fimmtudagur, júní 09, 2011

Fólk sem sér um fólk

Það er ekki öfundsvert að halda úti kerfi menntamála, heilbrigðismála og félagsmála fyrir ríkið eða sveitastjórnir eftir að frjálshyggjutilraun Sjálfstæðisflokksins fór svo eftirminnilega út um þúfur. Það er líka alltaf jafn blóðugt að heyra að það eru alltaf sömu láglaunahóparnir sem halda áfram að vera láglaunahópar meðan þeir sem voru og eru í bankakerfinu geta enn makað krókinn. Bankastjórnir föllnu bankanna, slitastjórnir gömlu bankanna og meira segja nýja stjórn Landsbankans; það má ekki á milli sjá hvar firringin er mest í kaupinu sem menn telja sig eiga skilið, allt á þeim forsendum að þeir séu svo ægilega eftirsóttir starfskraftar í útlöndum og bankastarfsemi geti ekki farið fram nema á afar 'hvetjandi' launum. Þetta viðhorf gilti í 'góðærinu' og það gildir enn í þeirra huga.

Meðan á góðærinu stóð var fólk sem starfaði í menntageiranum, heilbrigðisgeiranum og félagsmálageiranum hinsvegar ekki ofsælt af sínum launum. Jú, kannski læknarnir en annað starfsfólk, mismikið menntað en með gríðarlega mikla ábyrgð á mannslífum á sínum herðum, það var og er enn á skítalaunum. Aftur segi ég: það er ekki öfundsvert að hafa tekið við þrotabúinu eftir Sjálfstæðisflokkinn. Síst er þægilegt fyrir félagshyggjustjórn að horfast í augu við að hafa ekki efni á að geta veitt stéttum láglaunafólks mannsæmandi laun. Ég trúi því þó — verð að trúa því — að verði þessi stjórn enn við lýði þegar fer að birta til, þá verði ráðin bragarbót á þeirri skömm sem er fólgin í því að láta það fólk sem vinnur mikilvægustu störfin sæta verstu kjörunum.

Sú tillaga Ögmundar Jónassonar að lægstu laun verði þriðjungur af hæstu launum væri þá kærkomin (ég setti eitt sinn fram svipaða hugmynd), en gæta verður þess að það verði ekki til þess að allir aðrir launamenn fái einhverjar súrar prósentuhækkanir, eins og tíðkast hefur, þannig að launaskriðið verði upp allan stigann og þær stéttir (kvennastéttir) launafólks sem lægst hafa nú launin sitji eftir með sárt ennið.

Þetta var bara formáli. Lesið þessa hugvegkju leikskólakennarans:

„Ég er leikskólakennari í Kópavogi og ég er með tveggja ára gömul börn á deild.

Í vinnunni minni eru verðandi verkfræðingar, augnlæknar, sjómenn, matráðar, prófessorar, einkaþjálfarar, snyrtifræðingar og svo mætti lengi telja. Í vinnunni minni fá þau umönnun, umhyggju, fræðslu og þann fróðleik sem þau nýta sér svo til að taka þátt í lífinu. Þau eru nú þegar byrjuð að taka þátt í þjóðfélaginu sem yngstu þegnar þess og við leikskólakennarar stöndum vörð um þessi börn, þeirra þátttöku og þeirra rétt.

Ég er sérfræðingur í því að vinna með börn, ég vinn með félagsþroska, félagsfærni, greiningar á þroska og hegðun, hreyfigetu og síðast en ekki síst almenna vellíðan, siðferðisvit og kærleika. Ég er tengiliður við aðra sérfræðinga svo sem sálfræðinga, talmeinafræðinga, þroskaþjálfa og iðjuþjálfa. Ég vinn með helstu sérfræðingum barnanna sem eru foreldrar þeirra og í sameiningu vinnum við með lítinn einstakling sem er að læra á lífið.

Fyrir 8 tíma vinnu fæ ég 190.000 krónur útborgaðar á mánuði. Eftir 3 ár í háskólanámi, 4 ár í vinnu og 29 ára lífaldur. Ég get ekki unnið mér inn yfirvinnu því það er verið að spara. Ég sit alla fundi í vinnutímanum og vinn undirbúninginn minn stundum heima því það er ekki alltaf nægur tími eða aðstæður til að gera allt sem þarf að gera.

Deildarstjórinn minn er orðin fertug og hækkar ekki meira í launum því í okkar kjarasamningum eru engar launahækkanir eftir fertugt. Þar sem hún er deildarstjóri nú þegar er því enginn möguleiki fyrir hana að fá nokkur hlunnindi eða hækka í launum – hún er bara fertug!

Samstarfskona mín sem er leiðbeinandi fær 140.000 krónur útborgaðar fyrir 80% vinnu og öll þau námskeið sem hún getur mögulega tekið. Þar sem hún er einstæð með tvö börn þá borgar það sig ekki fyrir hana að vinna meira því þá fer það allt í skattinn og hún þarf að borga meira í vistun fyrir börnin. Hún er næstum því að borga með sér því það væri hagstæðara fyrir hana að vera á atvinnuleysisbótum og vera heima þegar börnin eru búin í skólanum.

Ég er leikskólakennari og er stolt af því en mikið væri ég til í að vera metin að verðleikum og fá borgað í samræmi við þá vinnu sem ég vinn. Kjarasamningar við leikskólakennara eru lausir og búnir að vera það síðan 2009, kosið verður um verkfall á næstu vikum.“

Efnisorð: