fimmtudagur, febrúar 25, 2010

Við erum jafnréttissinnar, alveg satt!

Ég varð hugsi þegar ég las í blaðinu að bankarnir, sem ekki hafa skipað nema örfáar konur í stjórnir þeirra fyrirtækja sem bankarnir reka nú, tilkynna jafnframt glaðbeittir að þeir taki mið af jafnréttislögum við ráðningu fólks í stjórnirnar. Og ég fór semsagt að hugsa hvort það geti verið að þeim finnist í alvöru að þeir séu alveg næstum með jafnmargar konur og karla í stjórnunum, hvort það sé nóg að sjá nokkur kvenmannsnöfn á listanum til að þeim finnist þeir standa sig harla vel.

Og mér varð hugsað til kunningja míns sem fyrir nokkrum árum síðan var stjórnarformaður í fyrirtæki sem þá var með um 40 starfsmenn. Í jafnréttislögum er kveðið á um að
Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skulu samkvæmt lögunum setja sér jafnréttisáætlun eða kveða sérstaklega á um jafnrétti kvenna og karla í starfsmannastefnu sinni. Þar þarf að kveða sérstaklega á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í 19.-22. grein jafnréttislaganna. Endurskoða þarf jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu á þriggja ára fresti.

Ég spurði þennan kunningja minn hvort jafnréttisáætlun væri fylgt í hans fyrirtæki og hann kannaðist ekki við það, sagði að slíkt væri ekki á valdsviði sínu heldur forstjórans. Ég hvatti hann þá til að ræða málið á stjórnarfundi og hvetja til þess að lögboðinni jafnréttisáætlun yrði fylgt. Nokkru síðar spurði ég hann svo aftur hvort hann væri eitthvað farinn að gera í málinu. Svo var ekki. Á þessu gekk nokkrar vikur eða mánuði þar til mér varð algerlega ljóst að hann ætlaði sér hreint ekki að koma á jafnréttisáætlun í sínu fyrirtæki. Þetta var þó maður sem hreinlega hrópaði á torgum að hann væri svo mikill jafnréttissinni að leitun væri á öðru eins. Hann væri sko sannarlega baráttumaður fyrir konur. Og greinilega fannst honum það sjálfur enda þó störf hans sem stjórnarformaður í fyrirtæki segðu annað.

Og hvernig hljómar svo hin grimma jafnréttisáætlun sem fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn eru svo svívirðilega neydd til að þröngva upp á starfsemi sína? Er ætlast til að karlmönnum með reynslu og þekkingu sé hent út á guð og gaddinn og vanhæfar kellingagribbur ráðnar í staðinn?

Svona lítur þessi fasíska, nasíska og níðingslega áætlun út:

Gæta þess að konur og karlar fái sömu laun og njóti sömu kjara fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf.

Laus störf hjá fyrirtækinu skulu standa opin bæði konum og körlum.

Tryggja að starfsþjálfun og endurmenntun sé aðgengileg báðum kynjum.

Koma á kerfi sveigjanlegs og fyrirsjáanlegs vinnutíma ásamt því að minna á mikilvægi þess að samhæfa fjölskyldu- og atvinnulíf.

Mikilvægt er að bæði konur og karlar nýti sér þann rétt sem þau eiga varðandi foreldra- og fæðingarorlof og leyfi vegna veikinda barna.

Kynferðisleg áreitni er ekki liðin á vinnustaðnum. Því eru fyrirbyggjandi aðgerðir og fyrirfram ákveðin viðbrögð nauðsynleg.

Það sér auðvitað hver jafnréttissinnaður karlmaður að þessi óhæfa má aldrei verða í þeirra fyrirtæki. En þeir eru auðvitað alltaf umþaðbil alveg búnir að redda okkur þessu jafnrétti sem við erum alltaf að tala um.

Þeir ætlast allavega til þess að við trúum því.

Efnisorð: , ,