laugardagur, mars 12, 2011

Meira um fjölmiðla, fjármál og dúllubossa

Þegar ég gagnrýndi viðskiptafréttablaðamanninn um daginn þá var það aðallega fyrir orðalag. Í ljós kom að hann og allir hinir fjölmiðlamennirnir sem fjölluðu um ofurlaun bankastjóranna reiknuðu hreinlega vitlaust, en það sást þeim semsagt yfir í æðibunugangnum. Fjölmiðlar hafa þó verið gagnrýndir fyrir að vera of ákafir í að flytja fréttir, helst á undan hinum (skúbba), í stað þess að kryfja málin til mergjar og flytja vandaðar fréttir en ekki bara snöggsoðnar upphrópanir.*

Ekki það, ég var reið yfir ofurlaunum bankastjóranna og vildi auðvitað að fjölmiðlar fjölluðu um þau, og þó mér finnist 5 milljónir á mánuði auðvitað enn verra en 2,9 sem bankastjóri Arion banka fær,** þá er það svosem ekki eins og lægri talan sé samt ekki margföld lágmarkslaun og atvinnuleysisbætur í landinu, þ.e.a.s það sem öðru fólki er ætlað að lifa af. Í öllu falli eru svona há laun útúr öllu korti, bæði vegna ástandsins í landinu en ekki síður vegna þess að þau benda sterklega til þess að hugsunarhátturinn hafi ekki breyst hjá þeim sem sýsla með peninga annarra. Ég held að Egill Helgason hafi algerlega hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að innan bankanna væri verið að setja í gang þá áætlun að allir stjórnendur og bankaráðsmenn komist á ofurlaun:
„Það er verið að gíra kerfið upp aftur.
Laun bankastjóranna eru keyrð upp um tugi prósenta. Það er ekki af því þeir séu svo klárir, nei, ástæðan er stéttarhagsmunir.
Um leið og bankastjórarnir hækka í launum geta aðrir farið að gera tilkall til svipaðra launa, þetta virkar eins og greiði á móti greiða, bankaráðsmennirnir og stjórnendurnir sem eru aðeins lægra settir en eru á leiðinni upp.“

Svo er séð til þess að hagnaðurinn af bönkunum sé nógu mikill*** því greinilega á að koma upp bónuskerfi sem þeir háttsettustu geti grætt á, alveg eins og fyrir hrun.

En það eru viðbrögð nokkurra ráðherra og þingmanna stjórnaflokkanna sem björguðu Höskuldi bankastjóra og bönkunum frá öllu meiri umfjöllun fjölmiðla því þau sögðu að réttast væri að setja á ofurlaunaskatt**** og Steingrímur sagði að ríkisstjórnin muni grípa inn í ef nýju bankarnir innleiða bónuskerfi og aukasporslur, þá köstuðu fjölmiðlar sér á þá frétt.

Sumir þeirra, eða a.m.k. einstaka fjölmiðlamenn gátu ekki hamið hneykslun sína***** og m.a. var lögð fram sú spurning í skoðanakönnun á Vísi.is hvort „refsa“ ætti fyrir há laun. Það var merkilegt orðalag. Í fyrsta lagi vegna þess að verið er að tala um ofurlaun, í öðru lagi vegna þessarar áherslu á skatta sem refsingu og í þriðja lagi vegna þess að þeir sem setja fram þessa spurningu eru fjölmiðlamenn sem starfa hjá Ingibjörgu og Jóni Ásgeiri. Einhvern þátt eiga þau nú, eða a.m.k. hann, í því hvernig þjóðin fór á kúpuna og eitthvað hafði það með fégræðgi hans að gera.

En Höskuldur bankastjóri, sem bent hefur verið á að hefur ítrekað verið háttsettur í fyrirtækjum sem staðin eru að ólöglegu samráði, er greinilega ekki einn þeirra sem lætur smámuni eins og almenningsálit eða ástandið í landinu á sig fá. Hann svaraði því einu til að honum hefði verið boðin þessi laun. Nú er stutt síðan Öðlingsátakinu lauk (sem ég var misjafnlega hrifin af) en þar stakk einn Öðlingurinn uppá því að karlar afþökkuðu launahækkanir ef þeir kæmust að því að konur á vinnustaðnum væru með lægri laun. Það stæðu nú ekki öll spjót á Höskuldi ef hann hefði farið að þeim ráðum og afþakkað laun sem eru umfram laun konunnar sem er í ábyrgðarmesta starfinu. En nú á hann betur skilið titil sem ritstjóri Fréttablaðsins notaði einmitt þegar hann fjallaði (af mikilli hrifningu) um Öðlingsátakið. Hann er þessi: Eiginhagsmunaseggurinn 2011.

___

* Ef ekki hefði legið svona mikið á hefði leiðari ritstjóra Fréttablaðsins á þriðjudag getað fjallað um alþjóðlegan baráttudag kvenna, en svoleiðis smotterí mátti greinilega bíða. Reyndar var það eingöngu Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sem (starfs síns vegna) skrifaði grein í blaðið þann dag um baráttudag kvenna.

** Höskuldur fékk reyndar 10 milljónir bara fyrir að sækja stimpilkortið sitt.

*** Hagnaður Arion banka á síðasta ári nam tæpum 13 milljörðum og hagnaður Íslandsbanka var um 30 milljarðar króna.

****Ríkisforstjórar virðast líka haldnir sömu hugmyndum um eigið ágæti og réttmæti launa sinna og bankamenn því þeir hafa ýmist látið hjá líða eða hreinlega neitað að lækka laun sín niður í sömu laun og forsætisráðherra. Ríkið á 13% í Arion banka og því ættu launin þar ekki að vera hærri en hjá Jóhönnu. Kannski hefði átt að miða við laun Steingríms, þeim hefði kannski þótt það minna sárt en vera á kvenmannskaupi?
Reyndar ættu forstjórar einkafyrirtækja að sjá sóma sinn í að raka ekki til sín fé, jafnvel þó þeir séu ekki að starfa fyrir ríkið, því eins og við öll erum farin að fatta þá bitnar tap og gjaldþrot fyrirtækja á skattborgurum með einum eða öðrum hætti. Og þó það séu fyrirtæki eins og Össur sem virðist mjög stabílt, þá hefur það fyrirtæki einmitt notið mikillar virðingar og velvildar, og ætti því síst að taka þátt í þessu launakapphlaupi kallanna. En það er auðvitað fáránlegt að halda að kallar sem seilast til valda hafi hagsmuni heildarinnar í huga. Fáránlegt.

***** Kúlulánaþeginn og fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins gvuðar sig líka yfir þessum skattahugmyndum og talar um kommúnisma, svona eins og hennar mat á hve mikið fjármagn ofurlaunamenn hafa á milli handanna komi einhverjum við.

Efnisorð: , , , ,