þriðjudagur, ágúst 31, 2010

Sveitarstjórnarmál

Skásta ástandið þessa dagana er á Selfossi, ég meina Árborg. Þar skömmuðust sveitarstjórnarmenn sín til að hætta við að heimta að allir kettir væru fangar nema stutta stund dag hvern þegar þeir væru dregnir út í bandi. Létu sér reyndar ekki segjast fyrr en Dýralæknafélagið ávítaði þá fyrir skepnuskap.

Í Keflavík (eða Reykjanesbæ eins og enginn kallar það) hefur Árni Sigfússon selt allt dótið og leigir það svo fyrir sveitarfélagið aftur — enda verður starfsemin að fara fram nema í einhverju húsnæði. Græðir eflaust vel á öllu saman sjálfur (og vinir hans og frændur) en þegar honum er vinsamlega bent á að hann hefði átt að láta vita að sveitarfélagið væri að fara á hausinn þá var hann svo sannfærður um að það væri risið álver í túnfætinum hjá honum að hann tók ekki eftir að það var ekki farið að hala inn peninga því það á eftir að búa til höfnina, reisa álver og meirasegja fá rafmagn til að knýja það orku — en við öll hin höfðum alveg tekið eftir því að álverið mundi ekkert rísa nema öruggt væri að yrði virkjað og svo lagðar línur. Hann og iðnaðarráðherra virðast eina fólkið sem ekki hefur áttað sig (má segja ljóskubrandara hérna?) á möguleikanum á að aldrei fáist orka og að aldrei verði reist álver. Og að í ríkisstjórn er flokkur sem hefur það bara ekkert á dagskrá að hvetja til virkjana, álvera eða lagningu raflína yfir vatnsból höfuðborgarinnar.

Í Reykjavík* þarf að hækka hitaveitureikninginn og rafmagnsreikninginn til allra. Það var nú aldeilis skemmtilegur endir á virkjana- og útrásarstemningunni sem hefur ríkt í glæstum höfuðstöðvum Orkuveitunnar undanfarin ár. Kannski verður þannig ástand næstu vetur að fólk króknar í íbúðum sínum og finnst ekki fyrr en mörgum vikum síðar. Þá mun nú ekki veita af að hafa eins og einn léttan grínara í borgarstjórastólnum til að hjálpa okkur við að sjá húmorinn í því.

___
* Enn hefur nafni Reykjavíkur ekki verið breytt, kannski kemur að því ef sveitarfélögin fjölmörgu á höfuðborgarsvæðinu sameinast. Þá liggur beinast við að kalla hana Gullbringuborg — afleiðingin verður þá reyndar líklega sú að Bjöggi Thor gerir tilkall til borgarstjórastólsins.

Efnisorð: , , , ,