miðvikudagur, desember 23, 2009

Hlutverk skóla - kennslugreinar

Til hvers er grunnskólinn? Hvað á að kenna börnum? Nú, þegar uppi eru ráðagerðir sveitastjórarmanna um að fækka kennslustundum til að spara peninga, er eðlilega velt vöngum yfir því hvaða kennslustundum á að fórna. Ég nenni ekki að tala um kjaramál kennara (og veit ekki hvað Páll Baldvin hefur fyrir sér í því að þau séu ótrúleg - í merkingunni góð) heldur langar mig frekar til að skoða hvað er verið að gera í skólum og afhverju.

Hvaða kennslugreinar mega missa sig?
Öllum sem annt er um íslenska tungu hlýtur að bera saman um að ekki megi fækka kennslustundum í móðurmálinu. Einhverjar kannanir sýndu að íslensk skólabörn fá færri tíma í raungreinum og eru verr í stakk búin að takast á við kennslu á síðari skólastigum, þannig að varla er stætt á að fækka þeim kennslustundum, a.m.k. ekki ef við viljum ekki dragast enn meira afturúr í þeim efnum. Lífsleikni, sem er víst bara kennd í efstu bekkjum grunnskólans, er líklega námsefni sem mörgum þykir sem megi annaðhvort missa sig eða fækka tímum sem sinna henni sérstaklega; í þeim efnum hljóti kennarar að geta rætt málin í framhjáhlaupi meðan á annarri kennslu stendur. Ég hef reyndar heyrt að kennarar sinni lífsleikni kennslu einmitt þannig, láti nemendur vinna allt aðra vinnu í lífsleiknitímum og sinni kennslu í greininni lítt eða ekki og fari það hreinlega eftir áhuga þeirra á efninu. Sumir kannski treysta sér ekki í það og fara því þessa leið sem alþekkt var hér á árum áður þegar almennir bekkjakennarar áttu að sinna kynfræðslu og námsefnið var á bls. 99 í Heilsufræðibókinni, semsagt að segja krökkunum að kynna sér þetta sjálf eða sleppa alveg að minnast jafnvel á þessa margfrægu blaðsíðu.

Hvað vill fólk að sé kennt í grunnskóla?
Við höfum öll verið í grunnskóla og höfum mismunandi reynslu af honum og okkar skoðanir mótast eflaust af því. Að auki hafa foreldrar reynslu af skólagöngu barna sinna sem er kannski ekki alveg eins og þeirra eigin reynsla af að ganga í skóla en bætir við þekkingu þeirra á skólastarfi og aukast þá líklega líkurnar á að þeir hafi skoðanir á því hvað megi betur fara.

Nú finnst mér ég heyra víða að fólk vilji leggja meiri áherslu á sköpun í skólastarfinu. Ég átta mig ekki alveg á hvernig það á að fara fram, hvort skipa á börnum að skapa eða hvernig hægt er að kenna sköpun yfirhöfuð.* Ég man alveg eftir að hafa haft leirhlunk fyrir framan mig og átt að skapa eitthvað og líka að hafa átt að teikna/mála „bara eitthvað.“ Ekki minnist ég þess að mér hafi þótt þetta sérlega gefandi tímar eða fundið sköpunarþörfina blossa uppí mér. En kannski eru aðrar aðferðir til að kenna börnum að vera skapandi, og það eru þær sem á að leggja áherslu á.

Það á meira að segja að stofna heilan skóla** þar sem lögð verður áhersla á sköpun, hafi ég skilið rétt. Sköpun er líka mjög í brennidepli fjölmiðla um þessar mundir og virðist sem markmiðið sé að „koma okkur uppúr kreppunni.“ Semsé, sköpun er verðmætaskapandi og góð fyrir þjóðarbúið. Er þá skóli sem leggur áherslu á sköpun eitthvað öðruvísi en annar grunnskóli — því oft hefur því verið fleygt að skólar séu eingöngu til þess að móta börn til að verða vinnuafl. Það er að minnsta kosti ekki mikið talað um að sköpun hafi gildi í sjálfri sér, ekki frekar en talað er um að menntun hafi gildi í sjálfri sér, ja ekki svona dags daglega meðal almennings að minnsta kosti.

Þau sem vilja leggja (meiri) áherslu á sköpun eru e.t.v. þau sem áttuðu sig á því á fullorðinsaldri að þau höfðu ekki sjálf fengið kennslu sem miðaði að því að hvetja þau til sköpunar.*** Þessvegna vilji þau að börn sín — eða bara öll börn — eigi þess kost að rækta sköpunargáfu sína. En þó slík kennsla yrði stóraukin þá er ekki víst að það kæmi öllum börnum til góða, ekki frekar en stóraukin kennsla í íþróttum myndi gera íþróttahetjur úr öllum nemendum — þó kannski myndi þeim fjölga. Hitt er öruggt að fjölmörgum nemendum myndi hundleiðast að verða að gera eitthvað sem þeim er ekki eiginlegt eða þau hafa engan áhuga á, eins og á við um líklega allar námsgreinar.

Mér finnst einmitt líklegt að íþróttasinnað fólk hafi komið inn íþróttakennslu í grunnskóla, fólk sem fannst það ekki hafa fengið nægilega hreyfingu þegar það gekk í skóla. A.m.k. hafi það ekki verið mjög værukært fólk sem stakk uppá að allir nemendur yrðu skyldaðir til slíks sprikls. Að sama skapi hafi fólk sem hefur lagt fyrir sig raungreinar komið því á framfæri að grunnkennslu í þeim efnum hafi verið ábótavant, ekki síst það fólk sem síðar hefur gerst raungreinakennarar í framhaldsskólum og þarf því að takast á við þekkingarskort nemenda í starfi sínu.

Semsagt, fólk sem hefur fundið það á eigin skinni eða sér það hjá börnum sínum að það hafi rétt náð að halda í hæfileika sína, áhugamál eða getu sína þrátt fyrir að skólakerfið hefur lítt eða ekki sinnt þeim, er líklegt til að vilja bæta þeim námsgreinum við menntun komandi kynslóða sem það telur að það sjálft hefði notið góðs af.****

Lífsleikni er örugglega ekki síst tilkomin vegna þess að svo margt fólk hefur komið (eða sér börn sín koma) verulega krumpað útúr sinni skólagöngu, hvort sem það er vegna eineltis eða vanþróaðra félagslegra hæfileika sem hafa skyggt á þroska þess og framgang eftir því sem fram liðu stundir. Fólk með slíka lífsreynslu vill örugglega frekar lífsleiknikennslu en þeir sem syntu gegnum skólann sælir og glaðir með sig og sína skólafélaga.

Svo stangast auðvitað eitthvað af þessum sjónarmiðum á. Sannarlega eru til íþróttagarpar sem eru góðir í raungreinum og íslensku og vilja fá að læra allt það og lífsleikni líka, en oft er það þannig að fólki finnst að einhver ein námsgrein eigi að fá meira vægi en hinar og allt megi víkja fyrir henni. Það þurfi, hvað sem það kostar, að halda uppi öflugri íslenskukennslu og enginn nemandi megi útskrifast með vott af þágufallssýki, eða hver nemandi skuli vera fær um að hoppa hæð sína í loft upp og geta hlaupið þindarlaust, eða að allir nemendur skuli þekkja hvernig á að koma vinum sínum til hjálpar ef einhver gerir sig líklegan til að leggja hann í einelti — allt annað sé fánýti miðað við það.

En það verður hinsvegar að segjast að grunnskólinn virðist reyna að koma til móts við flesta nemendur. Námskráin virðist ná yfir flest það sem foreldrum, kennurum og menntunarfræðingum hefur dottið í hug í gegnum tíðina. Þó má auðvitað endalaust bæta við, s.s. eins og að kenna börnum siðfræði, að skilja fjármál og þekkja skyldur sínar og réttindi sem borgarar — allt þetta sem við nú sjáum að hafi farið úrskeiðis í íslensku þjóðlífi. Erfiðara er að sjá fyrir sér hvar megi skera niður. Og ég held að það megi bara allsekki skera neitt niður.

___
* Veit ég vel að ýmsar námsgreinar sem flokkast líklega sem „skapandi greinar“ hafa ekki, einhverra hluta vegna, notið mikils atlætis í grunnskólum. Tónlistarkennsla fer ekki fram í grunnskólum svo heitið geti( ja nema söngur, slá á þríhyrning og hrista helenustokk sé talið með) en því mætti einfaldlega breyta með því að færa þá kennslu inní grunnskólana. Þá er myndlistarkennsla hreint ekki fullnægjandi og þá á ég ekki við „skapandi“ hluta hennar heldur að börnum er ekki kennt að þekkja myndlist, þ.e. stefnur, einstaka listamenn eða listaverk, m.a. öðrum orðum listasögu svo sómi sé að.
** Ekki nóg með að sá grunnskóli verði kallaður menntaskóli heldur er Iðnskólinn núna tækniskóli og Tækniskólinn orðinn að Háskólanum í Reykjavík. Ég veit í rauninni ekki lengur hver er að gera hvað í hvaða skóla.
*** Þetta gæti líka átt við um foreldra eða aðra aðstandendur barna sem sýna ótvíræða sköpunarhæfileika án þess að fá til þess hvatningu í skóla og svíður að þau muni e.t.v. koðna niður í hinni ferköntuðu skólastofu.
**** Vegna þess að ég hafði nýverið lesið greinum samræmd próf, og hlustað á athyglisvert viðtal um uppeldi lagðist ég í miklar pælingar um hvað börn eigi að læra og hver eigi að kenna þeim það. Árangurinn er ekki eins frumlegur, rökfastur eða skýr og ég hefði viljað enda gleymdist að kenna mér skapandi hugsun, rökfræði og ritlist. Ég kenni skólakerfinu um.

Efnisorð: