föstudagur, október 22, 2010

Meðvitundarleysi fjölmiðla

Nei, hér er ég ekki að taka út 8. hluta rannsóknarskýrslunnar, þar sem viðaukann með fjölmiðlagagnrýninni er að finna. Heldur langar mig að ræða stingandi dæmi úr fjölmiðlum dagsins. Því miður er í öllum tilvikum um fjölmiðlakonur að ræða en í fyrra dæminu er um litla klausu í Fréttablaðinu að ræða, kálfinum sem kallast Föstudagur, þar sem fjallað er um nýja snyrtivörulínu. Snyrtivörurnar eru gerðar í samvinnu við Disney og skarta myndum af ýmsum illkvendum sem þekktar eru úr Disney myndum, s.s. Cruellu de Ville.

Það þarf semsagt ekkert sérstakt hugmyndaflug að sjá markaðssetninguna að baki þessari nýju snyrtivörulínu. Nema hvað, blaðakonan* skrifar glaðbeitt að umbúðirnar séu „skemmtilega barnalegar“ en láist um leið algerlega að geta þess að markhópurinn er greinilega litlar stelpur sem annaðhvort eru nýbyrjaðar að fá pening til að kaupa snyrtivörur (í þeirri veiku von að líta út eins og fyrirsætur og poppstjörnur sem þeim er endalaust sagt að séu fyrirmyndir þeirra) eða þá svo ungar að þær eru ekki einu sinni komnar með áhuga á snyrtivörunotkun heldur eru enn á kafi í prinsessudraumum Disney myndanna sem þær hafa horft á síðan þær gátu setið uppréttar við sjónvarp. Þó það sé eflaust fyndið að fullorðnar konur hafi val um varaliti sem eru skreyttar illum nornum þá ætti öllu hugsandi fólki að vera ljóst — þó ekki væri nema eftir mikla umræðu síðustu ára — um skaðsemi þess að kippa börnum of snemma inn í heim fullorðinna, og að ásókn fyrirtækja í að tryggja sér velvild barna hefur ekkert með hagsmuni barnanna að gera heldur græðgi fyrirtækjanna sem beita öllum brögðum í markaðssetningu. Og hér er ég ekki einu sinni farin að tala um klámvæðinguna sem auðveldlega er hægt að sjá í því að ætla að selja börnum snyrtivörur.

Hitt, sem stakk mig þegar ég greip blöðin köld innúr bréfalúgunni í morgun, var forsíðuviðtal Fréttatímans við fréttakonu úr öðrum fjölmiðli.** Tilvitnunin á forsíðunni var þessi: „Ég held að það sé ekki vænlegt til árangurs að konur séu alltaf að velta sér upp úr því að þær séu konur og að þeim sé mismunað af því að þær séu konur.“ Þetta hefur ritstjóranum jafnréttissinnaða*** auðvitað fundist upplagt efni til að nudda framan í lesendur tveimur dögum fyrir hinn rómaða jafnréttisdag, 24. október.

Viðtalið sjálft inní blaðinu inniheldur semsagt þessa frámunalega sorglegu afstöðu sjónvarpsfréttakonunnar og er klausan of löng til að ég nenni að skrifa hana alla upp en það er allt í sama dúr, sbr. þetta: „Það er náttúrlega staðreynd að ennþá er einhver mismunun í samfélaginu en ég held að það sé konum ekki endilega til framdráttar að vera alltaf að leita skýringa á þessu.“

Það þarf ekki að hafa lesið fjölmiðlahluta rannsóknarskýrslunnar til að átta sig á að hér talar manneskja sem hefur lítið lesið eða heyrt af gagnrýni á fjölmiðla og hvernig þeir brugðust á „góðæristímanum“ og í aðdraganda hrunsins. Að fjölmiðlafólk skuli láta útúr sér að það borgi sig ekki að leita skýringa á einhverju, hvað þá því sem í hinu orðinu er viðurkennt að það er „einhver mismunun í samfélaginu“ er hrópandi dæmi um gagnrýnislausa hugsun og mjög líklega léleg vinnubrögð.

Botninn í samtalið — og nokkurnveginn botninn á þessu öllu saman — slær svo blaðakonan sem viðtalið tekur þegar hún spyr í framhaldi af því að konum sé ekki til framdráttar að leita skýringa á mismunun sem þær eru beittar, og spyr: „Þú ert ekkert gefin fyrir eitthvert væl?“

Þetta eru skilaboðin fyrir jafnréttishátíðina sem framundan er,**** öll málþingin og fundina og kvennafríið á mánudaginn: að þetta sé bara eitthvert væl. Því fréttakonan og blaðakonan hafa sammælst um að lokaorð viðtalsins séu að það sé „ekki leiðin til árangurs“.

Það er sorglegt að fjölmiðlafólk skuli ekki fylgjast betur með samtíma sínum.

___
* Ég geri ráð fyrir að það sé kona sem skrifar því aðeins tvær konur eru skrifaðar fyrir föstudagskálfinum. Karlmenn í fjölmiðlum eru ekki ráðnir til að skrifa lífstílsgreinar; það er eitt af kvennastörfum samtímans.

** Fjölmiðlafólk að taka viðtöl við annað fjölmiðlafólk, óþrjótandi efni.

*** Það vakti strax athygli mína þegar Fréttatíminn hóf göngu sína að á myndinni sem sýndi starfsfólkið voru aðeins fjórar konur á móti körlunum. Þar af ein prófarkalesari (góðkunn og gamalreynd) en ekki hefur verið venja til að hampa þeim á síðum blaða hingaðtil. En einhver hefur kannski bent á að það vantaði fleiri konur á myndina því aðeins þrjár blaðakonur eru starfandi á Fréttatímanum. Af þeim þremur voru a.m.k. tvær þeirra áður starfandi sem lífstílsblaðamenn og má því gera ráð fyrir að það sé þeirra aðalhlutverk á nýja vinnustaðnum. Sem sýnir auðvitað bæði hverskonar efni á að vera fyrirferðarmikið í blaðinu (umfjöllun um vörur sem seljendur þeirra svo auglýsa) og viðhorf ritstjórans til hlutverks kvenna í fjölmiðlastétt.

**** Það eru líka skemmtileg skilaboð eða hitt þó heldur í heilsíðuauglýsingu beint á móti Disneysnyrtivörunum í föstudagskálfi Fréttablaðsins þar sem „stelpur“ frá 18 ára aldri eru hvattar — utanlandsferð og módelsamningur í boði — til að taka þátt í leitinni að Sloggi stelpunni. Á myndinni má hverskonar kostum „stelpan“ (ekki fullorðin kona þannig að það er bannað að vera yfir tvítugu geri ég ráð fyrir) þarf að vera búin, þar er bakhluti fyrirsætanna í forgrunni, mismunandi lítið hulinn nærbuxum og þær eru allar berar að ofan. Og rúsínan í pylsuendanum er að kosningin um Sloggi stelpu ársins fer fram á heimasíðu útvarpsstöðvar, þar sem allir strákarnir geta kosið um flottasta rassinn! Jáh, um þetta eiga nú stelpur að keppast meðan á öllu þessu jafnréttisstússi kéllinganna stendur.

Efnisorð: , ,