þriðjudagur, ágúst 17, 2010

Löggur og drukknar konur

Þegar ég las ummæli Björgvins Björgvinssonar yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar þá var ég viss um að þetta væri enn eitt skiptið þar sem fólk væri að lenda illa í DV og beið eftir því að löggan kæmi fram í fjölmiðlum og segði orð sín rangtúlkuð. En í staðinn rak Ragna hann úr starfi eftir að hafa rétt honum penna til að skrifa undir afsagnarbréfið sem hún hafði skrifað upp fyrir hann svo hann mætti þykjast hafa séð sóma sinn í að segja af sér.

Í millitíðinni — frá því að ég las ummæli löggunnar og þar til hann var rekinn með skít og skömm — fylgdist ég stóreyg með umræðunni. Flest fólk virtist vera hissa á því að miðaldra karlmaður í vel skilgreindu kallastarfi (með nokkrum konum til skreytingar inná milli) hefði samúð með nauðgurum! Var ég ein um að finnast vera ekkert undrandi á hugsunarhætti hans? Ég veit ekki um marga kalla sem ekki bera í bætifláka fyrir nauðgara á einn eða annan hátt. Flestir finna alltaf sök hjá konunni sem er nauðgað og helst virðast þeir alltaf halda að konur misskilji svona hluti og ljúgi restinni. Það að þessi tiltekni kall er lögga* segir ekkert til um hugsunarhátt hans almennt; hann er auðvitað ekkert skárri en hjá öðrum köllum enda þótt þessi hafi verið sendur á einhver námskeið. Eini feillinn hjá þessum löggukalli var sá að segja skoðun sína upphátt — allir hinir skoðanabræður** hans halda vinnunni með því að þegja yfir soranum í hausnum á sér.

En útafþví að þessi tiltekni kall hafði nú yfirumsjón með kynferðisbrotum og það er nauðsynlegt að telja fórnarlömbum nauðgara trú um að þeim verði vel tekið hjá löggunni og ef þær kæri þá geti það leitt til þess að nauðgarinn fari í fangelsi*** og þessvegna tók Ragna sig til og rak löggufíflið. En auðvitað er lágmark að menn í hans stöðu séu ekki beinlínis opinberlega að fæla fólk frá því að kæra, nóg er nú samt. Stígamót hafa alla tíð bent á að svona viðhorf megi ekki vera uppi hjá löggunni, nú er Ragna þó búin að gefa þau skilaboð að svonalagað verði ekki liðið.

Sjálfri finnst mér ekki alveg skipta máli hvort kona er drukkin eða edrú þegar henni er nauðgað — það er nauðgarinn sem nauðgar henni, edrú eða fullur. Annars skrifaði ég um áhyggjur mínar af drukknum konum fyrir margt löngu og heitir sá pistill „Konur verða aldrei óhultar fyrr en karlar hætta að nauðga.“

Löggur og aðrir sem vilja ræða ofneyslu áfengis ættu að gera það algerlega án tenginga við nauðganir, því áfengis- eða vímuefnaneysla fórnarlambanna hefur ekkert með þetta að gera. Eða gæti ég farið á skemmtistað, bláedrú, og valsað ein inná klósett í 100% vissu um að ég væri örugg? Eða hefur öryggi mitt eitthvað með karlmennina á staðnum að gera? Um það snýst málið.
___
* Hann er auðvitað áfram lögga því þó Ragna hafi rekið hann úr yfirmannsdjobbi þá er samtrygging löggumanna sterk og þeir eru tilbúnir með þægilega innivinnu fyrir vini sína sama hvað þeir gera af sér. Menn hafa nú fengið varðstjórastöðu útá annað eins og meira. [Sjá svo seinni tíma viðbót hér neðar].
** Á ráðstefnu Stígamóta 9. mars síðastliðinn var slatti af löggum í salnum og ég man ekki betur en þeim hafi verið klappað lof í lófa fyrir að vera þar mættir með víðsýni sína. Ætli þessi ágæti Björgvin Björgvinsson hafi setið þar í góðum hópi starfsfélaga sinna — hugsandi sitt?
*** Nauðgarar lenda sjaldan í fangelsi, ja nema það séu Pólverjar, þeir fá þyngri dóma en Íslendingar sem yfirleitt sleppa því þeir hafa frítt veiðileyfi á konur en stundum fá þeir skilorð ef þeir eru voða óheppnir.

Viðbót (sem rímar mjög við fyrstu neðanmálsgreinina hér að ofan): Aðeins örfáum dögum eftir að Björgvin var rekinn úr stöðu yfirmanns kynferðisbrota sýna samstarfsmenn honum stuðning sinn í verki með því að láta hann vera í forsvari í morðrannsókn. Þetta kallar maður almennilega vini!

Efnisorð: , ,