laugardagur, október 02, 2010

Lífi nauðgara er lokið ef þeir játa

Ég hef verið að velta vöngum yfir þessu viðtali við Valtý Sigurðsson ríkissaksóknara sem DV tók vegna umfjöllunar um kynferðisbrot og þeirrar staðreyndar að aðeins sjö af 130 kærum enda með sakfellingu ogbirtir í bútum á netinu.

„Eitt málið var þess eðlis að fólk var í ástarleik þegar hann setti lim sinn inn í hana. Hún bað hann um að hætta en hann hélt áfram í smástund áður en hann varð við þeirri bón. Í kjölfarið kærði hún hann fyrir nauðgun.
Valtýr segir að vandinn við þetta mál hafi verið að ásetningur hafi ekki verið til staðar. „Hann verður að vita að hann sé að beita hana nauðung. Hann verður að hafa ásetning um nauðgun. Þau eru þarna í ástarleik.“
Valtýr segir einnig: „Þarna játaði hann verknaðinn, en játaði ekki að hafa ætlað að nauðga manneskjunni. Það er heljarinnar munur þar á. Ég er hræddur um að það þyrfti þá að byggja ansi stór fangelsi ef menn ætluðu sér að telja öll svona atvik sem nauðganir og dæma alla. Það væri ekki bara alvarlegt heldur skelfilegt að senda menn á Litla Hraun án þess að þeir viti nokkurn tímann af hverju, hvað þeir gerðu. Þú getur rétt ímyndað þér að eftir svona djamm væri lífi þeirra lokið. Ég þarf ekki að setja mig í spor þessara manna til þess að skilja það. Menn geta bara hugsað það sjálfir, hver fyrir sig. Maður vil ekki búa í þannig ríki.“
Það virðist ekkert vefjast fyrir Valtý að búa í ríki þar sem konur verða fyrir nauðgunum og eiga margar hverjar í miklum sálrænum erfiðleikum árum saman eða jafnvel alla ævi sem afleiðingar þess að einhver karlmaður taldi sig eiga rétt á að taka skrokkinn á þeim til handargagns um stund. Þær eiga líklega bara að taka því eins og hverju öðru hundsbiti.

Valtýr segir líka:
„Þegar kona kærir nauðgun sem aldrei átti sér stað kemur yfirleitt tvennt til. Henni líður illa út af málinu eða það er ágreiningur varðandi það sem gerðist, hvort það telst ólögmæt nauðung, nauðgun eða hvað. Oft fara mál í þennan farveg þegar atburðinum er lokið og hún fær samviskubit. Hugsar kannski með sér: „Hvað segir kærastinn?“, „Hvað var ég að gera?“, „Hvað á ég að segja foreldrum mínum?“ Þá sannfærir hún sig um að þetta hljóti að hafa verið nauðgun. Ég held að í mörgum tilfellum séu þessar stelpur bara ekkert að pæla í þessu. Þetta hljóti bara að vera nauðgun. Þegar foreldrar eða kærasti kemst í málið og þær segja að þetta hafi ekki verið með þeirra vilja eru völdin tekin af þeim og maskínan fer af stað. Allt í einu eru þær komnar upp á Neyðarmóttöku og þær verða að kæra. En þótt foreldrar eða kærasti hafi komist í málið og það sé kært lítum við ekki á það sem rangar sakargiftir.“
Ég hef áður skrifað um hver eftirsóknarvert það er fyrir konur að komast í hinn mikla stuðklúbb sem Stígamót eru og að þær eru til í að ljúga hægri vinstri til að komast þar inn fyrir dyr. En svo er líka mjög líklegt að kona sem skammast sín fyrir kynlíf með karlmanni ákveði að í stað þess að þegja þá bara yfir því þá básúni hún það um allt og sé tilbúin að lýsa samskiptunum í smáatriðum fyrir fjölda manns, af eintómri sektarkennd vegna þess að hún sér eftir kynlífi með karlmanninum.

Svo bendir Valtýr líka á hve ótrúverðugar konur eru hafi þær drukkið áfengi, en minnist ekkert á hve karlmenn bera oft við minnisleysi eða að þeir hafi verið of drukknir til að taka eftir að konan vildi ekki kynlíf með þeim, trúverðugleika karlmanna dregur hann ekki í efa:
„Það getur haft áhrif á trúverðugleika kvenna að þær séu drukknar. Ef þær eru mjög drukknar er það oftast þannig að þær muna verr hvað gerðist og þá er minna að marka það sem þær segjast hafa sagt og gert. Það er eðlilegt. Að sjálfsögðu skiptir það máli hversu drukknar þær eru.“


Fyrst og fremst er ég hugsi yfir því af hverju Valtýr segir svona hluti. Lærði hann ekkert af umræðunni sem spannst þegar Björgvin Björgvinsson þáverandi (og þarafleiðandi fyrrverandi) yfirmaður kynferðisbrotadeildar gubbaði útúr sér álíka kvenfjandsamlegum viðhorfum? Eða er karlveldinu svo mjög í mun að koma konum í skilning um hina réttu skipan hlutanna að hver á fætur öðrum stíga fram karlmenn innan kerfisins til að afhjúpa hvernig kerfið lítur á konur sem hafa orðið fyrir kynferðisbrotum og eru svo frekar að kæra nauðgarana sem á þær hafa ráðist?

Vissulega hafa þessir kyndilberar valdsins stoð í lögum þegar þeir segja að það skipti máli hvað nauðgarinn hugsar áður en hann nauðgar konunni, því að samkvæmt lögum skiptir ætlun meira máli en athöfnin. Fáist karlmaður ekki til að viðurkenna fyrir lögreglu og dómstólum að hann hafi hugsað með sér: „Hér kem ég, nauðgarinn, og ætla að nauðga konu“ þá er eins víst að hann komist upp með athæfið. Honum nægir þá að hafa af gömlum vana litið á konuna sem rétt-ríðanlega* úrþví að hún var nú þarna fyrir framan hann á þessari stundu. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir benti á að í öðrum löndum eru lögin á þá leið að ætlun skipti ekki máli og ég man ekki betur en Atli Gíslason hafi lagt fram frumvarp sem átti að breyta þessu í þá átt.**

En afhverju segir þá ekki ríkissaksóknari að það þurfi að breyta lögunum því að þau bjóði uppá að nauðgarar sleppi séu þeir nógu staðfastir í neitun sinni? Hann virðist allavega samkvæmt viðtalinu tala eins og það sé óumflýanleg staðreynd að ekki sé um nauðgun að ræða nema karlmaður játi að hafa ætlað sér að nauðga.

Og hvernig stendur á því að karl þessi, ríkissaksóknari sem ekki nokkur leið er að losna við úr starfi, lætur útúr sér aðra eins kvenfyrirlitningu og skilningsleysi á mannlegum samskiptum að halda því fram að í hvert sinn sem kona fer heim með manni eða býður honum heim með sér, í hvert sinn sem kona er til í að kyssast smá en er kannski ekki til í meira eða áttar sig á því eftir sem líður á kelerí að hana langar bara ekkert í kynmök*** eða félagsskap karlmannsins yfirleitt á þeirri stundu — þá skuli hún bara gjöra svo vel og gera sér grein fyrir að karlmaðurinn vill sína fullnægingu og engar refjar og hver er hún að ætla að standa í vegi fyrir því?

Kynfrelsi kvenna, þetta nýuppfundna frelsi kvenna til að stunda kynlíf þegar okkur langar, það er líka frelsi okkar til að segja nei takk við kynlífi sem við viljum ekki. Meira segja þegar einhver viðstaddur vill stunda með okkur kynlíf. Það að konu snúist á einhverjum tímapunkti hugur í samskiptum við karlmann og vilji 'skyndilega' ekki ganga lengra, það ætti og á að vera sá tímapunktur þar sem öllum tilraunum í þá átt er hætt. Það skiptir engu hvaða hugsanir fljúga gegnum hausinn á karlmanninum á þeirri stundu, hann hefur engan rétt á því að koma vilja sínum fram við konu sem vill hann ekki. Punktur.

En mikið djöfull sem löggan og ákæruvaldið eru ósammála því.

___
* Sbr. réttdræpur.
** [Viðbót löngu síðar]. Atli lagði fram slíkt frumvarp í félagi við aðra alls fimm sinnum. Fyrst á 135. löggjafarþingi 2007–2008, að lokum, og jafn árangurslaust og áður, á 141. löggjafarþingi 2012–2013. Kjarnann í frumvarpinu má lesa í grein eftir Atla frá 2007 sem lesa má hér.
*** Það kemur oftar fyrir en karlmenn virðast halda að konur vilja ekki samfarir eða aðrar kynlífsathafnir jafnvel eftir ítarlegt kelerí; þeir standa margir í þeirri trú að reki þeir tungu uppí konu tryllist hún úr greddu.

Efnisorð: , , ,