mánudagur, janúar 17, 2011

Þegar skuldir eru lagðar að jöfnu við sparnað

Um helgina heyrði ég að til stæði að mótmæla við setningu alþingis í dag. Ég furðaði mig eilítið á þessu því ég vissi ekki betur en enn og aftur væri búið að tilkynna um einhverjar leiðréttingar lána og hvað það nú allt heitir og allskonar úrræði kynnt svo fólk gæti grynnkað á skuldum sínum. Ríkisstjórnin var alveg örugglega búin að segja að ekki væri meira hægt að gera. Sé svo í frétt í blaðinu að „öll úrræði fyrir skuldsett heimili“ séu komin til framkvæmda. Við hliðina á henni er önnur frétt um að hagsmunasamtök heimilanna boði til þessara mótmæla. Mig fýsti að sjá hvert tilefni mótmælanna er* og komst þá að því að krafan er sú að „fjárskuldbindingar almennings verði leiðréttar vegna afleiðinga banka- og gjaldeyrishrunsins.“ Það er semsagt ekki búið að ganga eins langt og hægt er í þá átt, að mati hagsmunasamtaka heimilanna, en hvenær finnst þeim þá að þeir hafi fengið allar óskir sínar uppfylltar? Jú, þeir vilja að „Staða lántaka verði þannig jöfnuð gagnvart innistæðueigendum sem fengu hlut sinn fyrirhafnarlaust bættan með ákvörðun stjórnvalda.“

Jahá.

Semsagt, sá sem var á venjulegum eða frekar háum launum (ekki bankastjóralaunum) og æddi af stað og keypti sér einbýlishús, Range Rover (og nýjan fólksbíl handa frúnni), var í sífelldum utanlandsferðum sem gengu útá gegndarlaus innkaup á fatnaði og allskyns varningi, keypti vélknúna snjósleða handa allri fjölskyldunni og í stuttu máli sagt hegðaði sér eins og vitleysingur í fjármálum því hann hefði aldrei getað þetta á launum sínum, hann á að fá stöðu sína jafnaða á við „innistæðueigendur“. Innistæðueigendur voru ekki alls ekki allir kúlulánaþegar eða aðrir útrásarvíkingar, síður en svo. Stór hluti þeirra var fólk sem er á eftirlaunaaldri** og hefur alla sína hunds og kattartíð sparað og geymt peningana til elliáranna, eða til að geta gaukað að barnabörnunum og hjálpað þeim í námi. Finnst stórskuldurunum í hagsmunasamtökum heimilana að það sé eitthvað og ég meina eitthvað réttlæti í því að sparsemi eldri kynslóðarinnar eigi eitthvað sameiginlegt með græðgi þeirra sem skulda nú eins og skrattinn skömmunum?

Það var auðvitað allt rangt við lánastefnu bankanna. Alveg frá því að dæla peningum í eigendurna (Jón Ásgeir, Björgólf Thor og alla þá „óskyldu aðila“) og yfir í það að bjóða skólakrökkum endalausan yfirdrátt. En þar sem að sumt, eða jafnvel megnið, af því sem lánað var fyrir voru ónauðsynlegir hlutir — eða ónauðsynlega stórt húsnæði — þá er ekki annað en hægt að benda fólki á að það hefði aldrei átt að taka öll þessi lán til þess að lifa lúxuslífi, jafnvel þótt það sæi að útrásarliðið leyfði sér það.

Svo skil ég ekki alveg þetta með að það skuli hafa verið svona rangt að tryggja innistæður.*** Margir hafa orðið til að gagnrýna bankakerfi og það að við skulum yfirhöfuð nota peninga, en eru hagsmunasamtök heimilana í þeim hópi? Það er alveg ljóst að ef að allir innistæðueigendur í öllum bönkum hefðu tapað öllu sínu, þá myndi enginn þeirra nokkurntímann framar leggja inn pening í banka. Og engir aðrir heldur því enginn myndi treysta bönkum fyrir peningum framar. Og hvar á fólk þá að fá lán? Ég held að þeir sem aðhyllast „við borgum ekki“ stefnu hagsmunasamtaka heimilanna séu ekki búnir að hugsa þessa kröfu sína til enda um að jafna stöðu sína gagnvart innistæðueigendum, því fyrsta verk stórskuldara yrði — fengju þeir allar skuldir sínar felldar niður — að hlaupa í bankann og heimta meiri pening til að geta haldið áfram að hegða sér eins og fífl. Væri enginn banki gætu þeir það ekki.

En stórskuldarar hugsa ekki. Þeir bara heimta.

___
* Auðvitað er tilefnið það að koma ríkisstjórninni frá. Sjálfstæðismenn eru trylltir yfir því að vera ekki í stjórn og svo eru það allir hinir sem hafa þvílíkt gullfiskaminni að þeir halda að kreppan sé þessari ríkisstjórn að kenna en ekki þeirri sem stýrði landinu lóðbeint á hausinn.
** Reyndar voru bankarnir mjög duglegir við að hvetja eldra fólk til að taka út af bankabókum til að kaupa hlut í bönkunum og því iðnari voru þeir að plata gamla fólkið eftir því sem nær dró hruninu. Margt eldra fólk missti því næstum allt sitt þegar bankarnir fóru á hliðina. En það sem ennþá átti sparisjóðsbókina sína átti sannarlega rétt á að fá að eiga innistæðu hennar áfram.
** Það hefði þó e.t.v. mátt vera þak á hve miklar innistæður svo að þeir sem áttu hundruðir milljóna af illa fengnu fé sætu ekki ennþá á hrúgunni löngu eftir að þeir komu þjóðinni á vonarvöl.

Efnisorð: , ,