mánudagur, nóvember 22, 2010

Alltíeinu hafa fjölmiðlar ekki áhuga á umfjöllun um fjölmiðla

Það er ekki ofsögum sagt að fjölmiðlar hafa mestan áhuga á fjölmiðlum. Hvert sinn sem nýtt andlit birtist á sjónvarpsskjánum rjúka prentmiðlarnir til og taka viðtal við nýjasta meðlim fjölmiðlahringekjunnar. Um þetta eru fáránlega mörg dæmi en hér er eitt nýlegt: Fréttatíminn var varla búinn að bjóða góðan daginn áður en hann tróð sjónvarpsfréttakonu á forsíðuna og birti (umdeilt) viðtal.

Alltaf virðist vera haft í huga að svo framarlega sem fjölmiðlafólki sé hampað þá sé A) möguleiki á að það hampi hinu fjölmiðlafólkinu og þannig fái allir í bransanum að sýna eldhúsinnréttinguna sína og útlista hvað hafi mótað lífssýn sína, og B) með því að halda fjölmiðlafólki í sviðsljósinu fari nú ekki framhjá neinum að þetta er mjög mikilvægt fólk. Samt tilkynna alltaf allir fjölmiðlar, þegar kvartað er yfir því hve fá viðtöl eru tekin við konur og íþróttaiðkun kvenna er lítið sinnt og bara yfirleitt hve lítið sést af kvenfólki í fjölmiðlum nema hálfbert og skakandi sér, að hlutverk fjölmiðla sé að sýna heiminn eins og hann er (þ.e.a.s. karlar eru í öllum mikilvægu og mest spennandi hlutverkunum), en ekki sýna hvernig hann ætti að vera. Og í huga fjölmiðlafólks er heimurinn fullur af mikilvægu fjölmiðlafólki, þó að í hugum okkar hinna sé margt merkilegra.

Hermann Stefánsson rekur sjálfhverfu fjölmiðla og nefnir gott dæmi: „Varla er hægt að hugsa sér skýrara dæmi um þetta en nýja frétt á Eyjunni. Fréttin byggir á - eða er, raunar - athugasemd Gunnars Smára Egilssonar við aðra frétt. Hún fjallar alfarið um sögu fjölmiðla og samskipti þeirra við stjórnvöld á undanförnum árum.“

En semsagt, fjölmiðlar eru uppteknir af sjálfum sér en þó ekki þegar þeir eru gagnrýndir.* Nýlega tók Hildur Lilliendahl sig til og gerði hausatalningu á Fréttablaðinu og merkti inná hverja blaðsíðu kynjaskiptinginu, þ.e.a.s. hve margar konur voru viðmælendur eða á þær minnst og hve margir karlar. Útkoman var kostuleg eða sláandi eftir því hvernig á það er litið,* en umfram allt hefðu aðrir fjölmiðlar átt að vera stútfullir af fréttum um hve Fréttablaðið væri úti að skíta í jafnréttismálum. Gott ef Fréttablaðið hefði ekki sjálft átt að slá því upp að það væri nú ekki nóg með að blaðið væri prentað í stóru upplagi heldur legði fólk (einsog Hildur) sig greinilega fram um að lesa það.***

Það getur svosem verið að krísufundir séu nú tíðir á Fréttablaðinu og rannsóknarnefnd hafi verið sett í málið, en einhvernveginn grunar mig að hvorki Fréttablaðið né hinir fjölmiðlarnir**** séu á leið í gagnrýna sjálfsskoðun á næstunni; ekki á því hvernig þeir voru meðvirkir í góðærinu, ekki á því hvernig þeir voru/eru handbendi eigenda sinna og síst af öllu á því hvernig konur eru markvisst útilokaðar úr opinberri umræðu (séu þær ekki að flagga líkamsburðum sínum eða þekktar fyrir það). Sá veruleiki sem fjölmiðlar kjósa að birta okkur er ekki byggður á gagnrýnni sjálfskoðun heldur bara miðaður útfrá naflaló miðaldra kalla.

___
* Hermann bendir líka á að fjölmiðlar þoli ekki gagnrýni á sig og tiltekur gagnrýni á þáverandi ritstjóra DV sem hrökkluðust úr starfi sem Gunnar Smári sneri upp í eitthvað allt annað.
** Í athugasemdakerfinu við Fréttablaðsúttekt Hildar eru andstæðingar kvenréttinda mjög háværir en eru um leið lýsandi dæmi um hve málstaður þeirra er vondur enda fúkyrðin fjölbreytileg og réttast að vara fólk við að lesa hroðann.
*** Starfsfólk Fréttablaðsins veit af úttekt Hildar, eins og hún segir sjálf: „Ég hjó eftir þögn blaðamanna á Fréttablaðinu (ef þeir skyldu halda að hún hafi farið framhjá mér) en a.m.k. fjórir þeirra eru mér sæmilega málkunnugir og tvær þeirra kvenna sem skrifuðu í blaðið í gær eru kunningjar mínir.“
**** Smugan tók reyndar stutt viðtal við Hildi en þar er samt ekki einu sinni tengill á bloggfærsluna hennar eða nein skýring á því um hvað er rætt, fyrir Smugulesendur sem ekki þekkja til málsins.

Efnisorð: , , ,