föstudagur, apríl 29, 2011

Stutt og sársaukalítið (þó ekki væri nema miðað við öll hin ósköpin)

Enda þótt ég hafi oft og iðulega kvartað undan beinum útsendingum frá ýmiskonar boltaleikjum þá ætla ég ekki að segja styggðaryrði um útsendinguna* frá brúðkaupi þarnæsta kóngs Bretlands og þeirrar konu sem á að ala af sér þarþarnæsta kóng (eða drottningu). Hinsvegar finnst mér rétt að spyrja sisvona útí loftið** hvort ekki sé ástæða til — svona úrþvíað nægur peningur er til í beinar útsendingar — að sýna opnunartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu?

Þetta verður enginn smá viðburður. Í fyrsta lagi hefur undirbúningur að tónlistarhúsi staðið áratugum saman,*** í öðru lagi fær hin sextíu ára gamla sinfóníuhljómsveit í fyrsta skipti almennilegt húsnæði til að halda tónleika,**** og í þriðja lagi er dagskrá hljómsveitarinnar glæsileg og ekki sakar að hinn rómaði Vladimir Ashkenazy heldur um tónsprotann.

Dagskrá:
Þorkell Sigurbjörnsson: Velkomin Harpa
Edvard Grieg: Píanókonsert — einleikari: Víkingur Heiðar Ólafsson
Ludwig van Beethoven: Sinfónía nr. 9


Burtséð frá því hvort fólk hafi áhuga á dagskránni, stjórnandanum, einleikaranum eða sinfóníuhljómsveitinni yfirleitt, þá er full ástæða til að sjónvarpa þessari athöfn inná hvert heimili, þó ekki væri nema til að sýna okkur skattborgurum og útsvarsgreiðendum hvað við erum að fá fyrir peningana.

Ríkissjónvarpið — sem telur ekki eftir sér að sýna brúðkaup þarnæsta þjóðhöfðingja erlends ríkis heilan dag og boltaleiki dag eftir dag vikum saman — ætti að sjá sóma sinn í að sýna opnunartónleikana. Það tekur fljótt af, þetta er bara ein kvöldstund.

___
* Fólk sem hefur miklar mætur á kóngafólki er eitthvað svo meinlaust og krúttlegt að ég hef ekki brjóst í mér að gagnrýna það.
** Kannski að ég skrifi Páli Magnússsyni líka og böggi hann örlítið, svona úr því að ég er nýlega búin að dást að því framtaki að skrifa fjölmiðlum.
*** Samtök um tónlistarhús voru stofnuð árið 1983.
**** Íslenska óperan verður líka í Hörpu, og er líka í fyrsta sinn að fá almennilegt húsnæði, en hún kemur hinsvegar ekki við sögu á opnunartónleikunum.

Viðbót: Í Fréttablaðinu 30. apríl stendur að sýnt verði frá opnunarhátíðinni í beinni útsendingu á RÚV. Ég hafði heyrt að ekki yrði sýnt frá opnunartónleikunum en ekki af þessari opnunarhátíð, sem haldin er rúmlega viku síðar. Ég vissi ekki um hana. En í stað þess að láta pistilinn hér að ofan hverfa þá skal ég þá bara reyna að vera þakklát fyrir þó það að opnunarhátíðin verði sýnd í Sjónvarpinu, enda þó ég hefði svo mikið frekar viljað sjá opnunartónleikana.
— Eftir stendur þó sú gagnrýni að menningarviðburðir eru afar sjaldan sýndir í beinni útsendingu í Sjónvarpinu.
Viðbót enn síðar: Dagskrárstjóri RÚV segir að Sjónvarpið hafi ekki fengið leyfi til að sjónvarpa beint frá opnunartónleikunum. Tónleikar verða þó endurteknir með sömu dagskrá og verða þeir teknir upp og sýndir í Sjónvarpinu. Gott.

Efnisorð: ,