fimmtudagur, febrúar 17, 2011

Týndu stelpurnar, karlmennirnir sem níðast á þeim og fjölmiðlarnir sem selja söguna

Ég hef nokkrum sinnum keypt DV eftir að það komst í hendur nýrra eigenda, en aðallega skoðað það á netinu.* Án þess að ég hafi verið reglulegur lesandi, hef meira svona fylgst með úr fjarlægð, þá sýnist mér blaðið vera mjög svipað og það var áður, þ.e. þegar það var gagnrýnt fyrir að velta sér uppúr persónulegum harmleikjum milli þess sem það kom með skúbb um hin og þessi mál í þjóðlífinu, stundum um eitthvað sem skiptir máli og er þakkarvert.

Mál sem DV hefur verið að fjalla um undanfarið og sem margir gætu haldið að flokkaðist undir persónulegu harmleikina en er í rauninni afhjúpun á alvarlegri samfélagslegri meinsemd, er þetta með stelpurnar sem lýst er eftir í fjölmiðlum, yfirleitt eftir að hafa strokið af meðferðarstofnunum, og finnast svo hjá karlmönnum sem hafa dundað sér við að gefa þeim vímuefni og misnota þær kynferðislega.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, ritstjóri Smugunnar, skrifar um þetta í dag, og setur málið í mikilvægt samhengi:
„Það birtast stundum af þeim myndir í blöðum, Lögreglan lýsir eftir þeim og lætur fylgja staðlaðar lýsingar á klæðnaði og útliti og hvenær nánustu aðstandendur sáu þær síðast. Stundum koma slíkar tilkynningar oft í viku. Einn unglingur líkist öðrum, kinnfiskasoginn, með aflitað hár, húfu eða hring í nefinu, sást síðast mörgum dögum, jafnvel vikum áður en tilkynningin birtist. Þær renna saman í eitt þessar tilkynnningar, maður hættir að taka eftir þeim. Þetta eru íslensku götubörnin, sem ferðast um milli götunnar og áfangastaða inni í kerfinu, loksins, ef einhverja hjálp er að fá er það oft of lítið og of seint.

En hvar eru þessi börn þegar þau stinga af? Hvar halda þau til?

Stelpurnar halda til hjá körlum sem lifa með þeim kynlífi. Stundum er um að ræða undirmálsmenn úr heimi fíkniefnanna, þá sem selja efnin, rukka fíkniefnaskuldirnar, þeir slá um sig með peningum og slá sér upp með smástelpum þar sem aflsmunurinn er svo mikill, að jafnvel örlitlir karlar virka stórir. Stundum er um að ræða það sem við köllum ,,venjulega,“ fjölskyldufeður eins og í nýlegu dómsmáli þar sem hálffertugur maður á Selfossi var dæmdur fyrir að misnota og misbjóða barnungri stúlku sem hann hafði tælt til að strjúka af meðferðarheimili.

DV hefur að undanförnu fjallað um týndu stelpurnar og gert það vel.

,,Þær vilja þetta sjálfar,“ segja ofbeldismennirnir og verja þannig hendur sínar eftir að hafa níðst á veikum og ógæfusömum börnum. Og ofbeldið bergmálar innan úr kerfinu, þannig segir yfirmaður kynferðisbrotadeildar um kynferðisbrot í viðtali: ,, Oftar en ekki eru þessi mál tengd mikilli áfengisnotkun og ekki á ábyrgð neins nema viðkomandi sem er útsettur fyrir því að lenda í einhverjum vandræðum. Það er erfitt hvað það er algengt að fólk bendir alltaf á einhverja aðra og reynir að koma ábyrgðina yfir á þá.“

Og ríkissaksóknarinn segir: ,,Ef þú frýst verður gerandinn samt að vita að þú stirðnar vegna þess að þú vilt þetta ekki. Einhvern veginn verður hann samt að vita að hann er að brjóta á annarri manneskju.“

Og hæstaréttardómarinn kvartar yfir því að sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum fari minnkandi þótt aðeins örlítið brot kærumála endi með dómi.

Og Jón Stóri, á sautján ára kærustu sem var í meðferð á Stuðlum. ,,Ég talaði við lögfræðinginn minn, hann segir, ekkert að þessu og ekki hægt að gera skít eins lengi og hún vill þetta,“ segir hann.

Samhliða þessu sér maður svo viðtöl við mæður stelpnanna sem lýst er eftir öðru hvoru í blöðunum. Þar glittir í vonleysi, örvæntingu, sjálfsásakanir, eyðilagt heimilislíf, svefnlausar nætur. Margar þeirra segja að það sé verra en að missa barnið sitt í dauðann, að horfa á það deyja sjálfu sér og öðrum, smám saman, ráfandi um eins og afturgöngu, uppdópað, misnotað og smáð.

Sorg þeirra er enn eitt sjúkdómseinkenni samfélags sem neitar að taka ábyrgð á þeim sem eru veikir og þurfa hjálp, en stendur glaðlega vörð um frelsi þeirra sem vilja notfæra sér veikleikana til að svala sínum lægstu hvötum.“

Það er einmitt þessi punktur hjá Þóru Kristínu sem mér finnst mikilvægur (auk þess sem það er vel til fundið hjá henni að skoða ummæli löggunnar, ríkissaksóknara og hæstaréttardómarans í þessu samhengi). Semsagt sá, að það virðist sem þessir karlmenn komist endalaust upp með þetta. Stelpugreyin þora ýmist ekki eða vilja ekki kæra (sérstaklega ekki þær sem telja sig vera ástfangnar af þessum mönnum og sjá í þeim verndara en ekki níðinga) og þá er bara ekkert gert. Það er í mesta lagi hægt að sækja þær til þeirra. Það er ekkert verið að þvælast með forvirkar rannsóknarheimildir; þ.e. fylgjast með mönnum sem vitað er að stundi að sigta út ungar stelpur með þessum hætti** og grípa í taumana um leið og stelpurnar stíga innfyrir þröskuldinn hjá þeim eða setja annan fótinn uppí bíl til þeirra. Nei, það er beðið eftir að fá öruggar heimildir fyrir að þessi og þessi stelpa sé búin að vera dögum saman í klónum á kvikindinu áður en hún er sótt. Og þá er allt um seinan.

Ég hef ekki lausn á því hvað á að gera fyrir þessar stelpur sem nú þegar hafa lent í þessum aðstæðum eða þær sem eru eða eiga eftir að verða sendar í einhverskonar meðferð gegn vilja sínum þar sem líklegt má telja að þær reyni að strjúka. Nema það eigi að taka upp vistheimili fyrir afvegaleiddar stúlkur, eins og þekktust hér áður fyrr þegar Breiðavík þótti góður staður fyrir unga stráka.

Nær væri að einbeita sér að karlmönnunum sem níðast á stelpunum og stuðningsnetinu kringum þá og hvatningunni sem þeir fá. Fjölmiðlar, og þá ekki síst DV, eru nefnilega fullir af „kynþokkafullum“ myndum af ungum stelpum og sífellt verið að segja fólki að allar stelpur vilji vera til sýnis, séu til sölu og alltaf til í tuskið. Þá er ég ekki einusinni farin að tala um klámviðbjóðinn sem flæðir um netið og aldrei virðist vera neinn vilji til að stoppa (karlmenn eru ákærðir fyrir að hafa barnaklám í fórum sínum en ekki ef klámið snýst um konur yfir 18 ára). Þessi endalausa klámdýrkun einstaklinga og fjölmiðla, og karlmennirnir sem lifa og hrærast í henni, er sannarlega ekki til að bæta stöðu þeirra stelpna sem eru grunlausar um hugsunarhátt karlmannanna sem þær leita skjóls hjá.***

Þessir karlmenn sem sumir eru, eins og Þóra Kristín bendir á, úr ýmsum lögum samfélagsins, eiga vini sem vita um þessar stelpur og hvað er gert við þær. Þeir ýmist segja ekkert eða hvetja þá áfram — og sumir þeirra eru duglegir við að skrifa athugasemdir við greinaflokkinn hjá DV þar sem þeir kenna stelpunum um hvernig komið er fyrir þeim (með misjafnlega geðslegu orðbragði) og bera blak af karlmönnunum sem nota þær á þennan hátt.

Það er reyndar afar ljótur siður hjá DV að hafa athugasemdakerfið opið þegar fjallað er um svona viðkvæm mál, því athugasemdirnar verða oft verulega viðbjóðslegar. Það að eitt viðtal úr blaðinu er bútað niður í marga búta á vefsíðunni virðist jafnvel vera gert eingöngu til að fá sem flestar athugasemdir, því það flokkast jú allt undir aukna umferð og þ.a.l. meiri auglýsingatekjur.

Fyrir nokkru var fjallað um konu sem hafði verið nauðgað af eiginmanni sínum og þurfti í kjölfarið að flýja heimabæ sinn. Henni bárust hótanir frá fjölskyldu mannsins í kjölfarið — og samt hafði DV opið fyrir athugasemdir við umfjöllunina, þar sem svo svívirðingarnar gengu yfir konuna. Í frétt sem birtist á DV um það allt saman segir þetta:
„Í kjölfarið reis fólk upp og lét fjölda ærumeiðandi athugasemda falla um konuna, sem var sögð siðblind, geðveik og annað þaðan af verra. Því var ítrekað haldið fram að nauðgunarkæran hefði verið bragð konunnar í forræðisdeilu þeirra. Allir sem tóku þátt í rógburðinum komu fram undir nafni og mynd en enginn greindi frá tengslum sínum við gerandann. Við nánari eftirgrennslan kom á daginn að fjölmargir tengdust gerandanum fjölskyldu- eða vinaböndum. Aðrir voru frá hans heimaslóðum en ekki er vitað hvort allir sem tjáði sig tengdust honum með einum eða öðrum hætti. Sumir settu fram athugasemd oftar en einu sinni og mörg ummælin eru þess eðlis að þau eru ekki prenthæf. Öllum athugasemdum hefur verið eytt út af netinu.“
En þó DV hafi eytt öllum athugasemdum við þetta tiltekna mál, þá er áfram að hafa opið fyrir athugasemdir í svipuðum málum, og sannarlega eru mál týndu stelpnanna svipuð enda snúast þau um kynferðislega misnotkun og stundum nauðgun. Þetta er eitt af því sem gerir það að verkum að það er aldrei hægt að líta á DV sem annað en sorasnepil.

___
* Það hefur alltaf hist þannig á að ætli ég að lesa ákveðna grein í blaðinu, sem hefur verið auglýst upp á vefsíðu DV, þá hef ég ekki hitt á rétta dagsetningu og því yfirleitt lent í að kaupa blaðið áður en greinin birtist. Mér er fyrirmunað að skilja ástæðuna en hef látið mér það að kenningu verða og er hætt að kaupa blaðið.
** Þeir karlmenn sem sitja fyrir stelpum og konum sem koma úr meðferð (eða skrá sig inní meðferð til að kynnast þeim þar) til að nota þær til að svala ógeðinu í sér á þeim, þeir einbeita sér ekkert bara að stelpum undir lögaldri, þó þær séu umfjöllunarefni DV þessa dagana. Þeir sækja líka í ungar konur (og örugglega konur á öllum aldri) og veit ég um sorgarsögu sem ekki hljómar betur en þær sem DV teflir fram og endaði mjög illa.
*** Við hin eigum ekki að líta bara svo á að þetta er vont en það venst. Við eigum aldrei að venjast klámhugsuninni, aldrei að venjast því að karlmenn komi svona fram við ungar stelpur og konur yfir 18 ára aldri. Og við eigum ekki að sætta okkur við að fjölmiðlar græði á öllu saman. Við eigum að finna leiðir til að stoppa þetta.

Efnisorð: , , , ,