föstudagur, apríl 15, 2011

Hugsjónir kljúfa ei hægri

Enda þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi hingað til verið málsvari allra atvinnurekenda þá er afstaðan til ESB helsta orsök klofnings flokksins sem varð augljós í Icesave umræðunni. Klofningur Sjálfstæðisflokksins stafar af togstreitu milli ESB-hatandi kvótaeigenda í Landssambandi íslenskra útvegsmanna annarsvegar, sem eru studdir af Mogganum, en þeir óttast að ekki sé hægt að fella gengi þegar það þykir henta og þá ekki síður reglugerðir Evrópusambandsins og svo auðvitað fiskiskip annarra þjóða. Hinsvegar eru innan Sjálfstæðisflokks þeir sem vilja ganga í ESB, aðallega vegna upptöku evrunnar og eru það þeir sem reka verslunar- og þjónustufyrirtæki margskonar.

Bjarni Ben veðjaði á síðari hópinn, kannski vegna þess að útvegsmenn eru illa þokkaðir fyrir allt kvótabraskið, og mælti því fyrir samningaleið Icesave málsins sem myndi þá að öllum líkindum liðka fyrir ESB aðild. En helsti fjölmiðill LÍU með ritstj. í stafni stýrði hatrammri áróðursherferð gegn Icesave samningnum, ESB viðræðum og öllum þeim sem leggja nafn sitt við slíkt og hinir fjölmiðlarnir sem styðja Davíð heilshugar, ÍNN og Útvarp Saga, lögðust á árarnar þá var þeim hluta almennings sem hefur alla sína visku úr þeim miðlum sá kostur vænstur að segja nei við Icesave samningnum, enda búið að telja þeim trú um að annað væri landráð. Einhverstaðar á leiðinni var því líka komið á framfæri að það fólk sem kysi „já“ væri með einhverjum hætti að segja „já við Icesave“ eins og það hefði sérstaklega lagt blessun sína yfir opnun netbankaútibúa Landsbankans í Bretlandi og Hollandi og því Gullna hliði sem Icesave reikningarnir reyndust vera að „money heaven“ þar sem innistæður þarlendra hurfu til feðra sinna.

Nú bíður Bjarna Ben það hlutverk — sem ekki er sérlega líklegt að honum takist þrátt fyrir vantrauststillöguna sem hann bar á ríkisstjórnarflokkanna sem hann fylgdi að málum í aðdraganda kosninganna fyrr í mánuðinum — að reyna að sætta sjónarmið verslunar og þjónustu við sjónarmið kvótaeigenda undir þeim formerkjum að allir eigi þeir þó það sameiginlegt að hata vinstri stjórnir, forræðishyggjuna og skortinn á óheftum markaðsviðskiptum. Líklega þéttast raðirnar fljótlega um það, enda eru þessir aðilar alltaf fyrst og fremst með hagnað í huga og markaðshlutdeild, ja nema þeir sem stjórna bakvið tjöldin, þeir vilja fyrst og fremst bara stjórna því það fer þeim svo vel.

Klofningurinn innan Vinstri grænna er af öðrum toga. Fólk sem aðhyllist sósíalisma, kommúnisma, félagshyggju eða hvað öll þessi afbrigði vinstri flokka og hreyfinga eru kölluð, er fólk með hugsjónir. Hugsjónir sem byggja á ósk eftir samfélagi þar sem ójöfnuður og misskipting gæða eru óþekkt, þar sem hver og einn á sama rétt og sama aðgengi að menntun, heilsugæslu, húsnæði, atvinnu og lífsgæðum. Vinstri græn hafa þaraðauki lagt áherslu á umhverfisvernd og feminisma (feminismi er vitaskuld partur af því að vilja ekki ójöfnuð og misskiptingu gæða) og hefur verið í fararbroddi hvað það fyrrnefnda varðar hér á landi, en Samfylkingin er lítill eftirbátur VG í feminiskum áherslum enda þótt umhverfisvernd hafi fyrir löngu verið afskrifuð, eða strax eftir að loforðið um Fagra Ísland var svikið og enn er mikill vilji innan Samfylkingarinnar til að hotta á stórvirkjanaklárinn. En það er þetta með hugsjónirnar, það er erfitt að bakka með þær eða leggja þær til hliðar til þess að greiða fyrir öðrum málum. Margar vinstri hreyfingar gegnum tíðina hafa einmitt klofnað og splundrast í frumeindir sínar vegna þess að fólk var ófært um málamiðlanir vegna þess að það taldi sig vera að svíkja hugsjónir sínar með því að taka slíkt í mál.

Þessvegna er klofningurinn í VG skiljanlegur að því leytinu að hugsjónirnar skipta flokksmenn miklu máli og þá þingmenn einnig. Þau sem ekki vilja málamiðlanir eru virkilega trú sannfæringu sinni um að þeirra leið sé sú rétta. Á móti kemur að eina leiðin til að vinstri stjórn sé við lýði á Íslandi — stjórn sem boðar félagshyggju en hafnar frjálshyggju — er sú að Vinstri græn og Samfylkingin séu saman í stjórn. Og til þess þarf málamiðlanir. VG gekk að skilyrði Samfylkingarinnar um ESB með því fororði að Vinstri græn myndu kjósa gegn aðild ef þeim svo sýndist, og að því gekk Samfylkingin. Við þessi sem erum ekkert hrifin af ESB (en Stefán Pálsson hefur bent á að langflestir innan VG séu á móti ESB, ég er þó ekki flokksbundin þannig að líklega átti hann ekki við mig; né fer ég í Vesturbæjarlaugina eða held með KR) sættum okkur við þetta því betra er að vita hvað aðild myndi þýða fyrir okkur og leyfa almenningi öllum að kjósa en segja þvert nei bara til að segja nei. Þetta virðist þó hafa plagað suma þingmenn VG óskaplega, og það væri svosem í lagi, ef þeir hefðu ekki farið að láta það hafa áhrif á stuðning sinn við ríkisstjórnina og þá stefnu VG að vera í stjórn með hinni ESB sinnuðu Samfylkingu.

Nú hefur margsinnis komið fram að miðað við þann stóra skítahaug sem blasti við þegar núverandi ríkisstjórn tók við, hefur gengið bærilega að reka búskapinn. Sumt úr haugnum virðist vera hægt að nota í áburð, annað til upphitunar. Af hluta hans leggur ennþá óbærilegan fnyk. Hreinsunarstarf stendur enn yfir. Við hin viljum þó halda áfram skítmokstrinum enda þótt ekki sé alltaf þægilegt að verða fyrir slettunum og viðbjóðsgrettan sé umþaðbil að festast á andlitum okkar. Það þarf miklar hugsjónir og háleitar til að geta látið sér sjást yfir skítahauginn eða halda að betra sé að aðrir sjái um að koma honum í lóg.

En þó mér hugnist ekki klofningur eða sundrung flokksins sem ég kaus þá er hugmyndin um klofna hreyfingu vinstrisinna af hugsjónaástæðum þó geðfelldari, þótt slæm sé, en sameinaður Sjálfstæðisflokkur af hagsmunaástæðum.

Efnisorð: , , , ,