sunnudagur, desember 27, 2009

Hlutverk skóla - barnauppeldi

Ég hef ekki sérstaklega lagt mig eftir því hverjir það eru sem gagnrýna grunnskóla fyrir að vera gæslustofnanir en mig grunar að það séu þeir sem sjá ofsjónum yfir almennri atvinnuþátttöku kvenna. Því enn eru þeir til sem líta svo á að konan eigi að vera heima með börnin, a.m.k. meðan þau eru á skólaaldri, og allar eigi þessar konur auðvitað að eiga góða fyrirvinnu. En þannig er það bara ekki. Á mörgum heimilum er enginn faðir til að vinna fyrir heimilinu en oftar er það þó þannig að konur vilja einfaldlega vinna fyrir sér. Og á meðan eru þau börn sem eru of ung til að vera ein heima best sett í skólanum. Það er auðvitað ekki yfirlýst markmið grunnskóla að gæta barna meðan foreldrarnir eru í vinnunni en það er samt sem áður eitt af hlutverkum hans, þessvegna hefur áherslan verið á samfelldan skóladag.

Ef báðir foreldrar (eða það foreldri sem börnin eiga skjól hjá) vinna úti og börnin eru í skólanum stóran hluta dags og svefntíminn er a.m.k. 8 tímar á nóttu, þá er ekki mikill tími afgangs til að sinna uppeldinu, hvort sem fólk vinnur mikið eða ekki.

Mörgum tekst þó auðvitað prýðilega að nýta þann tíma en öðrum gengur það síður vel, bæði vegna eigin anna og þreytu en líka vegna skorts á hæfileikum eða fyrirmyndum í foreldrahlutverkinu. Margir foreldra ala börn sín upp nákvæmlega eins og þeir sjálfir voru aldir upp, beita sama aganum, sýna sama tilfinningakuldann, nota sömu aðferðirnar sem þeir kvöldust undan í æsku en eru nú vanmáttugir að breyta. Aðrir ætla sko aldeilis ekki að vera jafn strangir eða eftirlátssamir eða hvað það nú var sem foreldrar þeirra gerðu og gera því allt þveröfugt við þá, eins og það sé eitthvað betra.* En það er ekki bara ein rétt aðferð til frekar en það er ein röng aðferð. Rannsóknir hafa verið gerðar á börnum og foreldrum þeirra sem sýna að uppeldishættir foreldranna skiptast í þrjá flokka eftir foreldrunum: leiðandi foreldrar, skipandi foreldrar og eftirlátir foreldrar. Samkvæmt rannsóknunum er best fyrir barnið að foreldrarnir séu leiðandi:
„Leiðandi foreldrar kröfðust þroskaðrar hegðunar af börnum sínum. Þeir settu greinileg mörk um hvað væri tilhlýðilegt og hvað ekki og notuðu til þess skýringar. Þeir hvöttu sömuleiðis börnin til að skýra út sjónarmið sín. Þannig lögðu þeir áherslu á að ræða við börnin þar sem fram komu bæði sjónarmið barna og foreldra, til dæmis þegar reglur voru settar. Þeir sýndu börnunum einnig mikla hlýju og uppörvun.“**

En til þess að foreldrar geti alið börn sín upp á þennan hátt verða þeir sjálfir að hafa verið aldir þannig upp eða, hafi þeir ekki fengið þannig uppeldi, hafa öðlast þroska til að stjórna sjálfum sér þannig að geta ráðið við skap sitt (óþolinmæði, ótta, skömm, reiði) að þeim sé unnt að setja mörk án ofbeldis*** en hvetja börnin áfram með uppörvun í stað þess að reka þau áfram til að sanna fyrir umheiminum að það verði eitthvað úr börnunum.

Margt fólk er því miður ekki alið upp með þessum hætti heldur samkvæmt því sem kallað er í rannsókninni skipandi uppeldi eða eftirlátssamt uppeldi. Í sumum tilvikum hefur það hreinlega sætt refsingum eða verið látið ganga sjálfala. Fólk sem alist hefur þannig upp á eflaust erfiðara með að beita leiðandi uppeldisaðferðum sjálft (nema að undangenginni einhverskonar sjálfsskoðun með eða án hjálpar fagmanna) þó auðvitað sé til fólk sem þroskast á þann hátt að það verður fyrirmyndarforeldrar þrátt fyrir eigin reynslu í æsku. En svo eru þeir foreldrar sem vegna þroskaleysis, t.d. ungs aldurs, á erfitt með að ala upp börn,**** svo ekki sé talað um fólk sem þjáist af vímuefnavanda einhverskonar og eiga þarafleiðandi fullt í fangi með sjálft sig og ekki aflögufært til annarra. Börn sem alast upp við þær aðstæður að foreldrarnir ráða ekki við uppeldið eða beita verulega röngum aðferðum eru í miklum vanda stödd eigi þau að þroskast eðlilega og fá sömu tækifæri og aðrir í lífinu.

Og þar verður grunnskólinn að koma inní. Skólinn verður að gera ráð fyrir nemendum sem koma frá heimilum þar sem foreldrar eru slæmar fyrirmyndir, þar sem ekki er fylgst með heimanámi, þar sem menntun er jafnvel álitin ómerkileg, þar sem barnið er ekki hvatt áfram á neinn hátt, þar sem fræðsla um það sem gerist í samfélaginu eða hver siðferðileg viðmið séu, hvernig eigi að koma fram við annað fólk eða bera virðingu fyrir sjálfum sér; þetta verða þessir nemendur að geta fengið fræðslu um í skólanum, þar sé vettvangur þeirra til þess þroska sem þau eru svikin um heima fyrir. Öllum börnum ætti að standa til boða tónlistarkennsla jafn sem íþróttakennsla á skólatímanum, allt heimanám ætti að fara fram í skólanum. Og án þess að það megi draga úr kröfum til kennslu í raungreinum, íslensku eða hinum námsgreinunum, þá má síst af öllu leggja niður eða draga úr kennslu í lífsleikni.

Við þurfum fleira fólk en ekki færra sem ber virðingu fyrir sjálfu sér og öðru, kann að hegða sér í samfélagi, sem hefur siðferðileg viðmið í störfum sínum og einkalífi, sem lætur ekki undan græðgishyggju, einkavinavæðingu, spillingu eða leynimakki, né beitir andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Síst af öllu má núna láta eins og uppeldi barnanna komi engum við nema misjafnlega innréttuðum foreldrum þeirra. Allt samfélagið þarf að koma að uppeldi hvers barns.

___
* Margt bendir til að þeir sem líða skort í æsku hvort sem það er matarskortur eða skortur á athygli eða hlýju, ausi öllum hugsanlegum gæðum lífsins og hjarta síns yfir sín börn því þau megi ekki skorta neitt. Börn sem afturámóti alast upp við slíkt eiga það til að verða fremur vanþakklát og taka öllu sem gefnum hlut, verða sjálfselsk og gráðug. Ég er ekki frá því að heilu kynslóðir Íslendinga séu enn að súpa seyðið af hinni nýríku stemningu eftirstríðsárana þegar fólk sem ólst upp við algeran skort hélt að allsnægtir myndu gera börnin þeirra hamingjusamara.
** Í þættinum Heimi hugmyndanna töluðu Páll Skúlason og Ævar Kjartansson við Sigrúnu Aðalbjarnardóttur þroskasálfræðing og prófessor í uppeldis- og menntunarfræði um hvort kenna þyrfti fólki að ala upp börn. Það er fróðlegt viðtal og hægt að hlusta á það hér.
*** Það er magnað hvað sumt fólk á erfitt með að ímynda sér uppeldi án ofbeldis. Á moggabloggi einu er fólk í hrönnum að býsnast yfir þeirri „forræðishyggju“ að setja lög sem banna ofbeldi gegn börnum og birtir lista þingmanna sem hafi staðið fyrir lagasetningunni - sem á að vera þeim til háðungar. Þetta minnir á fjaðrafokið sem varð þegar umræða um kynferðisofbeldi gegn börnum hófst hér á landi og karlmenn ráku upp ramakvein og sögðust vera hræddir við að kjassa börnin sín á almannafæri því þeim yrði örugglega stungið í steininn.
**** Í öðrum löndum er talað um barnsfæðingar unglingsstúlkna sem vandamál. Hér á landi er litið með velþóknun á ungar stelpur sem eignast börn og þær álitnar sérstaklega duglegar. Ég man eftir ótal myndum af „fimm ættliðum“ í Mogganum þar sem augljóst var að engin kvennanna hafði náð tvítugsaldri áður en hún varð móðir (stundum var aldur þeirra tekinn fram) og þessu hampað sem sérstöku fyrirmyndarframlagi til þjóðarbúsins. Það hefur þó örugglega ekki alltaf verið gott að alast upp hjá manneskju sem hefur ekki þroska til að skilja þarfir barna eða hæfileika til að kenna því, hvað þá vera því fyrirmynd og sýna því þolinmæði og mildi. Flestir unglingar eru nú bara of uppteknir af sjálfum sér til að valda foreldrahlutverkinu. A.m.k. hefði ég ekki verið gæfulegt foreldri þegar ég var á þessum djammaldri og gat þá þegar ekki séð að jafnöldrur mínar réðu sérstaklega vel við þetta hlutverk sem þær þó tóku sér fyrir hendur.

Efnisorð: , , ,