fimmtudagur, ágúst 04, 2011

Mannsæmandi umhverfi fyrir fanga

Eins og forstöðumaður fangelsa á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri hefur sagt í ágætri grein, eru tíu ár síðan hugmyndavinna vegna fangelsis á Hólmsheiði hófst. Þá voru liðnir fjórir áratugir frá því að fyrst var unnin skýrsla um nýtt fangelsi sem leysa átti hegningarhúsið á Skólavörðustíg af hólmi. Það er enn í notkun og fangelsið í Kópavogi líka, en hvorugt uppfyllir neinar nútímakröfur til fangelsa. Konur sem dveljast í kvennafangelsinu í Kópavogi (ekkert annað fangelsi er ætlað konum) búa í húsi sem ekki var ætlað sem fangelsi og þar er fáránlega léleg líkamsræktaraðstaða og útivistin fer fram á lítilli grasflöt þar sem hvorki er skjól fyrir veðri og vindum né augum bæjarbúa, svo nokkuð sé nefnt af göllunum við Kópavogsfangelsið.

Styrinn stendur um hvernig eigi að fjármagna og framkvæma bygginguna, á ríkið að reisa og reka eða eiga einkaaðilar að byggja og ríkið að reka; á að setja verkið í útboð og þá alútboð? Þarf nýja fangelsið að vera á Hólmsheiði eða á frekar að byggja við Litla Hraun; er nægilegt að byggja gæsluvarðhaldsfangelsi á höfuðborgarsvæðinu en nýta fyrirliggjandi húsnæði og starfsmannakost á Eyrarbakka? Eins og forstöðumaður fangelsanna bendir á hafa álíka atriði þvælst fyrir mönnum síðastliðin tíu ár og „alltaf hafa stjórnvöld á einhverjum tímapunkti skipt um kúrs eða hætt við“, og segir nóg komið af þessari vitleysu.

Sannarlega hefði verið gott ef það hefði verið búið að leysa fangelsismálin fyrir löngu (tildæmis alla þá áratugi sem Sjálfstæðisflokkur stýrði landinu). Þá biðu menn ekki árum saman eftir fangelsisvistinni eftir að þeir hafa hlotið dóm. Hafi þeir framið nauðganir eða aðra ofbeldisglæpi er óásættanlegt að þeir gangi laus eina mínútu eftir að dómur fellur, hvað þá mánuði og ár.*

Ég er í hópi þeirra sem vona að einhverjir af öllum þeim hvítflibbaglæpamönnum sem settu okkur á hausinn fái fangelsisdóm, auk þess sem ég vona auðvitað alltaf að fleiri nauðgarar fái dóm en ekki bara klapp á kollinn frá skilningsríkum dómurum (lesist: nauðgaravinum). Og þá þarf fleiri vistunarpláss, fleiri fangelsi.

Sú hugmynd að nota hina feiknastóru Bauhaus-byggingu sem fangelsi, eða fyrrum verkamannavistarverurnar (gámana) frá Kárahnjúkum mega þó ekki verða að veruleika, ekki að ég telji að hætta sé á því. Núverandi ríkisstjórn er umhugaðra um fólk en svo að illmenni séu látin dúsa í gluggalausum helvítum eins og þeim sem kínverskum verkamönnum (eða hverrar þjóðar sem þeir voru) var boðið uppá með velþóknun góðærisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðis. Það eru litlar líkur á að núverandi ríkisstjórn setji glæpamenn, hvorki þá sem gengu í teinóttu né þá sem súpa rakspíra af stút, í annað húsnæði en það sem ætlað er til slíkra nota, og þar sem starfsfólk er sérstaklega valið og þjálfað til starfa.** Þessvegna þýðir lítið að bjóða fram sumarbústaði og bændabýli, jafnvel þó okkur hinum þætti það of gott fyrir glæponana.*** Það er skiljanlegt að okkur þyki sem mál sé að drífa menn bak við lás og slá sem þar eiga heima, og að þeim sé ekki of gott að dúsa þar sem þeir eru settir, en það er bara þannig að ef við ætlum að vera nútímaríki sem kemur sæmilega mannúðlega fram við alla, líka fanga, þá megum við ekki láta slíkt eftir okkur.

Framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslands hefur bent á að aðbúnaður fanga ætti að vera í fyrirrúmi þegar hugað er að nýju fangelsi:

Í allri þeirri umræðu sem hefur átt sér stað vekur furðu að lítið er talað um þann hóp sem málið varðar mest; fangana. Það er oft sagt að þjóð megi dæma á því hvernig hún hlúi að sínum veikustu þegnum og fangar tilheyra þeim hóp án vafa enda hafa grundvallarréttindi sem sterkur þegn býr yfir, verið tekin af föngum tímabundið og þeir þannig gerðir berskjaldaðir. Þetta eru eðlilegar ráðstafanir sem meirihluti fólks er sammála um hjá siðmenntuðum þjóðum.

Þegar þegnar komast upp á kant við samfélag sitt á þann hátt að rétt þykir að fangelsa þá, fyrirgera þeir meðal annars rétti til að ráða ferðum sínum, rétti til frjálsra samskipta, rétti til frelsis í vinnu, rétti til að haga lífinu á þann máta sem þeir helst kysu. En einn er sá réttur sem ekki skal af þeim hafa; að komið sé fram við þá eins og manneskjur. Í því felst meðal annars að skapa þeim mannsæmandi umhverfi, ekki síst í ljósi þess að skert réttindi takmarka lífsgæði þeirra en aukinheldur vegna þess að nú skulu þessir einstaklingar búa við þær óeðlilegu aðstæður að vera bundnir eina og sama staðnum um lengri eða skemmri tíma, dag og nótt. Það liggur því í augum uppi að sérstaklega þurfi að vanda til slíks staðar; staðar sem er rammi utan um allt líf fólks hvort sem því líkar það betur eða verr. Ef þessi staður er þannig gerður að hann sé heldur til tjóns fyrir skapgerð íbúa má jafnframt búast við því að hann, að meðtöldum öðrum umhverfisþáttum, skili þeim verri frá sér en þeir voru áður.


Við sjáum í bandarískum bíómyndum hvernig öryggisfangelsi þar eru; klefar með rimlum á einni hlið, menn í kojum, heragi í útivist og á göngum, ómanneskjuleg mötuneyti og sífellt yfirvofandi ógn um ofbeldi og nauðganir í sturtunum. Ég vona að enginn haldi að þetta sé mannúðlegt eða bæti nokkurn mann, sama fyrir hvaða glæp hann var dæmdur. Vonandi verður slíkt fangelsi aldrei hér.

___
* Þó ég hafi efasemdir um fangelsisvist sem slíka nema þegar um ofbeldisbrot er að ræða, þá hefur orðið um það samkomulag að fyrir suma glæpi eru menn dæmdir í fangelsi. Ég vil auðvitað að sumir þeirra sitji alltaf skilyrðislaust inni: nauðgarar, barnaníðingar og aðrir ofbeldismenn, þó ekki væri nema til að forða fórnarlömbum þeirra frá því að rekast á þá á götum úti. Sjálfir þurfa þeir tíma til að ná áttum, hafi þeir á annað borð áhuga á að breyta um hugsunarhátt og líferni. Sálfræðiþjónustu þarf auðvitað að stórauka í fangelsum, en það er þó ekki aðalmálið hér, heldur bygging fangelsis.

** Það er skiljanlegt að fólk stingi uppá að húsnæði sem áður var nýtt sem vistheimili eða sjúkrastofnun, s.s. Víðines , Arnarholt og Vífilsstaðir, verði notað sem fangelsi, og í sjálfu sér sjálfsagt að yfirvöld skoði alla slíka möguleika, en þau hús voru ekki byggð sem fangelsi — ekki frekar en Kópavogsfangelsið (sem áður hýsti unglingaheimili) eða Skólavörðustígur 9. Það lagar ekki ástandið að bæta við meira af húsnæði sem er óhæft til svo sérhæfðrar starfsemi sem fangelsi er.

*** Það er samt óþarfi af fjölmiðlum að draga upp lýsingar af einhverju „fyrirmyndarfangelsi“ í Noregi og láta sem Breivik fái slíka gistingu; ef svo er þá væri það vegna þess að hann muni aldrei gista neinstaðar annarstaðar um ævina. En að stilla því upp í miðri fangelsisumræðu hér er til að ala á þeirri skoðun að fangar hafi það bara gott í fangelsi, almennt og yfirleitt. Það er fjarri því; flestum þykir eflaust mjög erfitt að vera sviptir öllu sjálfræði og geta ekki hitt nema örfáa þeirra sem þeir þekkja og þá í afmarkaðan tíma í lokuðu herbergi; sjaldan og stutt.

Efnisorð: , , ,