitt af mörkum til að hjálpa samborgurum sínum.
***** Svona eins og þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson sagði hér um árið, en örugglega sko á mikið fyndnari hátt.

Viðbót: 14. desember kom í ljós að fréttin hafði ekki komið nógu vel út fyrir borgarfulltrúann og því var hún fjarlægð í upprunalegri mynd (fréttin sko, ekki borgarfulltrúinn, því miður). Sembeturfer hafði Lára Hanna tekið afrit af fréttinni og hana má því sjá hér hjá henni, auk umfjöllunnar um Bjarna Ben og þöggunartilburði hans — sem er líklega forsmekkurinn að fréttahvarfinu. Allt uppá borð og gegnsæi Sjálfstæðisflokksins alveg í fyrirrúmi þessa dagana.

Efnisorð: , , , , ,