miðvikudagur, janúar 27, 2010

Minnisverðir karlar og minnisvarðar þeirra

Í Fréttablaði dagsins er bréf frá íslenskum skáldkonum vegna bréfs sem þær sendu fyrir allnokkru og virðist hafa verið tekið til greina með óvæntum hætti. Tilefnið er ákvörðun Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn að láta gera styttu* af Tómasi Guðmundssyni skáldi. Margbúið er að benda á þá staðreynd að kynjaslagsíða í styttum af nafngreindu fólki er mjög konum í óhag: einungis er til ein stytta af konu** og er það brjóstmynd af Björg C Þorláksson sem stendur við Odda, eitt af húsum Háskóla Íslands. Jafnoft eða oftar hefur verið bent á að það sé pínu gamaldags að setja upp styttur af fólki svona almennt, svona minnisvarðar séu úreltir. En semsagt, eigi að halda áfram að setja upp minnisvarða um merkilegt fólk þá sé alveg pottþétt kominn tími á styttur af konum. Og þetta benda skáldkonurnar á í bréfinu.

Á Degi bókarinnar árið 2006 undirrituðu um þrjátíu íslenskar skáldkonur bréf til menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar og forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur þar sem þær lögðu til að efnt yrði til samkeppni um útilistaverk eða minnisvarða um Svövu heitna Jakobsdóttur rithöfund. Í bréfinu var spurt hversu margir minnisvarðar um skáldkonur væru í Reykjavík - fljótsvarað, núll - en minnt á að Einarar, Jónasar og Hannesar þessa lands væru víða steyptir í kopar og sumir oft. Í bréfinu var ekkert sérstaklega verið að mælast til þess að rithöfundar enduðu sem styttur - stytta getur verið líkkista í sjálfri sér - fyrst og fremst væri virk úrvinnsla og þekking á verkum höfundarins mikilvæg. Hins vegar var rökstutt að þegar börn, borgarbúar og ferðamenn væru leiddir um torg "til að sjá söguna með eigin augum" þá gæfu hin sýnilegu ummerki skökk skilaboð um hverjir hefðu mótað söguna, bókmenntirnar, borgina. Menningarsagan hefði á undanförnum árum verið skorin upp og gegnumlýst með fræðigreinum á borð við einsögu og kynjafræði, um framlag kvenna fjölluðu nú heilu stofnanirnar og háskóladeildirnar, en opinberar táknmyndir spegluðu alls ekki þá mynd.

Um úrvinnslu hugmyndarinnar sagði: "Farsælast teljum við að fela fagmönnum útfærsluna, en sæti fyrir vegfarendur á bekk við hlið skáldkonunnar kæmi fullt eins vel til greina og koparstytta á stalli. […] Aðalatriðið er að minningu Svövu og arfleifð verði sómi sýndur og henni komið í snertingu við borgarbúa."

Í Lesbókargrein sem síðar birtist í tilefni blossheitrar ákvörðunar borgarstjórnar um að reisa styttu af Tómasi Guðmundssyni (sjá "Tómas, Svava og tíuþúsundkallinn", Lesbók Mbl., 4. okt. 2008 eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur) var greint frá áðurnefndu bréfi og afdrifum þess - takk, Listasafn Reykjavíkur mun skoða erindi ykkar, síðan ekki múkk meir. Í greininni sagði m.a.: "Hugmynd téðra kollega Svövu var að minnisvarðinn gæti t.a.m. verið listaverk á almannafæri, ekki endilega stytta eða stallur, kannski bara áletrun, bekkur þar sem hægt væri að setjast hjá Svövu sjálfri, tehús, textahús?… hvaðeina sem kveikti hugljómun og líf - og staðsetningin gat verið Hljómskálagarður, bakkar Tjarnarinnar, hvar sem væri."

Nú er ekki endilega víst að borgaryfirvöld hafi tekið niður glósur úr bréfi eða Lesbók á sínum tíma og síst viljum við eigna okkur höfundarrétt að skáldi á bekk. Slíkir varðar eru víða til í útlandi. Það er engu að síður athyglisvert hvernig stjórnendum borgarinnar tókst að nýta hugmyndina - til hálfs.

Undirritaðar eru jafn ástfangnar af Tómasi Guðmundssyni og aðrir, en minna um leið á að brjóstmyndin, ljóð hans í gluggum Ráðhússins og Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar eru þegar til, honum til heiðurs. Ætlunin er ekki að stilla einum upp gegn öðrum eða standa í samanburði. Það er óþarft. En þar sem umræðan virðist nú einna helst snúast um listrænt gildi minnisvarðans um Tómas er hætt við að kjarni málsins týnist. Þess vegna, einfaldlega, drögum við á flot lúið bréfsnifsi sem eitt sinn var sent af góðum hug niður að Tjörn - til þess að endurvekja umræðu sem of oft er svæfð og sultuð: Hverjir eru það sem hefja á stalla og hvað þarf til þess að myndin af menningu okkar verði fjölbreyttari, raunsannari og fyllri?

Í öllu falli er kominn tími til að íslenskar skáldkonur verji heiður íslenskra skáldkvenna. Það gerir það augljóslega enginn annar.

Áslaug Jónsdóttir, Guðrún Hannesdóttir, Iðunn Steinsdóttir, Ingibjörg Haraldsdóttir, Kristín Marja Baldursdóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Kristín Steinsdóttir, Olga Guðrún Árnadóttir, Sigrún Eldjárn, Sigurbjörg Þrastardóttir og Vigdís Grímsdóttir.
***

Það er ekki hægt annað en taka undir þetta.
___
* Til er stytta af Tómasi Guðmundssyni. Það er brjóstmynd sem upphaflega stóð í Austurstræti en vegna skrílsláta þar varð að flytja hana og stendur hún nú í aðalstöðvum Borgarbókasafnsins í Grófinni. Þar sjá hana allir safngestir og er það bókelskt fólk sem ber virðingu fyrir skáldum.
** Það er líka til minningarreitur um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, sem er talsvert nútímalegri en brjóstmynd, en sem torg uppfyllir það þó ekki skilgreininguna að vera ein af styttum bæjarins. (Og minnisvarðinn er reyndar afar ósýnilegur þegar snjór liggur yfir öllu, og glerháll að auki).


*** Ég sé reyndar að Ragna Sigurðardóttir er ekki ein þeirra sem skrifar undir bréfið. Hún skrifaði hina ágætu bók Hið fullkomna landslag þar sem er einmitt komið inná þetta með styttur bæjarins. Eitt af vandamálunum sem blasir við þeim er að Íslendingar eru svo óuppdregnir að þeir kunna ekki að umgangast myndlist á almannafæri. Í bók Rögnu er talað um að veggjakrotarar skemmi myndlistarverk og hélt ég að það væri bara skáldskapur en það er öðru nær. Þegar ég rölti um Klambratún nú fyrr í vetur blasti við skemmdarfýsn einhverra sem aldrei ættu að fá að umgangast úðabrúsa: Þorsteinn Erlingsson skáld var þar niðurlægður bæði með því að spreyja á höfuðið á brjóstmyndinni og skrifa niðrandi ummæli undir (sem komu reyndar skáldskap Þorsteins eða persónu ekkert við heldur bara almenn blótsyrði á ensku). Allt fram að þessu hafði mér verið frekar hlýtt til veggjakrotara og talið að ekki mætti setja bönd á þessa sköpun þeirra (annað en taggara, þeir eru bara með sóðaskap) en þarna snerist mér hugur. Þetta var ömurlegt.
Kiljunni í kvöld var einmitt fjallað um styttur bæjarins og sýnd skemmdarverkin á verkinu af Þorsteini Erlings. Ég var nú satt að segja að vona að einhver „Steinn“ sem sæi um viðhald á útilistaverkum væri búinn að þrífa hroðann af).

Efnisorð: , ,