föstudagur, maí 13, 2011

Vatnsberinn verði ekki klifurgrind fyrir fyllibyttur

Mér líst afar illa á þá hugmynd að flytja Vatnsbera Ásmundar Sveinssonar í Austurstrætið. Verkið er auðvitað á furðulegum stað og mætti vera flutt annað, en Austurstræti er vondur staður fyrir listaverk. Fyrir nokkrum áratugum síðan var brjóstmynd af Tómasi Guðmundssyni skáldi sett upp þar en verkið varð fyrir sífelldum árásum um helgar og á endanum brotið niður af stalli sínum og eftir það flutt burt. Það er nú geymt innandyra í aðalsafni Borgarbókasafnsins í Grófarhúsinu, þar sem fyllibyttur komast ekki að því með góðu móti.

Verði Vatnsberinn þar staðsettur þar sem fyllibyttur safnast saman um nætur verður migið utan í hann, stöpullinn verður notaður til að leggja frá sér bjórdósir og glös, og eflaust verður hrækt á hann, krotað á hann og hvað það er nú allt sem fólki dettur í hug að gera í ölæði sínu og dópvímu. Það verður að minnsta kosti ekki betur farið með Vatnsberann en með Tómas Guðmundsson á sínum tíma.

Vatnsberinn er stór höggmynd og ávöl. Nógu há til að fyllibyttum mun þykja gaman að reyna að klífa hana og nógu ávöl til að það verður erfitt að finna fótfestu. Auðveldara verður að renna niður, detta og slasa sig. Fari svo að Vatnsberinn verði settur niður í Austurstræti verður höggmyndin af Vatnsberanum líklega fjarlægð eftir að einhver fyllibyttann hefur dottið á hausinn og örkumlast eftir að hafa reynt að standa á höfði hennar. Kannski dugir það ekki til og beðið verður þar til tveir hafa örkumlast og einn drepist. Þá má vera að einhverjum borgarfulltrúanum blöskri loksins og sjái hve fáránleg hugmynd það var í upphafi að setja þetta ágæta listaverk upp á þessum miðpunkti næturdrykkjunnar.

Mér er svosem sama um fyllibytturnar, en að setja Vatnsberann í Austurstrætið er vanvirðing við höggmyndina, fyrirmyndirnar og Ásmund Sveinsson myndhöggvara.

Efnisorð: