Fórnum ekki vatnsbólum
Það er fjarri því að Ólafur F. Magnússon, sem er einn margra borgarstjóra yfirstandandi kjörtímabils, hafi verið minn uppáhaldsborgarfulltrúi (eða 'okkar maður á staðnum' eins og þar segir). En í dag er ég svo hjartanlega sammála honum og get ekki annað en vonast til að tillaga hans um að bannað verði að leggja raflínur yfir Heiðmörk verði samþykkt.
„Reykvíkingum sem öðrum landsmönnum verður sífellt ljósara hvílík sóun á sér stað við ósjálfbæra nýtingu hitavatnsauðlindarinnar, þar sem aðeins orkan vegna gufuafls en ekki heita vatnið sjálft er nýtt. Heita vatnið sjálft fer til spillis og gengið er á auðlind þess með ósjálfbærum og einstaklega óhagkvæmum og óábyrgum hætti. Gufuaflsorkan er síðan nýtt til að selja raforku á undirverði til erlendra álbræðslufyrirtækja, sem hafa gífurlegan hagnað af starfsemi sinni án þess að skila tilsvarandi auð eða gjaldeyri til landsins. Þessa ósvinnu verður að stöðva og tryggja þarf að íslensk fyrirtæki og íslenskur almenningur hætti að niðurgreiða raforkuverð til orkufrekra erlendra málmbræðslufyrirtækja á sama tíma og gengið er hættulega nærri hitavatnsauðlind höfuðborgarborgarsvæðisins. Tillöguflytjandi hafnar alfarið þeirri græðgi og skammsýni ásamt vanþekkingu á umhverfis- og orkumálum sem einkennir störf meirihlutans í borginni og fjárhagslega óstjórn hans á orkumálum Reykvíkinga, að ekki sé talað um virðingarleysi meirihlutans fyrir framtíðarhagsmunum alls almennings á höfuðborgarsvæðinu. Of langt er þó gengið í þjónkun við erlent auðvald og mjög þrönga sér- og skammstímahagsmuni fáeinna íslenskra aðila, ef leggja á vatnsverndarsvæði Reykvíkinga í bráða hættu með stórframkvæmdum á borð við raflínulagnir yfir Heiðmörkina vegna t.d. óraunhæfra fyrirætlana um raforkusölu til fleiri álvera á suðvesturhorni landsins. Engar umhverfislegar eða efnahagslegar forsendur eru fyrir frekari orkusölu til orkufrekra málmbræðslufyrirtækja hér á landi.“
Efnisorð: pólitík, stóriðja, umhverfismál
<< Home