fimmtudagur, júní 30, 2011

Í umdæmi Þvagleggs sýslumanns

Þrátt fyrir að allir fjölmiðlar hafi skýrt frá því að myndbandsupptökur séu til af barnaníðingnum í Vestmannaeyjum þar sem hann sést nauðga átta ára barni, þá heldur Fréttablaðið sig við rótgróna karlahefð og kallar hann „meintan“ barnaníðing. Það er ótrúlegt hve nauðsynlegt það þykir alltaf að halda hlífiskildi yfir kynferðisbrotamönnum.

Þessi heimskulega hefð sem Fréttablaðið hangir í er skaðleg, en þó auðvitað ekki eins skaðleg og sú afstaða Þvagleggs sýslumanns að barnaníðingurinn þurfi ekki að sæta gæsluvarðhaldi því frjáls för hans varði ekki almannahagsmuni. Hagsmunir kvenfólks á barnsaldri þykja auðvitað ekki almannahagsmunir enda eru þær auðvitað ekki almenningur. Það voru þá líklega almannahagsmunir þegar þvagleggnum var þröngvað uppí þvagrás konunnar sem ók drukkin hér um árið í umdæmi sýslumanns, en hennar kynfrelsi og hagsmunir höfðu auðvitað þá ekkert að segja. Kvenfólk á öllum aldri virðist reyndar vera fremur lítils virði í umdæmi sýslumanns.

Í umdæmi þessa sama [sýslumanns*] lögreglustjóra kenndum við Þvaglegg verður svo haldin Þjóðhátíð eftir rúman mánuð. Þá verður sýsli auðvitað enn að störfum (enda á hann hvorki eftir að segja upp sjálfur né verða rekinn þótt öllu venjulegu fólki þyki hann óhæfur til starfa vegna kvenhaturs) og verður fróðlegt að sjá hvernig tekið verður á „meintum“ kynferðisbrotum á Þjóðhátíð — ef þá þjóðhátíð þaggar þau ekki öll niður eins og hvertannað kellínganöldur.

Talandi um Þjóðhátíð, bleikt.is er með „sumarvinkonuleik“ þar sem í vinning eru miðar á Þjóðhátíð. Við hinir feministarnir hefðum nú frekar viljað sniðganga Þjóðhátíð svona vegna ummæla formanns þjóðhátíðarnefndar um Stígamót, en bleikt.is auglýsir hvað sem er, meira segja nauðgarahátíðina.

___

* Viðbót: Það mun vera rangt hjá mér að Þvagleggur sé sýslumaður Vestmannaeyja. Hann er sýslumaður og lögreglustjóri á Selfossi en það er lögregluembætti hans sem fer með rannsókn mála í Eyjum.

Efnisorð: , , ,