miðvikudagur, febrúar 23, 2011

Sjáið hvað ég er góð!

Í litlum bæklingi sem ég las stendur þetta: „Í dag ætla ég að gera einhverjum gott án þess að nokkur viti; ef einhver kemst að því telst það ekki með.“

Góðverk eru jákvæð en þau ættu ekki að vera til þess eins að geta stært sig af þeim og stækka þannig í augum annarra.
Heilsíðuauglýsing frá skátunum vakti athygli mína á framtakinu Góðverkadagar 2011* en þar var einmitt verið að hvetja fólk til að gera góðverk. Markmiðið með verkefninu „Góðverk dagsins“ er að hvetja landsmenn til athafna og umhugsunar um að láta gott af sér leiða, sýna náungakærleik, vináttu, hjálpa öðrum og gera góðverk.
Og þetta er auðvitað bara jákvætt og jafnvel hægt að segja: Þótt fyrr hefði verið. Gallinn er bara sá að jafnframt er fólk hvatt il að skrá góðverk dagsins inn á heimasíðu átaksins og „láta þannig alla vita“ um hjálpsemi sína. Jafnframt eru vinnustaðir hvattir til að skrá sig til þátttöku og langur listi fyrirtækja sem tóku þátt í góðverkadögum í fyrra (sem fóru alveg fram hjá mér) er birtur á heimasíðunni auk þeirra sem nú hafa tilkynnt þátttöku. Slíkt hefur auðvitað heilmikið auglýsingagildi fyrir fyrirtækin — og mér sýnist starfsmenn þeirra vera duglegir að senda inn fregnir af góðverkum sínum í vinnunni og hve kúnnarnir hrósi þeim fyrir góða þjónustu. Slíkt er auðvitað liður í ímyndarsköpun fyrirtækja.

Til að toppa þetta allt saman eru samstarfsaðilar skátanna á þessum góðverkadögum Stöð 2, Bylgjan, Vísir og Fréttablaðið.* Hverjir eru aftur eigendur þessara fjölmiðla? Jú, Jón Ásgeir og Ingibjörg, þau hin sömu og eru hlutar af sjömenningaklíkunni, sem rændi Glitni innan frá — fyrsta bankann sem hrundi —  semsagt Jón Ásgeir er einn af stórum gerendum í því fjármálamisferli sem ég nenni ekki einu sinni að rekja alltsaman en sem átti stóran þátt í efnahagshruninu, þessu sem orsakaði kreppuna, muniði? Sért er nú hvert góðverkið!

Og nú eru þessir fjölmiðlar Jóns Ásgeirs semsagt mjög uppteknir af góðverkum. Eins og ekkert hafi í skorist.

En svo ég komi mér að efninu, þá finnst mér varhugavert að ýta undir þá hegðun að fólk geri aldrei neitt nema til að upphefja sjálft sig, hvað þá á almannavettvangi, í stað þess að líta svo á að góðverk hafi gildi í sjálfum sér. Ég skrifaði einhverntímann pistil um styrktarforeldra, þ.e.a.s. þegar fólk styrkir börn í útlöndum, því ég vil meina að margir geri það nánast eingöngu til að geta hreykt sér af góðmennsku sinni (og til að fá þakklæti barnanna í kaupbæti). Mér fannst þá og finnst enn að ekki eigi að ýta undir svona hegðun, enda þótt ég skilji vel þá viðleitni hjálparstofnana að hvetja fólk til að styrkja fátæk og munaðarlaus börn og nú hvatningu skátanna að fólk bæti hegðun sína gagnvart náunganum. Það ætti þó líka að hvetja fólk til að berja sér ekki á brjóst fyrir smáviðvik við náungann (eða fyrir að gauka einhverjum aurum að börnum í útlöndum) heldur benda því einnig á að sjálfumgleði dragi mjög úr vægi góðverksins.

Sumt fólk sem segir frá góðverkum sínum á síðu skátanna skrifar án þess að birta nafn sitt. Það er þó skömminni skárra.

___
* Jú, Reykjavíkurborg er líka samstarfsaðili og Skýrr (hver á það?) en það skiptir minna máli hér.

Efnisorð: ,