miðvikudagur, janúar 20, 2010

Handboltamenn í pólitískum leikjum

Ég hef stundum sagt eitt og annað um fótbolta og þá aldrei neitt jákvætt enda þykir mér óbærilega leiðinlegt að horfa á þessa íþrótt stundaða og áhangendur hennar haga sér ömurlega sem slíkir (hvað voru margar vændiskonur fluttar sérstaklega til Þýskalands til að þjóna þeim þegar heimsmeistarakeppnin var haldin þar?).* Og ekki varð KSÍ hneykslið til að bæta úr skák enda þótt það væri uppspretta eins besta brandarans í Áramótaskaupinu.** Handbolti hefur mér þótt ívið skárri áhorfs og lengi vel hafði ég ekkert sérstaklega neikvætt um hann að segja — nema auðvitað þegar fréttatímar og annað efni Ríkissjónvarpssins var fært til eða fellt niður til að sýna beinar útsendingar.

Þetta breyttist, eins og svo margt annað, í kjölfar bankahrunsins. Þá kom í ljós að handboltamenn höfðu verið eins og mý á mykjuskán Kaupþings banka og rakað þar saman fé í græðgi sinni, alltof hátt launaðir og fengu svo kúlulán í ofanálag til að sukka með. Sumir þeirra færðu svo húseignir yfir á nafn eiginkvenna til að hindra að hægt væri að ganga að eignunum þegar allt var komið í bál og brand. Smekklegt lið eða hitt þó heldur.

Fremstur í flokki jafningja í sóknarboltanum í Kaupþingi var Kristján Arason, kúlulánþegi, eigandi eignarhaldsfélagsins Sjö hægri, sem leyna átti kaupunum á hlutabréfunum í Kaupþingi, og sérlegur eiginmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Nýlega steig svo annar fyrrum handboltakappi fram á sjónarsviðið, Geir Sveinsson, tengdasonur Villa Vill fyrrum borgarstjóra og hann ætlar einmitt í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum. Í dag sá ég svo að Ólafur Stefánsson — sem fólk er nánast skikkað til að dýrka — styður opinberlega einn frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í þessum í prófkjörinu fyrir þessar sömu kosningar. Ég hafði heyrt á skotspónum að Ólafur væri Sjálfstæðismaður*** en vildi ekki trúa því, nú virðist það alveg ljóst.

Eiga þetta að vera fyrirmyndir barna?* Sjálfstæðisflokkshyski, sjálftökulið og gróðapungar?

Ég held að handboltinn sé fallinn jafnvel niður fyrir fótbolta á vinsældarlista mínum. Lengra verður varla sokkið.

___
* Knattspyrnumenn virðast ekki mikið skárri en áhangendurnir. Sífelldar sögur um drykkju þeirra, spilafíkn, gróðabrall og annað svall eru ekki til að auka virðinguna fyrir þeim og furðulegt að á þessa menn skuli bent sem fyrirmyndir og börnum att út í boltaíþróttaiðkun því hún sé svo holl.
** Brandarinn var stuttur og snerist um að enginn peningur væri til í kvennafótboltann enda væri búið að eyða alltof miklum pening í kellingar. (Hér hélt ég að ég gæti sett tengil á skaupið en finn ekki þetta atriði eitt og sér.)
*** Viðbót: María talar eins og útúr mínu hjarta ... Og í athugasemdum var bent á að Ólafur Stefánsson hefði skrifað grein vegna alþingiskosninganna í fyrra og hvatt þar fólk til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, sbr. það sem Illugi Jökuls skrifaði.
Viðbót ári síðar: Staðfesting á því að Ólafur hafi verið skráður í Sjálfstæðisflokkinn fékkst þegar hann segist hafa skráð sig úr flokknum. Það gerðist þó ekki fyrr en síðla árs 2010.
Viðbót: Og enn berast fréttir af fjárglæfrum handboltamanna.

Efnisorð: , , , ,