föstudagur, desember 10, 2010

Burt með lúkurnar og klámkjaftinn!

Ég hef engan sérstakan áhuga á að fjalla um mál Gunnars í Krossinum. Þó hefur það orðið til þess að ég ákvað að skrifa hér örlítið um afstöðu karlmanna á öllum aldri til kvenna almennt og ungra stúlkna sérstaklega.

Ég, eins og aðrar konur, hef verið unglingsstúlka og hef því reynslu, eins og mjög margar aðrar, af því hvernig karlmenn koma fram við unglingsstúlkur. Allt frá því að á stelpur vex brjóst (sem gerist missnemma) þá virðast karlmenn líta á þær sem kynferðisverur. Stelpa sem er bara 12 ára en komin með brjóst er þannig kynferðisvera í þeirra augum og allmargir karlmenn láta eftir sér að segja henni frá því, benda henni á að hún sé komin með brjóst (hafi hún ekki tekið eftir því!) og sé orðin girnileg í þeirra augum. Enginn þessara karlmanna lítur á sig sem barnaníðing og ég er þess fullviss að margt fólk lítur ekki á þá karlmenn sem barnaníðinga sem einbeita sér að stelpum sem eru orðnar kynþroska eða líta út fyrir að vera kynþroska, þ.e.a.s. eru komnar með brjóst. Það heitir að „vilja þær ungar“ og þykir alltaf pínu fyndið en jafnframt mjög skiljanlegt, þær eru jú svo sætar.

Ég er ekki heldur að segja að allir þessir karlmenn séu barnaníðingar (eins og það er almennt skilgreint), sumir snerta allsekki stelpur á þessum aldri (og þeir sem snerta þær nauðga þeim ekki endilega heldur hafa gaman af að káfa á þeim) en eru aðallega í því að vera með athugasemdir, stríðni, yfirlýsingar um hvernig þeir séu réttu mennirnir til að kenna þeim á kynlíf eða spurningar um hvort þær séu byrjaðar að stunda kynlíf einar eða með öðrum. En já, svo eru það þeir sem láta það ekki nægja, heldur káfa og kreista og reyna að kyssa og komast með lúkur þar sem þær snerta bert hold, svo ekki sé minnst á þá sem ganga enn lengra og telja sjálfum sér trú um að þeir séu að kynna stúlkurnar fyrir kynlífi.*

Og svo er spurt, er þetta nokkuð svo alvarlegt? Stelpur hljóta jú að hafa áhuga á kynlífi og miðað við hvernig þær klæða sig og sperra sig fyrir karlmönnum þá leiðist þeim nú ekki athyglin, ha? Sannarlega taka stelpur og konur svona athygli misvel. Sumum finnst þetta óendanlega óþægilegt og verða hræddar við karlmanninn sem hegðar sér svona gagnvart þeim eða jafnvel við alla karlmenn. Sumar fá einfaldlega óbeit á karlmönnum. Aðrar sætta sig við þetta smátt og smátt og enda þótt einhverjar 'spili með' þ.e.a.s. koma sér upp stólpakjafti til að svara 'gríninu' (þær eru þá álitnar 'hressar' af karlmönnum) þá þykir flestum þetta verulega hallærislegt og karlmönnunum sjálfum til minnkunar.

Þegar karlmenn í valdastöðum beita slíku áreiti, hvort sem það er í formi káfs, yfirlýsinga um líkamsburði stelpu á kynþroskaaldri eða kynlífsáhuga sinn í garð hennar, þá er það auðvitað alvarlegt mál (já, hér er ég farin að tala um trúarleiðtoga lífs og liðna) án þess þó að það dragi úr alvarleika þess að leigubílstjórar og dúklagningamenn séu með sömu tilburði.** En stelpa (eða kona) sem verður fyrir einhverskonar áreitni af hálfu valdamikils karls er líklegari til að þegja yfir því og til að taka sökina á sig, því enginn myndi trúa neinu uppá hann og þaraðauki trúir hún líklega sjálf að hann sé í rétti til að hegða sér svona, þessi góði og virti maður. Þar með er komið í gang niðurbrjótandi ferli fyrir stelpuna sem leiðir tildæmis til þess að sjálfsvirðing hennar brotnar því henni finnst ekki sem hún hafi rétt til að verja sig fyrir kynferðislegu áreitni af hálfu karlmanna. Hún fer jafnvel að trúa því að hennar gildi í lífinu sé fólgið í þessum eftirsóknarverða skrokki.***

Það er því ekkert saklaust við það að segja ungum stelpum (já, alveg uppí þann aldur að þær séu komnar með kosningarétt, heyriði það kallpungar!) að þær séu komnar með kvenmannsvöxt og hvað þá þegar ítarlegar lýsingar á þeim vexti fylgja, án þess að ég nenni að telja upp orðalag sem karlmenn nota við slík tilefni eða þegar þeir lýsa því hvernig þeir vilja koma við sögu. Enda þótt margir karlmenn hneykslist nú á Gunnari í Krossinum þá hljómar það oft eins og það sé vegna þess að um er að ræða sá umdeildi maður en ekki vegna þess að þeim þyki neitt sérlega athugavert að kássast uppá ungar stelpur með ýmsum hætti.**** Karlmenn mættu íhuga athafnir sínar og orð oftar en þeir virðast gera, þetta er ekki saklaust og þetta bæði meiðir og hefur afleiðingar. Fyrir nú utan að stelpur (á öllum aldri) eiga sinn skrokk sjálfar og látið þær bara í friði.

Burtu með lúkurnar og klámkjaftinn!
___

* Margir karlmenn vilja vera fyrstir til að sofa hjá stelpu, sumir eflaust vegna þess að þeir telja hana þess heiðurs verðuga að fá að sofa hjá slíkum elskhuga sem þeir telja sig vera, sumir af annarlegum ástæðum eins og að þá sé hún „hrein“ (konur sem hafa sofið hjá mörgum eru þá óhreinar) en aðrir vegna þess að þeir óttast samanburð við getu annarra karlmanna til hvílubragða og vilja því bara rekkjunauta sem hafa ekki hugmynd um hversu illa þeir standa sig. Mig grunar að þeir séu allmargir.

** Svo er alltaf spurning hvort menn í sæki í valdastöður vegna þess að þá telji þeir sig geta hegðað sér eins og þeim sýnist eða hvort menn uppgötvi það þegar þeir eru komnir í valdastöðu að seint verði við þeim hróflað þó þeir hegði sér eins og svín. Hvernig menn tala og hegða sér gagnvart ungum stúlkum er ein tegund valdbeitingar því sannarlega er valdamunur mikill milli fullorðins karlmanns (hvort sem hann er valdamikill eða ekki) og stelpu sem er jafnvel enn í grunnskóla.

***Þetta ferli sést oft hjá þolendum sifjaspella og annars kynferðisofbeldis í æsku og, eins og ég hef margbent á, þá eru konur í vændi, strippi, og klámmyndum nánast allar með slíka sögu að baki. (Ég þarf varla að taka fram að þó konur í klámiðnaðinum hafi allar orðið fyrir kynferðisofbeldi er ekki þar með sagt að allar konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi leiðist út í klámiðnaðinn).

**** Ekki hafa svo margir fordæmt Roman Polanski, og hefur hann þó játað nauðgun á 13 ára stelpu.

Viðbót 27.desember: Þegar færi gefst eru blöðin lesin en þau vilja staflast upp í annríki. Í Fréttatímanum sama dag og pistillinn hér að ofan var skrifaður reyndist vera viðtal við konu sem segir m.a. frá því þegar hún varð fyrir nauðgunartilraun, 14 ára að aldri. Segir þar (á bls. 38): „Mín fyrsta „neikvæða“ lífsreynsla varð þegar ég var fjórtán ára. Þá vorum við fjölskyldan flutt í Hafnarfjörð og einhverra hluta vegna mátti ég ekki vera inni eitt kvöldið og var að ganga um götur Hafnarfjarðar þegar til mín kom maður og spurði hvort ég vildi ekki koma inn og hlýja mér. Ég, saklaus sveitastelpan, þáði það. Þegar inn var komið réðst hann að mér og fór að rífa utan af mér fötin. Ég sá þarna þykkan keramík-öskubakka og náði að slá honum í höfuð mannsins og komast út. Mér datt aldrei í hug að hann hefði nauðgun í huga — flokkaði þetta bara undir árás. Yfirmaður rannsóknarlögreglunnar í Hafnarfirði sagði við foreldra mína, að mér viðstaddri: „Ja, hún er nú komin með brjóst, sínar þarfir og sínar langanir.“ Þvílík niðurlæging, þetta var sem sagt mér að kenna, að hans mati.“
Það er einmitt þetta sem ég var að segja: um leið og stelpur eru komnar með brjóst þá er ályktað að þær séu til í hvað sem er með hverjum sem er — um það virðast bæði sá sem reyndi að nauðga stelpunni og löggan sammála.
Frásögninni lýkur svo á því að konan lýsir því að orð „embættismannsins sem allt vald hafði“ hafi setið í henni.

Efnisorð: , , , ,