sunnudagur, janúar 31, 2010

Icesave birgðirnar ekki þrotnar enn

Enn er Icesave málið óleyst. Minnsta kosti mánuð í viðbót munu bloggsíður og aðrir vefmiðlar loga af umræðum, misjafnlega vel ígrunduðum. Auk þess sem fólk ryðst fram á ritvöllinn með heimskulegar skoðanir sínar þá er algerlega ljóst að það þekkir ekki einu sinni orðin sem það notar til að tjá sig.

Ég veit ekki hvað ég hef séð margar útgáfur af þessari fullyrðingu en þessar eru algengastar:

birgðirnar munu leggjast á almenning
fólk verði látið axla birgðirnar
auka þannig birgðirnar á þjóðinni
eins og áður skal pöpulinn bera birgðirnar

leggja mestu birgðarnar á almenning
láta almenning bera allar birgðarnar
almenningur að taka allar birgðarnar
við verðum að geta ráðið við birgðarnar

Hvaða birgðir og birgðar eru þetta eiginlega?

Líklega er verið að rugla orðinu birgðir saman við upphrópanirnar um skuldir sem leggjast á almenning vegna hinnar tæru snilldar Landsbankamanna:

birgðir, kvenkynsnafnorð, fleirtöluorð (þ.e. ekki til í eintölu)
beyging í öllum föllum: birgðir birgðir birgðum birgða
sbr. birgðir af mat

Kannski hefur þetta fólk svona miklar áhyggjur af því að vera sent heim með birgðir af mat á bakinu.

Önnur orð koma líka til greina sem gætu verið að rugla þetta vesalings fólk í ríminu (hér liggur mér við að segja: „rugla fólk í Rimini“ því Brávallagötuheilkennið virðist vera einkennandi hjá því) og mun ég því rekja helstu beygingarmyndir þeirra sem mér finnst líklegt að þvælist fyrir því — eða gerir við önnur tilefni.*

birgur, lýsingarorð (fæstar beygingarmyndirnar notaðar í daglegu máli nema sterka beyging hvers kyns fyrir sig í frumstigi, þ.e. ekki er talað um birgasta kaupmanninn eða að hann sé birgari en aðrir)
Hann er birgur, hún er birg, fyrirtækið er vel birgt af vörum
Annars er beygingin þannig: birgja birgði birgt
sbr. kaupmaðurinn er vel birgur af saltkjöti fyrir sprengidaginn, hann birgði sig upp með góðum fyrirvara
(af birgja)

birgir, þ.e. fyrirtæki sem sér öðrum fyrirtækjum fyrir vörum, fleirtala orðsins er birgjar

birginn, lýsingarorð
sbr. bjóða einhverjum birginn, þverskallast við e-n, standa fast á móti e-m, veita viðnám
(heimilt er að skrifa þetta orð með ypsíloni; byrginn)

En orðið sem blessaðir bögubósarnir ætla sér líklega að nota er þetta:

byrði, kvenkynsnafnorð
beyging í öllum föllum eintölu: byrði, byrði, byrði, byrði (eða byrðar)
í fleirtölu: byrðar, byrðar, byrðum, byrða (ypsílon vegna þess að það er komið af burður)
sbr. að bera byrðar á herðum sér


Jájá, ég veit að öll gerum við mistök og ásláttarvillur og ruglumst í ríminu. Ég er engin undantekning, geri eflaust allskyns stafsetningarvillur og málfræðiafglöp hér. En mér leiðist samt óendanlega að sjá þennan „axla birgðir“ þvætting endalaust.

___
* Ekki að svoleiðis fólk lesi mína ágætu bloggsíðu og þetta mun ekki koma því að nokkru gagni, heldur er þetta gert til að fá útrás fyrir gremju mína, svona eins og ég nota þetta blogg hvorteðer.

Efnisorð: ,