þriðjudagur, mars 08, 2011

8. mars

Ég las pistil í erlendu blaði um helgina og var hann skrifaður í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sem er einmitt í dag. Konan sem skrifaði pistilinn nefndi fimm atriði sem hún hafði orðið vitni að á einni viku og nefndi þau sem dæmi umað feminisminn ætti enn nokkuð í land með að hafa náð fullnaðarsigri. Dæmin sem hún nefndi var áreiti á konur á götum úti, þ.e.a.s. þegar byggingaverkamenn æpa á konur sem eiga leið hjá, Silvio Berlusconi, svokallaða vini sína sem sendu henni tölvupósta með kláminnihaldi, niðurlægjandi athugasemd sjónvarpsþáttagerðarmanns um fræga konu, og mann sem kleip sífellt fastar í kinn konu sinnar því hún virtist ekki nógu kát.

Ég hefði kannski ekkert sérstaklega kippt mér upp við þennan pistil. Fyrir utan þetta með að gerð væru hróp að konum á götum úti, sem ég veit ekki til að sé vandamál hér á klakanum, þá kannaðist ég við margt af því sem hún nefndi (og fannst mjög snjallt hjá henni að nefna Berlusconi). En þegar ég las athugasemdahalann við greinina — en lesendur gátu semsagt lagt orð í belg — þá fyrst vaknaði áhugi minn. Karlarnir sögðu, undantekningalítið, að pistlahöfundurinn væri alveg úti á túni og þetta kæmi engri jafnréttisbaráttu við. Henni væri nær að skrifa um heiðursmorð á Indlandi, aðstæður kvenna í Afghanistan eða umskurð í Afríku. Það væru alvöru vandamál sem konur stæðu frammi fyrir og þetta píp í henni væri aumkunarvert. Í sjálfu sér er það rétt, að dæmin sem pistlahöfundur nefndi, blikna við hliðina á því sem konur víða um heim þurfa að þola fyrir þær sakir einar að vera konur. En það sem var líka athyglisvert við þetta var að þessir karlmenn fylgdu uppskrift sem ég hef áður skrifað um og er þekkt meðal feminista sem leyfa sér að skrifa á netið um baráttu kvenna fyrir jafnrétti.

Þegar feministi talar um kvenréttindi eða jafnrétti eða feminisma (hvaða orð sem fólk vill nota í hvert og eitt skipti) þá karlmaður leggur orð í belg þá er það ávallt til að segja þeim að þær séu á villugötum í málflutningi sínum. Til dæmis eigi þær frekar að tala um kúgun kvenna í Írak, Afganistan, Kína, Afríkuríkjum sunnan Sahara, láglaunastörfum … Alveg það sama og karlmennirnir sem skrifuðu á athugasemdahalann við greinina í Guardian gerðu. Þetta á þó bara við um karlmenn sem ekki beinlínis lýsa því yfir að þeir þoli ekki tilhugsunina um jafnrétti. Þeir sem þetta segja telja sjálfa sig vera, og vilja láta líta út fyrir, að þeir séu upplýstir og eiginlega bara mjög jafnréttissinnaðir — en þó ekki svo mjög að þeir geti tekið undir allt þetta rugl sem feministar bera á borð.

Til þess að forðast að nefna bara einhver lítilvæg dæmi eingöngu og svo ég gleymi nú ekki því að víða um heim eiga konur undir högg að sækja vegna kynferðis síns, þá hef ég búið til lista sem nær vonandi að fjalla um margt af því sem konur eiga við að stríða, smátt og stórt. Þar sem ég er bara feministi þá er þetta ekki fullkominn listi og miðast auðvitað við mitt forréttindasjónarhorn sem Íslendings þar að auki, en ég get þá bætt inná hann ef einhver karlmaðurinn bendir mér á hvar ég hef farið villur vega.

FJÖLSKYLDUÁBYRGÐ (ÓLAUNUÐ VINNA)
Konur eiga að ala upp börnin (í guðsótta og góðum siðum) af brjóstvitinu einu því það er þeim eðlislegt að fæða börn og vita hvernig á að koma þeim til þroska. Til þess eiga þær að fórna öllu með bros á vör. Þær eiga jafnframt að sjá um aldraða og sjúka ættingja, hvort sem þær vinna úti eða ekki þá er það alltaf þeirra að sjá um heimsóknir og að tala við lækna og hjúkrunarfólk, sækja um vistun á stofnunum og skutla ættingjum sem og eigin börnum hvert sem þau þurfa að fara hverju sinni. Þær eiga líka að muna eftir öllum afmælum og stórviðburðum og kaupa gjafir eða halda veislur og sjá um allan undibúninginn — og alltaf með bros á vör og kvarta aldrei.

Á VINNUMARKAÐI
Konur eru svo vanar að stjana undir aðra möglunarlaust að þær eru upplagðar í að vinna í þjónustustörfum svo sem eins og í verslunum og á símaskiptiborðum. Þær eru með svo nettar hendur og fima fingur að þær eru eins og skapaðar til að vinna á færiböndum í fiskvinnslu, á saumastofum eða við aðra nákvæmnisvinnu, óþarft að borga þeim vel eða neitt eftir aðstæðum og því landi sem þær þræla í. Þær eru svo þrifnar og snyrtilegar af náttúrunnar hendi að þeim fer vel að skúra skrúbba og bóna fyrir sér ríkara fólk og svo í fyrirtækjum - og eru reknar þaðan fyrstar allra. Konur fá lægri laun vegna þess að þær eru alltaf að skreppa úr vinnunni til að sinna fjölskyldunni eða hreinlega mæta ekki mánuðum saman vegna þess að þær eru alltaf að eignast börn. Af sömu ástæðu tekur því ekki að ráða þær í störf með ábyrgð nema einstaka konur en passa verður að þær séu þá ekki of margar. Þær fá ekki að vera með í karlamenningunni því þær skilja ekki húmorinn en stundum er þó í lagi að leyfa þeim að heyra hve karlarnir eru fyndnir bara til að sanna að konur eru fýlugjarnar í meira lagi og taka allt svo nærri sér. Svo eru þær lélegir stjórnendur og lélegir yfirmenn og bara lélegir starfkraftar. Í atvinnuleysi er hugað að því að skapa störf fyrir karla („mannaflsfrekar framkvæmdir“, þ.e.a.s. vegagerð og smíði virkjana) en konum sagt upp því þær mega hvorteðer missa sín.

MENNTUN
Eftir því sem konur mennta sig meira skiptir menntun minna máli. Þegar konur höfðu flestar bara grunnskólamenntun þurfti stúdentspróf til að fá almennilega vinnu. Nú þurfa þær lágmark masterspróf til að eiga séns í starf sem minna menntaðir karlmenn sinna í hrönnum. Konur þurfa að vera með háskólapróf í tölvunarfræðum en karlar bara vera sniðugir til að fá vinnu hjá forritunarfyrirtækjum. Konur sækja í nám þar sem karlar hafa verið í meirihluta en karlar sækja ekki í nám sem merkt er 'kvennastarf' s.s. hjúkrunarfræði eða leikskólakennaranám. Víða í heiminum fá konur litla sem enga menntun, fá ekki að ganga í skóla, eru ekki læsar því það þykir tilgangslaust, þær séu bara til að ala börn. Séu þær menntaðar fá þær ekki vinnu því ætlast er til að konur sinni fjölskyldu og óhugsandi er að þær ráði við neitt annað. Þar sem ástandið er verst mega þær hvorki starfa sem læknar né mega kvensjúklingar fara til læknis sem er ekki er kona og fá þá konur enga læknisaðstoð.

Á HEIMILINU
Heimilið er á verksviði konunnar en karlinn „hjálpar til“ og þá er konan yfirleitt verkstjórinn því karlar vinna ekki heimilisstörf af sjálfsdáðum. Konan sér því um allt það sem þarf að gera daglega alla daga allan ársins hring: sækja vatn í brunninn ef þannig háttar til, tiltektir, þrif og þvotta, innkaup og eldamennsku, frágang í eldhúsi og þar fram eftir götunum, burtséð frá því hve langan vinnudag hún vinnur úti í bæ eða hversu mikið hún þarf að sinna börnum og búaliði. Í sumarfríum flyst þetta hlutverk hennar með henni í hjólhýsið, tjaldið, hótelíbúðina eða sumarbústaðinn.

OFBELDI
Konur eru nánast alltaf beittar ofbeldi af hálfu karla. Konur eru nánast alltaf beittar ofbeldi af hálfu karla sem þær þekkja. Í sumum löndum og trúarbrögðum er það ekki refsivert eða talið siðferðilega ámælisvert að beita konur ofbeldi. Í sumum löndum eru konar grýttar til dauða eða hýddar fyrir „hórdómsbrot“, þ.e. ef þær eru álitnar hafa haldið framhjá eða stundað kynlíf utan hjónabands. Sýru er hent í andlit kvenna vilji þær ekki þýðast karl sem girnist þær. Aðrar eru skotnar, kyrktar eða barðar til bana fyrir engar sakir aðrar en að vera konur.

KYNFERÐISLEGT OFBELDI
Konur verða fyrir káfi utan klæða sem innan. Konum er nauðgað. Konum er hótað nauðgun. Konur verða fyrir sifjaspellum, þ.e.a.s. ættingi þeirra (bróðir, frændi, faðir, afi) eða sá sem sér um uppeldi (stjúpi) notar þær með ýmsum hætti til að fá kynferðislega útrás. Konum er nauðgað á útihátíðum, á skemmtistöðum, í bílum, á götum úti, í partýjum, í kirkjugörðum, á stofnunum, á sambýlum, í heimahúsum, úti í skógi, heima hjá sér (konum er nauðgað hvar sem tækifæri gefst til og því er þessi upptalning ekki tæmandi). Konum er nauðgað af eiginmönnum þeirra, stjúpum, feðrum, bræðrum, frændum, eiginmanni vinkonu þeirra eða systur, frænda vinar síns, kennurum, læknum, leigubílstjórum, eiginmanni sínum, vinum eiginmannsins, fyrrverandi kærasta, ókunnugum mönnum á förnum vegi, vinum til margra ára, hermönnum, fangavörðum, dópsalanum sínum, löggunni, nágrönnum, stráknum sem þær eru skotnar í (þessi upptalning er ekki tæmandi því ekki hefur fundist sú starfstétt karla þar sem ekki er nauðgara að finna, né virðist vera til þau tengsl milli konu og karls — skyldleiki eða kunningsskapur — sem hindra karla í að nauðga ef þeim sýnist).

KYNFERÐISLEGT ÁREITI
Konur verða fyrir áreiti karlmanna sem ýmist gera athugasemdir við útlit þeirra, segja þeim hvort og þá hvernig þær séu kynþokkafullar eða stinga uppá kynlífsathöfnum með þeim. Konur verða fyrir áreiti karla sem káfa á þeim, strjúkast viljandi utan í þær, klípa þær, kreista eða króa af í mannþröng eða upp við vegg til að gera eitthvað af framantöldu eða einfaldlega til að láta konuna vita að hann geti gert eitthvað af framantöldu í krafti líkamsburða sinna. Konur verða fyrir kynferðislegu áreiti á vinnustöðum, í skólanum, í strætó, í lestum, í verslunum, á skemmtistöðum og á götum úti. Í stuttu máli: allstaðar.

LÍKAMI KVENNA
— Konur eru álitnar útungunarvélar sem eiga að ala eiginmanni sínum börn og þá helst syni, í mörgum löndum sæta konur illri meðferð eða eru reknar út á guð og gaddinn eignist þær ekki syni í hjónabandinu. Með nýjustu tækni og vísindi er nú ætlast til að konur framleiði egg fyrir aðrar konur eða gangi jafnvel með börn sem þær fá ekki að vera með á brjósti eða ala upp heldur afhenda strax eftir fæðingu, ýmist tilneyddar, gegn greiðslu eða vegna þess að þær vorkenna barnlausum hjónum.

— Konur eru álitnar spilliefni. Með því einu að í bert hold þeirra sjáist, eða jafnvel hárið, þá spilla þær annars heilbrigðu hugarfari karla og því þarf að hylja sem mest af hörundinu og hárinu. Þær konur sem ganga léttklæddari eru greinilega með því að falbjóða líkama sinn og eiga því allt illt skilið.

— Konur eru kynferðislega óseðjandi. Það þar að stoppa með öllum ráðum, t.d. með því að meina konum um að finna til nautnar í kynlífi. Strangar siðareglur um hvað má og ekki má: sjálfsfróun auðvitað bönnuð, ekkert kynlíf fyrir hjónaband og stelpur látnar sverja skírlífsheit. Svæsnari útgáfan er sú að skera hluta ytri kynfæranna eða bæði snípinn og barmana. Þá er nokkuð öruggt að konur séu ekki mikið fyrir kynlíf eftir það.

— Konur eru álitnar kynlífsmaskínur sem hægt er að setja í gang hvenær sem er og nota hvernig sem er, ekki álitnar hafa eigin vilja eða langanir eða rétt til að segja nei eða þykja ákveðnar kynlífsathafnir óþægilegar eða óæskilegar, eiga að þjóna körlum og öllum þeirra dyntum, eiga að kunna öll trixin í bólinu og vera grannar en ekki horaðar með stór brjóst en ekki lafandi (má gjarnan vera bólstrað með silikoni sem var grætt í með skurðaðgerð) hárlausar nema á hausnum þar sem á að vera sítt (litað) hár og löng þykk augnhár mega ekki fara á þessar ógeðslegu blæðingar of oft því það truflar kynlífið og veldur karlmönnum viðbjóði. Hinn kynferðislegi líkami kvenna gengur kaupum og sölum, með eða án samþykkis konunnar sem í hlut á — og er sýndur í gluggum, í klámmyndum, á ljósmyndum, uppi á sviði, í einkadansi, í aflokuðum herbergjum þar sem karlmaðurinn sem hefur keypt sér aðgang að honum getur gert það sem hann lystir, hvort sem það hefur líkamlegan sársauka, niðurlægingu eða lífshættu í för með sér fyrir konuna. Þessi kynferðislegi líkami er seldur, hæddur, og svívirtur af þeim sem kaupa og skoða og þá sjaldan sem einhverjum dettur í hug að í honum búi persóna þá er henni eignuð öll ljótustu orð og níð sem hugsast getur. Hinn kynferðislegi líkami er ekki talin eign konunnar, heldur eign karla almennt. Þeir fundu upp hugtakið „njóta og nýta“.

Enda þótt einstaka atriði, sem eru talin hér upp að ofan, veki eflaust strax upp þá hugmynd að þau eigi við um Afganistan eða Indland eða ótilgreind Afríkuríki, og það megi til sanns vegar færa að konur þar eigi sérstaklega við þessi vandamál að stríða, þýðir það ekki að þær séu lausar við öll hin vandamálin sem konur á Vesturlöndum eða hér á Íslandi berjast gegn. Konur í „vanþróuðum“ löndum fá líka lægri laun en karlar og sæta líka kynferðisofbeldi, áreitni og svo framvegis. Kúgun kvenna á sér stað um allan heim.

Efnisorð: , , , , ,