föstudagur, janúar 21, 2011

Loksins umræða um siðferðilegar spurningar varðandi staðgöngumæðrun

Loksins er komin upp umræða um siðferðilegar hliðar þess að leyfa eða banna staðgöngumæðrun, burtséð frá þessu eina dæmi sem allt er orðið vitlaust útaf.

Í fréttaskýringu á Vísi (sjá myndband), er viðtal við Salvöru Nordal siðfræðing og forstöðumann Siðfræðistofnunar og kemur hún með ágæta punkta varðandi velferð barns sem kemur í heiminn með þessum hætti. Í fréttaskýringunni kemur líka fram að bresk kona fær 3milljónir ISK fyrir að ganga með barn í velgjörðarskyni og er það þá kallað að hún sé að fá greitt fyrir lækniskostnað (vegna þess að í Bretlandi er bannað að gera það í hagnaðarskyni), og er það alveg í stíl við það sem ég skrifaði hér um daginn þar sem ég taldi að auðvelt væri að fara fram hjá banni við peningagreiðslum. En ef þessi upphæð er borin saman við dæmið sem við þekkjum frá Indlandi þá fékk staðgöngumóðirin þar 300þús í sinn hlut, og í fréttaskýringunni kemur fram að það sé á við 3ja mánaða leigu á einu herbergi þar um slóðir. Það er því ekkert ofsagt um að verið sé að níðast á efnahagslegri örbirgð indverskra kvenna.


Ástríður Stefánsdóttir læknir og siðfræðingur var svo í útvarpsviðtali um sama mál (sem hlusta má á hér, upptakan virðist reyndar eitthvað skrítin, a.m.k. hökti spilarinn hjá mér viðtalið út í gegn) og sagði hún margt afar athyglisvert.

Hún benti á að börn sem eru ættleidd verða fullorðið fólk og með tímanum fái þau áhuga á að vita um uppruna sinn. Sjálf þekki ég dæmi þess, sem mér skilst að sé algengt, að allt kapp sé lagt á að finna móðurina sem gaf barnið frá sér. Einnig hef ég heyrt að í brjósti þess sem var ættleidd bærist ýmist fyrirlitning á þeirri konu sem gat látið það frá sér því það hljóti að vera mjög vond manneskja eða þá (eða líka) mikill efi um eigið ágæti því að ef að konan sem gekk með barnið — og móðurástin á jú að vera sterkasta tilfinning í heimi — ef sú kona gat látið barnið frá sér, hlýtur þá ekki barnið að hafa verið afar vondur og gallaður einstaklingur sem á varla tilverurétt? Þessu vilja ættleidd börn komast að þegar þau stálpast. Staðgöngumæðrun flækir þetta mál enn meir, hefði ég haldið.

Annað sem Ástríður benti á, var að með staðgöngumæðrun væri búið að opna á möguleikann á að einhleypir karlar keyptu (eða fengju) egg og létu koma fyrir í staðgöngumóður. Það rennur kalt vatn milli skinns og hörunds á mér við þessa tilhugsun. Ég veit vel að til eru karlmenn sem eru frábærir feður hvar sem á það er litið, þekki nokkra slíka sjálf, en karlmenn sem hafa ekki getað platað nokkra einustu konu til að búa með sér eða eiga með sér barn, eða vilja það jafnvel ekki, hvernig karlmenn eru það? Hefur slíkur karlmaður endilega hagsmuni barnsins í huga eða vill hann fá alræðisvald yfir barni, ungum einstakling, stálpuðum krakka sem breytist í unga konu? Næg eru dæmin um slíkt, mér dettur í hug fyrirmyndarfaðirinn Josef Fritzl.

Svo benti Ástríður líka á að uppi eru háværar kröfur um að vera hér með heilsutúrisma, þ.e. flytja inn erlenda sjúklinga. Hún segir að þar sem að aðstæður eru þannig á Íslandi að hér er fjöldi fólks í fjárþörf þá megi velta fyrir sér hvort hingað myndist aðstæður þar sem íslenskar konur taki að sér að vera staðgöngumæður fyrir erlend hjón. (Ætli samtök skuldara myndu ekki taka að sér milligönguna?)

Og hvað ef konur taka að sér í velgjörðarskyni að ganga með barn fyrir vinkonu eða frænku, og komast svo að því að uppeldi barnsins er alls ekki sinnt sem skyldi, mega þær þá ekkert skipta sér af því? Ég veit um konu sem gaf (tilneydd) börn sín til ættleiðingar og þau lentu á vondu heimili. Ekki nógu vondu til að börnin væru tekin af uppeldisforeldrunum en nógu vondu til að hin líffræðilega móðir leið sálarkvalir að vita af aðstæðum þeirra.

Það eru svo margar spurningar sem vakna þegar þessi mál eru skoðuð. Þetta má ekki bara snúast um „réttinn til að eignast börn með öllum ráðum“.

__
Viðbót: Ástríður Stefánsdóttir skrifaði afar góða grein sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísi. Lokaorð hennar eru að vara við því að semja lagafrumvarp um staðgöngumæðrun á tveimur mánuðum, það sé alltof stuttur tími fyrir svo viðkvæm mál.

Efnisorð: , , ,