laugardagur, febrúar 13, 2010

Vera var vorum vorið

Enn er staðið í tímaritatiltektum. Ekki stendur þó til að henda einu einasta snifsi heldur er verið að raða í réttar möppur því sem hefur farið á flakk yfir í möppur sem tilheyra jafnvel öðrum áratugum. Allt er þetta þó sama tímaritið, þ.e.a.s. VERA. Saga VERU spannar frá 1987 og ég á flest tölublöðin (mig vantar það fyrsta!) allt til þess að síðasta tölublaðið kom út á árinu 2005.

VERA hafði gríðarleg áhrif á skoðanir mínar á heiminum og ég er þakklát öllum þeim sem tóku viðtöl, skrifuðu greinar, tóku myndir, sáu um umbrot, ritstýrðu, hönnuðu, teiknuðu, skrifuðu gagnrýni og komu á einn eða annan hátt að VERU gegnum árin. Ég hefði aldrei orðið að feminista ef ekki hefði verið fyrir VERU.

Þegar ég var að umstafla VERU undraðist ég að sumar forsíðurnar kveiktu engum bjöllum og ef ég vissi ekki betur þá héldi ég að ég hefði ekki lesið öll þessi blöð. En ég mun örugglega taka mig til fljótlega og lesa hvert einasta eintak mér til upprifjunar og skemmtunar. Jafnvel mun ég birta einhverjar greinanna (eða valda kafla úr þeim) hér. Ég gaf mér ekki tíma til að lesa neina VERU í dag og fletti ekki nema tveimur blöðum en rak strax augun í þetta gullkorn:

„Og þið munið stelpur: Alltaf að tyggja vel áður en þið kyngið.“
(Úlfhildur Dagsdóttir, 1/1999)

Efnisorð: ,