þriðjudagur, febrúar 09, 2010

Það er ekkert konunglegt við spilavíti

Þegar íslenskur almenningur hafði í fyrsta sinn tækifæri til að ferðast til útlanda fóru heilu hjarðirnar til sólarlanda. Það þótti hámark sælunnar og margir fóru árlega á sama staðinn til að gista á sama hótelinu og svamla í sömu sundlauginni. Sögurnar sem sagðar eru frá þessum fyrstu árum sólarlandaferða eru flestar á einn veg: þetta var eitt heljarins fyllerí. Áratugir liðu og heilu fjölskyldurnar, gott ef ekki kynslóðirnar, þekktu ekkert til útlanda nema ódýra áfengið, grísaveislurnar og best af öllu: bjórinn. Ennþá er til fólk sem finnst utanlandsferðir vera svo mikil breyting frá sínu daglega lífi að því þykir ekkert tiltökumál að byrja að hella í sig strax á Keflavíkurflugvelli, jafnvel þó lagt sé af stað snemma morguns. Í útlöndum á að vera fullur.

Þó nú séu mun fjölbreyttari ferðir í boði en bara sólarlandaferðir þá breytist hugsunarhátturinn ekkert mikið. Útlönd = fyllerí. Á síðustu árum (ég veit ekki nákvæmlega hvenær þetta byrjaði) kom skyndlilega upp sú stemning að það væri enginn maður með mönnum nema hann færi og sæi „sitt lið“ í enska boltanum spila heimaleik, og því fóru heilu hjarðirnar af Íslendingum á fótboltaleiki víðsvegar um Bretland — og svo þurfti auðvitað að fara á heimsmeistarakeppnir og Evrópumótið og svo framvegis. Og alltaf nóg af áfengi haft um hönd.

Þetta er nú stemningin sem margir Íslendingar hafa fyrir utanlandsferðum. Fyllerí, fyllerí og meira fyllerí.* Soldið af kellingum innámilli og samanvið (stripparar og vændiskonur), svona allavega ef eiginkonur eru ekki með í för.

Það er því von að karlmenn sem þekkja ekkert annað en svona utanlandsferðir sjái ekki hvað annað ferðamennska getur haft uppá að bjóða. Gullfoss og Geysir eru nú ekki merkilegir í augum fótboltafíkla og annarra fíkla, hvað þá spilafíkla (má setja nafn Eiðs Smára hér?). Þessvegna þykjast tvíburarnir fótboltafræknu** nú vera að gera ferðaþjónustu á Íslandi sérstakan greiða með því að koma með þá snjöllu hugmynd að opna hér spilavíti.

Mér finnst það reyndar jafngáfuleg hugmynd og sú sem Hannes Hólmsteinn viðraði hér um árið þegar honum fannst að Ísland ætti að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð, aflandseyja held ég að það sé kallað í dag, skattaparadís, allsherjar fríhöfn eða hvað hann nú kallaði það. Flestum fannst þetta fáránleg hugmynd og eftir hið fræga bankahrun er þetta eitt af því sem er beinlínis notað gegn HHG og frjálshyggjumönnum; að þeim hafi ekki nægt ástandið eins og það var með Tortólum og Cayman eyjum heldur viljað gera okkur líka að einni af peningaþvottastöðvum heimsins.

Það má vel vera að spilavíti á Hilton hótelinu myndi trekkja að fullt af ógeðfelldu ríku hyski sem kæmi til að reyna að auðgast enn meir, en það myndi líka kalla á ýmsa aðra „þjónustu“ svo sem vændi í stórum stíl. Það þarf varla að taka það fram að Las Vegas er ekki bara spilaborg heldur gróðrastía allskyns glæpa, vændis, fíkniefnaviðskipta, rána og morða.*** En tvíburarnir á takkaskónum hafa nú ekki miklar áhyggjur af því og fá líklega dyggan stuðning KSÍ í þessum undirbúningi öllum.

Mér féllust hinsvegar eiginlega bara hendur þegar ég heyrði af þessu. Eins og fleirum finnst mér hugmyndin um spilavíti verulega mikið 2007 hugsunarháttur. En frjálshyggjupostular ýmiskonar fara nú mikinn á vefsíðum og segja þetta mikið framfaramál og allir sem hafi eitthvað við þetta að athuga séu kommúnistar (vilja ekki leyfa neinum að græða peninga) og forræðissinnar.

Ég tek hinsvegar undir með þeim sem gagnrýna spilakassanna sem Rauði krossinn og SÁÁ reka og græða á. Það er eitthvað verulega fáránlegt að SÁÁ græði á spilafíklunum sem þeir þykjast svo ætla að hjálpa (RKÍ á náttúrulega ekki að koma nálægt spilakössum, punktur). Mörg dæmi eru um að fólk hafi eytt öllu sínu í þessa sakleysislegu kassa.

En spilakassarnir afsaka ekki spilavíti,**** ekki frekar en það að ríkið skuli selja áfengi í búðum sé fín röksemd fyrir að lögleiða fíkniefni eða fara að selja áfengi í búðum. Það er óþarfi að gera illt verra.

Ferðamenn koma ekki til Íslands til að spila í spilavítum. Þeir sem hafa slíkar langanir geta annaðhvort stillt sig rétt á meðan þeir jafna sig eftir að hafa skoðað náttúrufegurð uppsveita Árnessýslu eða sleppt því að þvælast hér norður undir heimskautsbaug. Í staðinn geta þeir farið á einhvern ágætan bar á sólarströnd, mér skilst að Klörubar á Kanaríeyjum sé voða vinsæll.
___
* Talandi um fyllerí. Alveg er ég upprifin af hamingju að heyra um nemendur Fjölbrautarskólans í Breiðholti sem berjast fyrir rétti sínum til drykkjuferðalaga. Það stefnir aldeilis í frábært þjóðfélag þegar svona baráttujaxlar erfa landið.
** Án þess að ég viti neitt um þessa fótboltatvíbura umfram að annar þeirra er giftur konu sem er fræg í íslenskum fjölmiðlum fyrir að vera dugleg að koma sér á framfæri við íslenska fjölmiðla [glögg lesönd hefur bent á að fjölmiðlaglaða sé mágkona þeirra tvíburanna en gift hvorugum þeirra], þá rámar mig í að þeir hafi báðir búið erlendis um hríð og hljóta því að hafa gert fleira en bara drekka áfengi í útlöndum. En einhvernveginn sé ég þá nú ekki alveg fyrir mér á kafi í lista- og menningarlífi þar sem þeir hafa viðdvöl um lengri eða skemmri tíma. Andskoti sem þeim tekst samt vel upp að viðhalda skoðun minni á fótboltamönnum.
*** Nei, ég hef ekki bara CSI sem heimild fyrir þessu. Án þess að ég hafi lagst í miklar rannsóknir fann ég vefsíður með upplýsingum um glæpi í Bandaríkjunum og þar skorar Las Vegas hátt og Nevada sem slíkt sé litið á ríki en ekki borgir (en í Nevada er fjárhættuspil semsagt löglegt). Í Nevada eru fleiri nauðganir en í öðrum ríkjum Bandaríkjanna og rán eru þar líka algengari.
**** Spilavíti er helvíti gott orð og ætti að vera notað um spilasalina með spilakössunum auk þess sem það á að sjálfsögðu að nota um fyrirbærið þar sem fínna fólkið mætir og spilar rassinn úr buxunum. Hann þarna ritstjóranefnan á Fréttablaðinu fer rúmlega yfir strikið í frjálshyggjublaðrinu þegar hann reynir að breyta víti í 'stofu' í leiðara dagsins. Og spilafíkn er ekki bara ímyndarvandi og vandamál íslensks þjóðfélags, heldur raunverulegur vandi sem stafar af fjárhættuspili þar sem of mikið var lagt undir.

Efnisorð: , , , ,