þriðjudagur, mars 02, 2010

Skoðanir fjölmiðlamanna og annarra fábjána á þeim sem helga líf sitt list og menningu

Það þurfti svosem ekki að koma á óvart að misvitrir einstaklingar* hæfu upp raust sína og fordæmdu úthlutun listamannalauna. Ég reyndi að leiða hjá mér bloggupphrópanir** og skammir í garð kvikmyndagerðarmannsins, rithöfundarins og þingmannsins sem átti að hafa verið dónalegur í garð þessara misvitru einstaklinga. Ég nennti þó ekki að kynna mér málið frekar fyrr en Gísli málbein vísaði á samtalið sem átti sér stað á Bylgjunni.

Nú hef ég hlustað á samtalið og þó ég hafi auðvitað búist við því að misvitru upphrópunareinstaklingarnir hafi afflutt og mistúlkað orð Þráins Bertelssonar þá fannst mér ánægjulegt að heyra hve málefnalegur hann var og hve þolinmóður hann reyndist vera þegar hann reyndi að útskýra tilgang listamannalauna og mikilvægi lista í samfélagi siðaðra þjóða. Hinir misvitru starfsmenn Bylgjunnar vildu greinilega meira fútt, því raus um menningu er náttúrulega ekki nógu hresst, svo þeir fóru að pikka í löngu auman blett sem eru heiðurslaun Þráins og sem bloggheimar loga reglulega útaf. Þá virðist Þráinn hafa séð hverskonar viðtal hann var kominn í og sagði Bylgjufólkinu til syndanna.

Þetta er í fyrsta sinn sem mig hefur langað til að senda Þráni aðdáunarbréf.

___
* Misvitrir eru allt frá því að vera illa upplýstir en blaðra samt; hafa pólitískar skoðanir sem ganga gegn öllu sem ríkið styrkir (uppáhaldsþjóðflokkurinn minn: frjálshyggjumenn) og allt til hreinræktaðra, eða jafnvel innræktaðra fábjána.

** Bloggupphrópanir komu líka fram í athugasemdum við annars skynsamleg blogg, eins og hjá Maríu og Jennýju Önnu.

Efnisorð: , , ,