Tímaskekkja
Af og til gegnum árin hefur verið rætt á síðum blaðanna um hvort seinka ætti klukkunni. Mér hefur aldrei fundist þetta áhugaverð umræða og heldur verið á móti þessari hugmynd, ekki síst vegna þess að einhver viðskiptagaurinn (Vilhjálmur Egilsson?) lagði alltaf orð í belg og það varð nóg til þess að mér leiddist og varð á móti þessu.* Nú er þessi umræða komin af stað eina ferðina enn og í fyrsta sinn finnst mér vera komin rök í málinu sem mér finnst mark takandi á. Bent er á að líkamsklukkan okkar sé á skjön við klukkuna sem miðað er við á vinnustöðum og skólum og fólk sé því í raun að rífa sig á fætur um hánótt til að mæta í vinnuna eða skólann.
Ég er ein þeirra sem hef liðið ómældar þjáningar hvern þann morgun sem ég hef neyðst til að mæta í skóla eða vinnu klukkan átta og jafnvel klukkan níu. Mér hefur liðið illa andlega og ekki náð að hugsa heila hugsun á þessum tíma hvorteðer og því ekkert gagn að mér í vinnu og lærdómur síaðist ekki inn svo snemma dags heldur. Helgarnar notaði ég alltaf til að vinna upp glataðan svefn, sem varð svo aftur til þess að ég missti af fjölmörgu af því sem annað fólk tók sér fyrir hendur til að nýta frítíma sinn. Mætti þó alltaf jafn súr í vinnu eða skóla á mánudagsmorgni, úthvíld en samt ekki almennilega vöknuð og leið aldrei vel fyrr en undir hádegið.
Enda þótt nú sé ég svo gömul sem á grönum má sjá og finni sterklega fyrir þeim einkennum ellinnar að vakna af sjálfsdáðum hvort sem ég þarf þess eða ekki, þá held ég að það sé góð hugmynd að stilla klukkuna hér á landi uppá nýtt. Það er óþarft að kvelja fjölda fólks með þessum morgunæfingum ef hægt er að létta því lífið með þessum einfalda hætti.
___
* Svo getur vel verið að Vilhjálmur - eða hver þetta nú var - hafi einmitt líka verið á móti því að færa klukkuna, og ég því óvart verið sammála honum, en ég lagði ekki einu sinni á minnið hans afstöðu.
Ég er ein þeirra sem hef liðið ómældar þjáningar hvern þann morgun sem ég hef neyðst til að mæta í skóla eða vinnu klukkan átta og jafnvel klukkan níu. Mér hefur liðið illa andlega og ekki náð að hugsa heila hugsun á þessum tíma hvorteðer og því ekkert gagn að mér í vinnu og lærdómur síaðist ekki inn svo snemma dags heldur. Helgarnar notaði ég alltaf til að vinna upp glataðan svefn, sem varð svo aftur til þess að ég missti af fjölmörgu af því sem annað fólk tók sér fyrir hendur til að nýta frítíma sinn. Mætti þó alltaf jafn súr í vinnu eða skóla á mánudagsmorgni, úthvíld en samt ekki almennilega vöknuð og leið aldrei vel fyrr en undir hádegið.
Enda þótt nú sé ég svo gömul sem á grönum má sjá og finni sterklega fyrir þeim einkennum ellinnar að vakna af sjálfsdáðum hvort sem ég þarf þess eða ekki, þá held ég að það sé góð hugmynd að stilla klukkuna hér á landi uppá nýtt. Það er óþarft að kvelja fjölda fólks með þessum morgunæfingum ef hægt er að létta því lífið með þessum einfalda hætti.
___
* Svo getur vel verið að Vilhjálmur - eða hver þetta nú var - hafi einmitt líka verið á móti því að færa klukkuna, og ég því óvart verið sammála honum, en ég lagði ekki einu sinni á minnið hans afstöðu.
Efnisorð: almennt
<< Home